Ilmurinn

Ilmurinn

Vonin brýtur sér alltaf leið úr myrkrinu. Úr öskunni, brjótast græn grasstráin, laufin sem þrá frelsi laufgast á greinum tjránna.
Mynd
fullname - andlitsmynd Guðbjörg Arnardóttir
05. maí 2020

Það er vor í lofti og sumarið að brjótast í gegn til okkar.  Ég fór í hjólaferð um daginn og  á leiðinni naut ég þess svo sannarlega að finna og skynja á öllu að íslenska vorið var komið, ég skynjaði það ekki sýst með því að finna ilminn af vorinu og umhverfinu. Það var sjávarilmurinn sem ég fann svo sterkt þegar ég hjólaði meðfram sjónum, á Eyrarbakka og Stokkseyri, svo tók Flóahreppurinn við og túnin ilmuðu af áburði, hringrás lífsins.  Ég skynjaði um leið nálægð Guðs í sköpun sinni, fann ilminn af Guði.  Það að upplifa og skynja með því að finna ilm er þekkt í trúariðkun, það var talað um það í gömlu fórnarathöfnunum að ilminn sem lagði upp af fórninni væri þekkur Guði.  Ilmsmyrsl og reykelsi voru notuð til að kalla fram nálægð Guðs og auka á skynjun fyrir hinu guðlega.  Þegar ég fer út undir bert loft mér til uppbyggingar nota ég lyktarskynið til að auka á orkuna sem af því hlýst að vera úti. 

Þegar við höfum átt að vera á varðbergi gagnvart því að vera mögulega smituð af veirunni alræmdu hefur eitt einkennanna verið að missa bragð- og lyktarskyn.  Eitt er að missa um stund bragð- og lyktarskyn en annað að veikjast alvarlega eða lenda í áföllum.  Þau sem einmitt upplifa og ganga í gegnum áföll og missi í sínu lífi missa bragð- og lyktarskyn á heiminn, öll skynjum breytist og heimurinn breytir um lit og lykt.  Lífið verður grátt og litlaust, bragðið af lífinu er beiskt, án allra sætu og lyktin dauf, minnir ekkert á ilm rósanna.  Stóra verkefnið er að læra upp á nýtt að skynja lífið, finna hægt og rólega litina aftur sem samt verða aldrei aftur eins.  Lyktin af því sem fór verður minningin ein en hún gefur styrk til að hleypa ilminum af lífinu aftur að.

Einn af mínum uppáhalds ilmum, er ilmurinn af Þórsmerkurbirki, bestur er ilmurinn þegar skúr fellur á það á heitum sumardegi.  Ég hlakka svo til að komast í sumar inn í Þórsmörk og finna þar ilminn af Guði og kraftinn sem þar er að finna.   Ég er sannfærð um að Þórsmörk er einn fallegasti staður veraldarinnar.  Líklega eigum við okkur öll stað í hjartanu sem við efumst ekki um að sé einn af fallegustu stöðum veraldarinnar.  Það voru meðal annars eldsumbrot úr iðrum jarðar er skópu dali og fjöll Þórsmerkurinnar.  Fegurðin er að miklu leyti bundin andstæðunum, ógnvekjandi eldfjöllunum, jöklum, óstýrlátu Markarfljótinu andspænis kyrrð skógarins, tærum lækjunum og grasi grónum hlíðum.  Fyrir 10 árum þegar gosið í Eyjafjallajökli stóð enn féll einn daginn mikil aska yfir Þórsmörk og nágrenni.  Daginn eftir öskufallið var hún öll þakin grárri, svartri ösku, trén voru slútandi, þakin ösku, jörðin var í einum og sama litnum, þakin ösku.  Skógurinn var hljóðlátur, þögn öskunnar lagðist yfir allt og skógarilmurinn víðsfjarri.  Þá læðast eðlilega þær hugsanir að hvort Guð sé þarna líka, getur sköpun Guðs kallast falleg þegar náttúran iðar ekki af lífi og spurt er:  ,,Verður einhvern tíma fallegt hér aftur?“  Sístæð sköpun Guðs er eins leyndardómsfull og fegurðin sem við getum ekki útskýrt, trúin sem við finnum en getum ekki skilgreint.  Vonin brýtur sér alltaf leið úr myrkrinu.  Úr öskunni, brjótast græn grasstráin, laufin sem þrá frelsi laufgast á greinum tjránna.  Þó fegurðin sé ekki eins áþreifanleg í umbrotum náttúrunnar þá geymum við birkiilminn í hjartanu, þar til við finnum hann aftur á milli trjánna, í ferskri og hlýrri sumarrigningunni.  Náttúran sjálf sýndi í Þórsmörk að hún hefur tilhneiginu til að lifa, hún hefur knýjandi þörf til að komast áfram, viðhalda lífinu og brjótast undan þungri og sum staðar harðri öskunni og laufgast, blómstra og verða aftur söm og ný.  ,,Sjá, ég geri alla hluti nýja!” segir Guð.  Þórsmörk varð þetta sumar bara enn fallegri því askan varð að áburði, næringu fyrir gróðurinn, skógarbotninn var gróskumikill og víða mátti sjá ummerki þess að það sem virtist eyðandi var gefandi.  Birkið, já það ilmaði sem aldrei fyrr og ekki síst vegna þakklætis fyrir að fá enn eitt sumarið að njóta þess að koma, finna ilminn af því og hvíla í kyrrð skógarins.

Við höfum undanfarið upplifað heim og líf sem missti á áþreifanlegan hátt lit sinn og ilm.  Líklega verður eitt af því sem við lærum eftir þetta að meta betur ilminn af fólkinu okkar, ilminn af samverstundum og litina í brosi og faðmlagi.  Við metum betur ilminn af frelsinu og ilminn af því gera það sem fyllir hjarta okkur gleði.  Ekki síst innilegt þakklæti fyrir að mega enn eitt árið finna vorið fylla öll skilningarvit okkar og mega alltaf eiga von á að finna ilminn af Guði í lífinu í hversdeginum.