Kornfórnin og kærleikurinn

Kornfórnin og kærleikurinn

Þarna má hins vegar merkja ákveðna þróun mannkyns, kannski þroska mannsins í samskiptum sínum við hina huldu krafta tilverunnar, í samskiptum sínum við Guð.

Biðjum:

Heyrðu mig hjartakær Jesú

hlusta´á mitt bænamál

Hjálpa mér að þóknast þér

þjóna af lífi og sál. Amen. (Sálmur 857:1)

 

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

 

Brennifórnir og sláturfórnir

 

Tókuð þið eftir því að í textum dagsins er talað um brennifórnir og sláturfórnir?

 

Eru þessi hugtök yfir höfuð til á íslensku?

 

Skiljið þið hvað þessi hugtök vísa til, hvað merkja þau?

 

Brennifórnir, sláturfórnir.

 

Fórn.

 

Í samhengi hins forna heims, þess samfélags sem var uppi löngu fyrir tíma Jesú, þróaðist fyrirkomulag um fórnarsiði, fórnarathafnir, þar sem fólk vildi hafa áhrif á hina huldu krafta tilverunnar.

 

Huldu kraftarnir

 

Eru hinir huldu kraftar tilverunnar okkur hliðhollir eður ei?

 

Kraftarnir sem hreyfa himintunglin. Kraftarnir sem ólga í iðrum jarðar og birtast okkur í eldgosum. Kraftarnir sem búa að baki öllu lífi, uppsprettan sem kveikti líf á jörðinni og viðheldur því. Framgangur lífsins, dýrin öll og náttúran í allri sinni fjölbreytni, hugurinn þar að baki. Lífið þitt og lífið mitt.

 

Eru þessir kraftar okkur hliðhollir eður ei?

 

Þessa spurningu hefur maðurinn glímt við í gegnum árþúsundin. Og á síðum Biblíunnar má sjá róttæka þróun mennskunnar í þessum samskiptum, mannsins við hinn æðri mátt, hina huldu krafta, við Guð.

 

Getum við haft áhrif á hina huldu krafta?

Getum við haft áhrif á Guð?

 

Hvað heldur þú?

 

Með fórnunum, brennifórnum og sláturfórnum, og ýmsum öðrum fórnum, reyndi maðurinn að hafa áhrif á Guð. Við sjáum upplýsingar um þetta í Biblíunni.

 

Þróun og þroski

 

Við þekkjum sjálfsagt öll þessa mannlegu tilfinningu, þ.e.a.s. ef ég geri hlutina með einhverjum tilteknum hætti, þá farnast mér líklega vel. Eins og íþróttamaðurinn sem er búinn að koma sér upp ákveðnu „ritúali“ fyrir leiki, varðandi mat, svefn, föt, skó og hvað það annað. Sumir verða alltaf að vera í sama bolnum, undir Víkingstreyjunni. Þá fer allt vel, sömu sokkunum.

 

Það er grunnt á þessari tilfinningu hjá okkur, manneskjunum, þ.e.a.s. að við reynum með ýmsum hætti að hafa áhrif á hina huldu krafta.

 

Þriðja Mósebók er uppfull af nákvæmum fyrirmælum um fórnir. Brennifórnir, kornfórnir, sektarfórnir, heillafórnir, fórn fyrir synd æðsta prestsins, fórn fyrir synd safnaðarins, fórn fyrir synd einstaklings og þannig mætti áfram telja. Dæmi:

 

Þegar einhver ætlar að færa Drottni kornfórn á gjöf hans að vera fínt mjöl. Hann skal hella olíu yfir það og leggja reykelsi ofan á. Þá skal hann færa það sonum Arons, prestunum. Presturinn skal þá taka handfylli af mjölinu og olíunni ásamt öllu reykelsinu. Því næst skal presturinn láta minningarhluta fórnarinnar líða upp í reyk af altarinu.
Þetta er eldfórn, Drottni þekkur ilmur. (3. Mósebók 2:1-2)

 

Þessi nákvæma lýsing er okkur mjög framandi. Þarna er hins vegar talað um altari. Hér í kirkjunni höfum við líka altari. Við erum hins vegar ekki lengur að brenna korn á altarinu, eða slátra dýrum og brenna sem fórn til Guðs.

 

Á altarinu í dag höfum við Biblíuna, sem geymir vitnisburð um hina algjöru fórn Jesú á krossinum í mannsins þágu, í þína þágu og mína.

 

Við sjáum það á þessum texta úr þriðju Mósebók að mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan sá texti var ritaður og þeir siðir voru við lýði. Samfélag manna hefur þróast, við fylgjum ekki lengur þessum leiðbeiningum úr lögmálinu um framkvæmd á hinum ýmsu fórnum. Maðurinn er hættur því fyrir löngu, og þá meina ég fyrir mjög löngu síðan.  

 

Þarna má hins vegar merkja ákveðna þróun mannkyns, kannski þroska mannsins í samskiptum sínum við hina huldu krafta tilverunnar, í samskiptum sínum við Guð.

 

Boðorð

 

Í þessu samhengi, þessari glímu mannsins við hina huldu krafta tilverunnar, verða til boðorð.

 

Lexía dagsins úr annarri Mósebók er einmitt grundvöllur að öllum nútíma mannréttindasáttmálum heimsins, þarna er frásagan af því er Móse tekur við boðorðunum tíu frá Guði og kynnir þau samfélagi manna.

 

Þótt fórnarathafnirnar séu ekki iðkaðar lengur, þá eru boðorðin enn í fullu gildi og geta verið manni rammi til að lifa innihaldsríku og kærleiksríku lífi.

 

Stundum hefur verið sagt að boðorðin séu sett upp í mikilvægisröð, þ.e.a.s. fyrsta boðorðið er mikilvægast o.s.frv. Einnig má segja að fyrstu þrjú boðorðin fjalli um Guð og síðari sjö um náungann.

 

Þau hljóma svona:

 

Ég er Drottinn, Guð þinn, Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig.

Þú skalt ekki leggja nafn Drottins, Guðs þíns, við hégóma.

Minnstu þess að halda hvíldardaginn heilagan.

Heiðra föður þinn og móður.

Þú skalt ekki morð fremja.

Þú skalt ekki drýgja hór.

Þú skalt ekki stela.

Þú skalt ekki bera ljúgvitni gegn náunga þínum.

Þú skalt ekki girnast hús náunga þíns.

Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns, þræl hans eða ambátt, uxa hans eða asna eða nokkuð það sem náungi þinn á.“

 

Hafið þið stúderað boðorðin?

Ef þið ættuð að búa til boðorð hvernig myndi það hljóma?

 

Hvert er aðalatriðið í þessu? Hvað er það sem skiptir mestu máli?

 

Það var einmitt það sem fræðimaðurinn var að spyrja Jesú í guðspjalli dagsins.

 

Yddari

 

Jesús svarar honum líkt og hann svarar flestum sem spyrja hann, hvað finnst þér? Hvernig lest þú? Hvernig skilur þú lögmálið?

 

Jesús svarar honum síðan með því að vísa í boðorðin tíu, en það er líkt og hann taki þau öll, og öll önnur boðorð, lögmál og fyrirmæli Gamla testamentisins og yddi þau, líkt og um blýant væri að ræða, sem hann stingur í yddara og snýr.

 

Eftir stendur tvöfalda kærleiksboðorðið um elskuna til Guðs og elskuna til náungans, sem við þekkjum öll.

 

Einfalt, en í senn svo flókið.

 

Flókið

 

Hvað þýðir það að elska Guð af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum huga þínum og öllum mætti þínum?

 

Hvað þýðir það í þínum huga? Hvað kemur upp í huga þinn?

 

Við tölum oft meira um þetta að elska náungann, og það hver náungi okkar er.

 

En hvað með elskuna til Guðs?

 

Að elska Guð hefur afgerandi áhrif á forgangsröðina í lífinu, hugsunargang og hvernig við ráðstöfum okkar auðæfum. Að elska Guð, krefst iðkunar, lestur og bænar.

 

Að elska Guð stuðlar síðan að frelsi í lífi einstaklingsins frá öllum hinum guðunum í veröldinni sem vilja ná tökum sínum á okkur.

 

Það þekkja þeir, til dæmis, sem hafa glímt við einhvers konar fíkn. Elskan til Guðs, bjargar fólki úr slíkum aðstæðum, eins og dæmin sanna.

 

Svo er það elskan til náungans, sem getur verið flókið fyrirbæri, vegna þess að kærleiksboðorð Jesú nær ekki aðeins til þeirra sem standa okkar hjarta næst, heldur til allra. Og kannski einmitt fyrst og fremst til þeirra sem við teljum ekki endilega í okkar innsta hring.

 

Og svo er það þetta með að elska náungann eins og sjálfan sig.

 

Erum við góð í að elska sjálf okkur?

 

Hvað merkir það?

 

Stundum virðist mér skorta á elskuna til okkar sjálfra. Gjarnan skortir fólki mildi og auðmýkt í eigin garð, við getum verið svo hörð við okkur. Það er eitthvað í menningunni, kannski Vestrænni samkeppnismenningu sem gerir þetta að verkum, er niðurbrjótandi fyrir okkur hvert og eitt.

Eða hvað heldur þú?

 

Ef við berum ekki kærleika í eigin garð, höfum við lítið að gefa til annarra, eins og við þekkjum. Nauðsynlegt er að við hlúum að okkur sjálfum á allan þann mátan sem er uppbyggilegur, að við ræktum með okkur jákvætt hugarfar, mildi í eigin garð, auk þess að gæta að næringu, svefni og heilsurækt, svo eitthvað sé nefnt. Allt helst þetta í hendur og skiptir máli, eins og við þekkjum, og eykur líkur á að við komumst hjá útbruna í starfi og öðrum heilsukvillum og vandræðum í okkar daglega lífi.

 

Guðs ríkið

 

Samtali Jesú og fræðimannsins lýkur á þeim orðum að Jesús segir fræðimanninn ekki vera fjarri Guðs ríki.

 

Með þessari hugtaka notkun er Jesús ekki að vísa til einhvers ríkis í framtíðinni, eða ríkis í himnunum, eða ríkis sem fræðimaðurinn muni finna að lífinu loknu. Nei, þetta orðalag um Guðs ríkið, að fræðimaðurinn sé ekki fjarri Guðs ríkinu, þýðir að fræðimaðurinn er mjög nálægt því að lifa lífinu til fullnustu hér og nú. Það er að segja Guðs ríkið vísar til einhvers ástands í lífinu sem er innihaldsríkt, gefandi og er vitnisburður um að fræðimaðurinn sé að lifa lífinu í fullri gnægð.

 

Hvaða önnur hugtök höfum við um þetta á okkar ylhýra móður máli, í nútímanum?

 

Að leita jafnvægis, að lifa í sátt við umhverfi okkar, náunga okkar, náttúruna. Sátt og jafnvægi. Dettur ykkur eitthvað fleira í hug?

 

Mildi og kærleikur

 

Það er einmitt þetta sem Biblían miðlar okkur, þ.e. mikilvægi þess að bera kærleika til Guðs og náungans, en einnig kærleika í eigin garð.

 

Þar sem við þurfum öll á hvíld að halda, mildi og miskunn, og því að við njótum kærleiksríks umhverfis og samfélags.

 

Megi það vera þín reynsla í dag og alla daga.

 

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

 

Ég vil minna á messukaffið að lokinni messu og einnig því að nú er hálfur bleikur október liðinn, sem þýðir að hinn helmingurinn er eftir. Hvet ykkur til að sækja hádegistónleikana á miðvikudögum, spennandi dagskrá framundan.

Takið postullegri kveðju: Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé og veri með yður öllum. Amen.

2.Mós. 20:1-17

1.Kór. 1:4-9

Mk. 12:28-34

Prédikun flutt í norskri guðþjónustu í Bústaðakirkju 16. október 2022