Mikilvægi þess að heyra

Mikilvægi þess að heyra

Þennan dag minnumst við þess mikilvæga starfs sem Kristniboðssambandið stendur fyrir ásamt því að ræða mikilvægi þess að eiga saman samveru þar sem við heyrum Guðs heilaga orð. Kirkjusókn hefur rýrnað með árunum í ýmsum prestaköllum og þess vegna er aldrei mikilvægara en nú að nota eyrun sem góður Guð gaf okkur og heyra!
fullname - andlitsmynd Árni Þór Þórsson
13. nóvember 2022
Flokkar

Í dag er Kristniboðsdagurinn þar sem við minnumst þess góða starfs sem Kristniboðssambandið stendur fyrir. Sambandið heldur utan um alls kyns starf og þar á meðal boðunar- og fræðslustarf í samvinnu við sjálfstæðar kirkjur í Eþíópíu, Keníu og Japan. Einnig eru hjálparstarf, þróunarverkefni og kærleiksþjónusta eðlilegur hluti af starfi Kristniboðssambandsins. Flest þeirra verkefna sem sambandið styrkir eru tengd menntun og skólagöngu í Eþíópíu og Keníu. Annað starf sem er mjög öflugt hjá þeim er fjölmiðlastarfið, þar sem bæði eru útvarpssendingar til Kína og sjónvarpssendingar til Mið-Austurlanda og Norður-Afríku. Þetta starf er rekið í nafni Sat7, samkirkjulegs sjónvarpsstarfs sem tekur mið af menning og aðstæðum í þessum löndum. Megnið af efninu er unnið af heimamönnum fyrir heimamenn og er þetta einstaklega mikilvægt vegna stríðsátaka á þessum slóðum, fjölda flóttamanna og ofsókna. Einnig er kennd arabíska, lestur, enska og stærðfræði í gegnum fjölmiðlastarfið. Allt þetta starf er stutt af Kristniboðssambandinu. Að þessari guðsþjónustu lokinni munuð þið fá eintak, ef þið viljið, af þessu bréfi Kristniboðssambandsins með upplýsingum um hvernig þið getið hjálpað til við að styrkja þessi störf boðunnar og fræðslu.

Starf kirkjunnar hefur verið frá upphafi og mun alltaf vera að boða fagnaðarerindi Jesú Krists. Venjulega þegar við viljum lesa um boðskap Jesú þá leitum við til Nýja testamentisins og þá sérstaklega í guðspjöllin. Nýja testamentið var upphaflega skrifað á forn-grísku eða koine-grísku og er forn-gríska orðið fyrir guðspjall euangelion sem þýðir beinlínis „góðar fréttir.“ Við getum spurt okkur sjálf: „Hverjar eru þessar góðu fréttir sem guðspjöllin greina frá? Það er mjög mikilvægt að gera sér grein fyrir því að fylgjendur Jesú fórnuðu nánast öllu til að fylgja honum. Fólk yfirgaf fjölskyldur sínar, gaf eigur sínar og land sitt, hætti störfum og ákvað að fylgja manni sem boðaði að Guðs ríki væri í nánd. Það hlýtur því að hafa verið mikið áfall þegar þessi maður, sem fólkið trúði að væri Messías sjálfur, var pyntaður, krossfestur og drepinn. Öll guðspjöllin sem eru í Nýja testamentinu greina síðan frá viðburði sem átti eftir að breyta sögu mannkyns að eilífu. Þremur dögum eftir dauða Jesú reis hann upp frá dauðum og fjörutíu dögum síðar steig hann upp til himna. „Góðu fréttirnar“ eru þær að Jesús Kristur er upprisinn, hallelújah! Hann er upprisinn. Jesús sannar með upprisu sinni að dauðinn er einungis einn vegur sem við öll þurfum að ganga eftir. Enn vegurinn endar ekki þar heldur leiðir hann til eilífs lífs, svo sannarlega góðar fréttir!

Í Rómverjabréfinu sem ég las úr áðan segir Páll postuli: „Trúin kemur þannig af því að heyra.“ Eins leggur Jesús áherslu á heyrnina þegar hann segir: „Hver sem eyru hefur hann heyri.“ Þessi orð Páls og Jesú hafa mögulega aldrei verið eins mikilvæg og sönn eins og núna í okkar vestræna samfélagi. Áhuginn á kirkjunni og orði Guðs hefur rýrnað mjög á sumum stöðum og færra fólk kemur saman til að heyra Guðs heilaga orð. Ég átti ágæt samtal við kollega minn um slæma kirkjusókn Íslendinga. Við vorum að ræða hvað væri hægt að gera til að auka kirkjusóknina. Prestar, djáknar, æskulýðsleiðtogar og annað starfsfólk hefur reynt margt og breytt ýmsu í helgihaldinu til að laða að fólk sem venjulega mætir ekki til kirkju. Sumt af því hefur virkað á sumum stöðum og er það mjög gott að sjá. En yfirleitt hefur þetta ekki virkað og kirkjusókn heldur áfram að rýrna í sumum prestaköllum. Hvað getum við gert? Ég og kollegi minn komumst að þeirri niðurstöðu að sama hvað við myndum reyna þá mun það líklega ekki hafa þau víðáttumiklu áhrif sem við sækjumst eftir. Það er á endanum ákvörðun einstaklingsins hvort hann vilji koma í kirkju og heyra Guðs orð. Það er ákvörðun hvers og eins hvort hann trúi á Jesú Krist og vilji taka við honum í sitt hjarta.

Nútímasamfélag hefur krafist þess að kirkjan breytist og það hefur hún gert og oft til hins betra. Þjóðkirkjan á Íslandi er opin öllum og dæmir engan sem leitar hjálp til hennar. En kirkjan á ekki að þurfa að breyta öllu sem hún stendur fyrir til að laða að fólk. Þessar breytingar þurfa að koma úr báðum áttum. Í fornöld var það einstaklingurinn sem þurfti stöðugt að aðlaga sig að kirkjunni, fara eftir hennar lögum og reglum sem gengu oft allt of langt. En í dag er búið að snúa þessu við og kirkjan er farin að aðlaga sig mjög mikið að einstaklingnum, kannski einum of mikið. Einstaklingurinn þarf ekki lengur að aðlaga sig að kirkjunni. Hann finnur enga skyldu til að mæta í kirkju og heyra Guðs heilaga orð og mætir þess vegna aldrei því að messur eru of leiðinlegar. Kannski myndi einstaklingurinn mæta ef messurnar væru eins og rokktónleikar en þá þarf sá að spyrja sjálfan sig: „Er hann að koma fyrir rokktónleikana eða fyrir Guðs orð?

Það sem ég er að reyna að segja er að það er ekki einungis ábyrgð presta, djákna, æskulýðsleiðtoga og annars starfsfólks kirkjunnar að laða að fólk í kirkju. Við gleymum þessu oft en kirkjan er ekki einungis húsnæði heldur er hún fólkið sem kemur saman til að heyra, til að hlusta og nærast. En boðun Jesú Krists á ekki að enda hér í prédikunarstólnum heldur eiga sóknarbörnin að taka þann boðskap og halda áfram með hann út á akurinn. Eins og Jesús sagði: „Uppskeran er mikil en verkamenn fáir.“ Þetta gæti ekki verið skýrara því að veruleikinn er sá að verkamenn eru afar fáir og það breytist ekki fyrr en fólk áttar sig á því að kirkjan er samfélag sem þarf að koma saman og heyra Guðs heilaga orð. Amen.