Minnstu þess maður að mold ert þú

Minnstu þess maður að mold ert þú

Fasta er ekki megrunarkúr, heldur trúarleg iðja sem, til að mynda, afhjúpar lesti okkar og ýmsa fjötra sem við burðumst með. Við blasir að við getum engan fjötur leyst sem við ekki sjáum og engan löst af sniðið sem við umgöngumst í afneitun.

Hann tók þá tólf til sín og sagði við þá: Nú förum vér upp til Jerúsalem, og mun allt það koma fram við Mannssoninn, sem skrifað er hjá spámönnunum. Hann verður framseldur heiðingjum, menn munu hæða hann, misþyrma honum og hrækja á hann. Þeir munu húðstrýkja hann og lífláta, en á þriðja degi mun hann upp rísa. En þeir skildu ekkert af þessu, orð þessi voru þeim hulin, og þeir skynjuðu ekki það, sem sagt var.Lúk. 18,31-34

Náð sé með yður og friður frá Guði Föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

Góðir landar, bræður og systur.

Nú við upphaf föstu tökum við að líta í eigin barm eins og til að búa okkur undir komu páskanna,- við skoðum í því samhengi okkar innri mann eins og til að gæta að lífi trúarinnar með okkur sjálfum. Fasta var fyrr á tímum undirbúningstími þessarar mestu hátíðar kristninnar, upprisuhátíðar Drottins Jesú Krists og svo er enn í lífi kirkju hans. Á föstutímanum hélt fólk í við sig í mat og drykk, en frá fornu fari var það skoðað sem hluti þess að búa sig undir hátíðina og eins var það trúarleg æfing í sjálfsstjórn og sjálfsögun.

Með siðaskiptum breyttust kenningalegar áherslur mjög í þessu efni. Föstuiðkun lagðist eiginlega alveg af. Fólk hafði í katólskum sið tekið að ætla sér réttlætið sjálft fyrir föstur og slíka hluti og lagði stundum mikið á sig til lítils gagns. Í okkar lúthersku kirkju var sú kenning lögð til grundvallar, að trúin ein færði fólki réttlæti Guðs til eilífs lífs og það er kenning okkar kristni allt til þessa dags. Trúin á Guð í Kristi Jesú er okkar á meðal skoðuð sem náðargjöf Guðs til handa öllum þeim sem ekki loka hjarta sínu fyrir henni, heldur opna það í anda og sannleika fyrir Orði hans og persónu.

Í samhengi tilverunnar er það enn svo að öllum er hollt að hafa stjórn á sjálfum sér og halda í við sig í einu efni eða öðru frá tíma til tíma. Augljóst er að slíkt tekur ekki aðeins til matar og drykkjar heldur alls þess, sem okkur er fjandsamlegt og vill, í okkar daglegu háttum, seilast til valda yfir lífi okkar. Fasta er ekki megrunarkúr, heldur trúarleg iðja sem, til að mynda, afhjúpar lesti okkar og ýmsa fjötra sem við burðumst með. Við blasir að við getum engan fjötur leyst sem við ekki sjáum og engan löst af sniðið sem við umgöngumst í afneitun. Sjálfsstjórn er dyggð en kemur vitaskuld alls ekki í stað frelsandi trúarsambands við Drottin. Ekkert getur komið þess í stað.

Við horfum til páskanna og við horfum til eigin lífs hvert með öðru í ljósi boðskapar þeirra. Upprisuhátíðin, sem komin verður fyrr en varir, er skínandi ljósbjarmi Drottins í myrkum heimi, lífslind okkar kristnu trúar. Hvert barn er borið í skugga kross og grafar Drottins við skírnina og eins í skínandi ljós upprisu Hans og sigurs á dauðanum. Við hverja fermingu eru stórmerki þessa nærri í Orði Guðs og játningu hinna ungu; - og í hvert sinn sem við kveðjum ástvini okkar í skugga sorgar og missis, þá er það ljómi þessara atvika sem við horfum til í von og trú á góðan Guð hvort sem við lifum eða deyjum, þannig er hver sunnudagur í kirkjunni og sérhver dagur kristins manns. Þannig er Kristur sjálfur líf trúarinnar.

Til þess vísar heilagt guðspjall þessa helgidags, að Jesús bjó lærisveina sína undir það sem koma myndi í samhengi páska gyðinga í borginni Jerúsalem forðum. Hann talaði við þá um sjálfan sig sem Mannssoninn sem framseldur yrði í hendur heiðingjum, til að verða hæddur, meiddur og líflátinn. Og hann sagði þeim enn fremur að Mannssonurinn myndi á þriðja degi upp rísa. Um viðbrögð lærisveinanna segir fátt nema það að þeir skildu ekkert af því sem hann sagði þeim og það útskýrir guðspjallamaðurinn þannig að orð Jesú hafi verið þeim hulin og þeir hafi ekki skynjað það er hann sagði þeim. Jesús kynnti þarna fyrir postulum sínum það sem framundan var, – jafnvel þó hann vissi að enginn þeirra tólf myndi skilja það sem hann þarna sagði þeim. Orð hans fengu postularnir skilið síðar.

Hann talaði við þá um sjálfan sig sem Mannssoninn og greindi frá því í þriðju persónu sem yfir hann myndi ganga, rétt eins og hann sæi þar sjálfan sig og aðvífandi atvik í senn utan frá og innan. Mannssonurinn er Guð er gerst hafði maður sem hlaut nafnið Jesús. Hann er því og nefndur Kristur sem vísar til guðdóms hans. Við getum velt því fyrir okkur, hvers vegna skilningur lærisveinanna var þeim fjarri þennan dag en líklegt er að þeim hafi þótt allt þetta heldur mikil bölsýni og harla langsótt allt saman og einnig blasir það við, að upprisa frá dauðum er vitaskuld ekki almenn reynsla í þessum heimi forgengileikans. Í Kristi er ekkert forgengilegt heldur er lífið þar, réttlætið og kærleikur Guðs frá eilífð til eilífðar.

Við mennirnir látum gjarna sem við skiljum og vitum flesta hluti, - en hugsum þó helst út frá okkur sjálfum og eigin nafla, látum gjarna eins og framtíðin geymi öryggi okkar með fullkomnar lausnir hamingjunnar og aðallega ekkert annað. Þegar við vöxum úr grasi og komumst á fullorðinsár rennur sumt af þessu af okkur þótt aðrar tálsýnir sýni ef til vill ekki á sér fararsnið og nýjar skjóti upp kollinum.

Með aldri fáum við meðal annars lært að mótlætið getur gert okkur gott þó hvorki sé það þægilegt í svipinn né hjálpræðisvegur í sjálfu sér. Hið góða er að við getum orðið heil og vaxið í innum okkar á ævinni þótt við séum tímanleg, auðsærð og forgengileg í okkar holdsins gerð. Við erum nefnilega skrýdd gjöfum sálar og anda, - og fyrir náð Guðs, fær um að þiggja trúna. Þannig búin göngum við um svið jarðar, í skugga þeirrar vissu þó, að okkur er útmældur tími hér á jörð og það knýr okkur á ýmsa lund. Við sem kristin nefnumst höfnum húsbóndavaldi dauðans sem ekki sjaldan birtir sig sem höfðingja heimsins. Það er hann mörgum en okkur ekki. Við sjáum hann sigraðan í Kristi Jesú og reiðum okkur á lífsins Guð sem elskar okkur í lífi og dauða. Þetta þekkjum við í barnatrúnni sem við lærðum sum hver við móðurkné, að Jesús hefur birt okkur eilífa ást Guðs og afl kærleika hans.

Við megum vita að okkur er hollara að verða heil en engjast við ýmsar tálsýnir eða innantómar ímyndir hamingjunnar sem nóg er af í menningu okkar. Kristur Jesús gekk auðvitað ekki með neina glýju í augunum gagnvart heiminum, tímanum og megni manna og þurfti þess hvorki að nokkur bæri honum um það vitni né heldur um það sem í manni býr. Drottinn Jesús vissi og veit hvað mannsins er og við hvað hann glímir á vegi ævinnar sem við ekki vitum hvort langfarinn er eða skammur.

Kæru landar, kæru kristnu bræður og systur. Þetta eru hugleiðingar við upphaf föstu og þennan tíma er gott að nota til íhugunar og ögunar. Leggið alls ekki á ykkur eitthvert það ok sem ykkur er um megn að bera. Gangið ekki of nærri ykkur um nokkurn hlut og fellið heldur ekki dóma um ykkur sjálf eða aðra. Athugið heldur hvort ekki sé eitthvað sem gjarna má víkja úr lífi ykkar að meinalausu og annað betra koma þess í stað ykkur til styrkingar og gleði. Sérhver listgrein krefur um auðmýkt og aga. Umgöngumst nú einnig trúna á Drottin Jesú Krist í anda þess. Látið engan leggja á ykkur byrðar innantóms þrældóms heldur skyldum við öll muna að til frelsis frelsaði Kristur oss. Berum ávallt málefni okkar fram fyrir hann, minnug þess að gott er orðið sem af af bæninni fer í Drottins nafni. Guð gefi ykkur öllum góða föstutíð.