Skírn - hver er okkar lífssýn?

Skírn - hver er okkar lífssýn?

Úti var svarta myrkur og þétt þokan lá yfir haffletinum. Skipstjórinn sigldi stóru herskipi sínu varlega og tók engar áhættur. Hann mændi út yfir stafnið og útí myrkrið til að koma auga á hugsanlegar hættur. Hjarta hans tók kipp þegar hann sá glitta í ljóstýru beint framundan. Þetta leit út fyrir að vera stórt skip sem stefndi beint á herskipið.

Úti var svarta myrkur og þétt þokan lá yfir haffletinum. Skipstjórinn sigldi stóru herskipi sínu varlega og tók engar áhættur. Hann mændi út yfir stafnið og útí myrkrið til að koma auga á hugsanlegar hættur. Hjarta hans tók kipp þegar hann sá glitta í ljóstýru beint framundan. Þetta leit út fyrir að vera stórt skip sem stefndi beint á herskipið. Til að koma í veg fyrir stórslys flýtti hann sér í talstöðina og sendi hinu skipinu viðvörun. „Þetta er John Smith skipstjóri.“ Rödd hans snarkaði í talstöðinni er hann fyrirskipaði hinum skipstjóranum að snúa skipi sínu í 10 gráður til suðurs. John Smith til mikillar furðu virtist ljósið ekki hörfa. Þess í stað heyrðist í talstöðinni, „Herra Smith, þetta er óbreyttur Thomas Johnson. Vinsamlegast beygðu þínu skipi í 10 gráður til norðurs!“ John Smith blöskraði lítilsvirðingin sem honum var sýnd og hann kallaði til baka, „Óbreytti Johnson, þetta er Smith skipstjóri og ég skipa þér að breyta stefnu þinni um 10 gráður til suðurs án tafar!“ Enn var ljósið á sínum stað og allt stefndi í árekstur. Þá heyrðist rödd óbreytts Johnsons aftur í talstöðinni, „Með allri virðingu herra Smith, skipa ég yður að beygja 10 gráður til norðurs.“ Smith skipstjóri var orðinn æfur af reiði yfir þessum óbreytta sjóliða sem stefndi lífi áhafnar hans í hættu. Hann kallaði aftur í talstöðina, „Óbreytti Johnson. Ég get kært þig fyrir þessa ósæmilegu hegðun. Í síðasta sinn skipa ég þér í nafni bandarískra yfirvalda að beygja 10 gráður til suðurs. Ég er á herskipi.“ En John Smith skipstjóri fölnaði skyndilega þegar hann heyrði lokasvar frá óbreyttum Thomas Johnson, „Kæri herra Smith. Enn og aftur, með fullri virðingu, bið ég yður að beygja í 10 gráður til norðurs. ,,Ég er í vita.“

Það er nefnilega svo oft þannig að við miðum allt út frá okkar eigin brjósti, okkar eigin hugsun og okkar eigin geðþótta. Við viljum að allt og allir breyti sér og sínu til samræmis við þarfir okkar til þess að við þurfum engu að breyta í okkar fari. Einn góðan veðurdag, eða slæman, rennur svo upp fyrir okkur og okkur verður það ljóst að það er svo ótal margt í aðstæðum okkar sem er ekki á okkar færi að stjórna. En þá er gott að hafa vita sem vísar rétta leið. Ímyndið ykkur endalok sögunnar sem ég las áðan ef vitinn hefði ekki verið til staðar! Þá hefði herskipið að öllum líkindum siglt beint upp í klettana og þá hefði ekki þurft að spyrja að leikslokum. Skyldi John Smith hafa þakkað Guði fyrir það að vitinn var þarna og gat varað hann við hættunni þótt hann hefði talið hana annars eðlis í fyrstu? Það fylgir ekki sögunni. En þökkum við Guði fyrir þegar hann leiðir okkur og varar okkur við hættunum? Sannleikur Guðs er eins og viti. Hann haggast ekki til að þóknast okkur. Það erum við sem þurfum að breytast og aðlagast því sem Guð hefur í hyggju fyrir okkur. Við þurfum að leita Guðs. Við þurfum að velja Guð.

* * *

Í guðspjalli dagsins í dag, sem er sunnudagur í föstuinngangi, er frá því sagt, er Jesús þiggur skírn af Jóhannesi skírara. Þetta hefur valdið mörgum heilabrotum, því hvernig má það vera, að sonur Guðs, sem hann hefur velþóknun á, þurfi að taka skírn, er einkenndist af iðrun, því skírn Jóhannesar var iðrunarskírn?

Þessir atburðir gerast við upphaf starfs Jesú. Hann átti þrjú ár ólifuð og framundan voru þrjú mikilvægustu ár lífs hans. Árin sem áttu eftir að móta mannkyn og sögu þess um alla framtíð. Framundan var líka Golgata, gangan með krossinn upp veg þjáningarinnar. Framundan var dauðinn á krossi. Þetta vissi Jesús og með því að taka skírn hjá Jóhannesi gengst hann undir hið mannlega ok, hann er að segja, hann er reiðubúinn að ganga veg hlýðninnar allt til dauða, hann er reiðubúinn að láta líf sitt svo að við megum lifa. En við vitum vel að krossfestingin var alls ekki endirinn heldur aðeins hluti af byrjuninni. Því vonandi munum við öll að Jesús reys upp, hann sté út úr gröfinni og er því lifandi frelsari okkar allra og svo sannarlega lifir hann enn í dag. Í ljósi þessa tekur Jesús við skirn Jóhannesar.

En hvað með þá skírn sem við stundum nú 2000 árum síðar? Hvað er skírn? Að skíra er gömul íslensk sögn og merkir að þvo, eða að gera eitthvað hreint, sbr. skíragull. En er skírnarathöfnin sem fer fram í kirkjunni bara nafngift eða er hún eitthvað annað? Getur verið að hún sé þvottastund? Væri þá ekki betra að baða blessað barnið heima við, heldur en að gera það í kirkjunni að viðstöddu fjölmenni. Eða er e.t.v. einhver annar tilgangur með þessu öllu? Hin Kristna skírn var stofnsett þegar Jesús sendi postula sína út í heiminn eins og greint er frá í síðustu orðum Matteusarguðspjalls. Skírnin er inngönguathöfn í krirkju Krists þar sem skírnarþeginn hlýtur Heilagan anda að gjöf. Auðvitað er hvítvoðungurinn sem borinn er upp að skírnarfontinum ekki óhreinn á nokkurn hátt, hvorki hið ytra né hið innra. En hann skortir Heilagan anda og í skírninni er honum gefinn hann. Barnið fær þennan vita, sem Heilagur andi er, inn í líf sitt. Vita sem segir því til vegar þegar skyggnið er lítið sem ekkert á vegi lífsins, vita sem getur forðað einstaklingnum frá því að brimlenda í klettunum og stórgrýttri ströndinni. Í skírninni veitist barninu hlutdeild í leyndardómi hjálpræðisins, hlutdeild í krossdauða Krists og upprisu. Skírnin markar því upphaf lífsins með Guði fyrir Jesú Krist í Heilögum anda. Skírn er því ekki nafngift eins og margir halda. Hinsvegar verður skírnarþeginn að hafa nafn til þess að hægt sé að rita nafn hanns á skírnarvottorð sem og í lífsins bók á himnum. Þessvegna fer vel á því að nafn hvítvoðungsins sé nefnt í fyrsta sinn við skírnarathöfnina. En skírn er ekki sama og nafngift, enda er til fullt af fólki sem er ekki skírt en ber þó nafn.

Á barnið þá ekkert val? Kann einhver að spyrja. Er ekki verið að þröngva einhverri trú upp á barnið sem getur ekki borið hönd fyrir höfuð sér? Ég spyr á móti; er ekki aðeins verið að afhenda barninu þá bestu gjöf sem hugsast getur? Hlutdeild í upprisu Krists, upphaf lífsins með Guði. Þegar barnið eldist þá getur það sjálft tekið sjálfstæðar ákvarðanir en í uppvextinum hljóta allir heilbrigðir foreldrar vilja veita börnunum sínum allt það öryggi og alla þá ást sem hugsast getur. Því segi ég; svo sannarlega á barnið val, en ef það hefði ekki verið borið til skírnar þá væri búið að taka einn valmöguleikann í burtu frá barninu.

* * * Við sem látum skíra börnin okkar göngumst undir þá ábyrgð að uppfræða börnin okkar um kristna trú, um það sem skiptir raunverulega máli í lífinu. Kennum þeim að temja sér kristið gildismat og kenum þeim kristið siðgæði með Jesú Krist að leiðarljósi. Til þess eru skírnarvottarnir, að sjá til þess að barnið fái þessa fræðslu og því séu kenndar bænir og þeim sé kennt að tala við Guð og hlusta á hann. Þess vegna er einnig skírt að viðstöddu fjölmenni, til þess að söfnuðurinn geti tekið að sér aðhald og hlúið vel hvert að öðru. Söfnuðurinn er vitni þess að barnið er fært í fang Krists og tilheyrir kirkju hans hér á jörð.

Í uppeldinu er einnig mikilvægt að kenna börnunum að þekkja eigin tilfinningar og þroska með sér eigið gildismat. Það er ekki sjálfselska að huga að sjálfum sér og spyrja: ,,Hver er ég, og hver er tilganguinn með þessu lífi”. Því ég spyr; er okkur ljós sú lífssýn sem við stefnum eftir? Hvað er það sem raunverulega skiptir máli í lífinu? Er það 42” sjónvarpið sem mig langar svo í? Sumarbústaðurinn? Bíllinn? Börnin og fjölskyldan? Guð? Hvað skiptir raunverulegu máli? Þessari spurningu getur aðeins hvert og eitt okkar svarað fyrir sjálft sig. Sigurður Norðdal sagði eitt sinn: ,,Það er gott að lifa hvern dag með það á bak við eyrað að þetta sé okkar hinsti dagur, því þá gerum við það sem okkur finnst skipta máli.” Mér finnst þetta vera góð orð því þau vekja mann til umhugsunar. Hvert stefnir líf mitt? Hver er vilji Guðs með mitt líf? Höfum við íhugað það? Hvað skildi Guð vilja með mig? Skipti ég hann einhverju máli? Í augum Guðs ert þú óendanlega dýrmæt manneskja, ekki fyrir eigin verðleik heldur vegna þess að líf þitt er grundvallað í Jesús Kristi og þú ert sköpun Guðs. Áður en þú varst til orðin og varst enn í móðurkviði þekkti ég þig, segir Drottinn í sálmum Davíðs. Á öðrum stað segir í Biblíunni að hann gjörþekki okkur svo að hann viti jafnvel hve mörg höfuðhárin okkar eru. Hvernig manneskjur erum við? Sýn okkar á náungann skiptir gríðarlegu máli og hefur áhrif á öll samskipti okkar. Manneskjan er merkileg og dýrmæt og á skilið virðingu fyrir það eitt að vera manneskja, óháð aldri, stöðu, efnahag, kyni, kynþætti, þroska, aldri, gáfum eða nokkru, bara fyrir það eitt að vera manneskja. Þannig erum við í augum Guðs. Manneskjur. Hans sköpun, börnin hans. En við höfum val, því hvernig manneskjur viljum við vera? Hvaða útgeislun höfum við. Erum við brosandi eða fýluleg? Viljum við vera þau sem sundra og koma inn óeiningu eða viljum við vera þau sem sætta? Hvaða útgeislun viljum við koma áfram til barnanna okkar? Jákvæð manneskja elur með sér velviljaðar hugsanir og jákvæðnin er smitandi líkt og gleðin, líkt og hlátur getur verið smitandi. Við höfum nefnilega gríðarleg áhrif á umhverfi okkar og enn og aftur stöndum við frammi fyrir því vali að velja hvernig við viljum að þau áhrif séu. Í skírninni er líf okkar grundvallað í Jesú Kristi fyrir kraft Heilags anda. Í skírninni var gefinn viti sem er tilbúninn að vísa okkur réttan veg. Í dag hefur þú val. Þú sem hér situr hefur val hér og nú. Vilt þú opna hjarta þitt og huga fyrir Jesú Kristi? Þetta skaltuþið hugleiða þegar þú kemur hingað upp á eftir í altarisgöngunni. Vilt þú fullkoma skírn þína með því leifa Guði að leiða þig sérhvert skref þíns daglega lífs? Vilt þú taka á móti Jesú inn í hjarta þitt?