Jólanótt

Jólanótt

Þegar barn fæðist í heiminn finnum við betur en nokkru sinni að manneskjan er veikleikinn sjálfur holdi klæddur, svo allslaust, þurfandi og ósjálfbjarga er barnið. Svo veikt er það líf, sem kviknar af okkar lífi.
fullname - andlitsmynd Flóki Kristinsson
24. desember 2008
Flokkar

I

Þegar barn fæðist í heiminn finnum við betur en nokkru sinni að manneskjan er veikleikinn sjálfur holdi klæddur, svo allslaust, þurfandi og ósjálfbjarga er barnið. Svo veikt er það líf, sem kviknar af okkar lífi.

Og þó segir Drottinn: „Af munni barna og brjóstmylkinga hef ég gjört mér vígi.“ Og þessi orð voru töm á tungu frelsarans. Styrkleiki Guðs, vald hans og áhrifamáttur er ekki fólginn í æðandi valdi, því sem vekur ótta og því sem brýtur undir sig, heldur í því sem heimurinn hefur vanþóknun á og álítur veikleika. Eða í hverju fólst sigur Krists? Í dauða á krossi. Í fullkominni uppgjöf og niðurlægingu. Í ósigri fyrir því sem heimurinn álítur styrk og beygir sig fyrir.

„Af munni barna og brjóstmylkinga hef ég gjört mér vígi...“ Já, „...því mátturinn fullkomnast í veikleika.“ (2.Kor.12,8) Þannig lýsti Páll postuli eitt sinn mætti Guðs og við hljótum að undrast þessi orð ef við gefum okkur tóm til að íhuga þau í fullri alvöru. Þau virðast svo mikil fjarstæða. Hvernig getur mátturinn búið í veikleikanum?

Hugum að því, hvaða tilfinningar og kenndir barnið, þetta saklausa allslausa líf, kveikir með okkur. Það kveikir ást og umhyggju í brjósti þér sem ert móðir og faðir. Vekur upp í hjarta þínu allt hið fegursta og göfugasta sem býr í sálu þinni og sálu sérhvers manns, það vekur kærleikann í þér. Og ef til vill vissirðu ekki til fullnustu hvað sannur kærleiki var fyrr en þú leist barnið þitt nýfætt. Og þegar kærleikurinn hefur verið kveiktur í sálu þinni, þá ertu betri og fullkomnari maður en áður. Og sá kærleikur er ekki auðslökktur, hann kulnar ekki, hann heldur áfram að verka og vera til og setja mark sitt á þig, berst frá þér til annara manna með dagfari þínu.

Það þarf mátt til að kveikja hið góða í þér. Það þarf mátt til að umskapa þig til betri og fullkomnari myndar. Þann mátt er að finna í því veika lífi sem kviknar af okkar lífi, í lífi barna og brjóstmylkinga. Það líf kemur því til leiðar sem Guð hefur ætlað því.

Þrátt fyrir allt sýnir þetta veika líf þér hver er hinn eiginlegi máttur er sem mestu ræður í lífi okkar mannanna. Það er máttur hins veika, því „mátturinn fullkomnast í veikleika.“

Þess vegna hefur verið sagt að barnið sé hjarta Guðs, og sérhvert barn sem fæðist, flytur þau skilaboð, að Guð sé ekki ennþá vonlaus orðinn um manninn.

II

Við vöggu barnsins er eins og við séum í nánd við annan heim og ójarðneskan, í nánd við hið óraunverulega, þar sem allt er heilt, saklaust og hreint. Eða hvað er hreinna en sakleysi barnsins? Hvað er heilla en kærleiki móður til barns? Og hvaða bæn er heitari en bænarorð móður sem felur barnið við brjóst sitt? Þannig er lífið í upphafi æfi hvers manns. Það er saklaust, fagurt og hreint, og umvafið elsku, heitri þrá, til þess að varðveita og styðja það til þroska og vernda það, bægja frá því öllu óhreinu og illu. Þannig hófst líf þitt, umvafið elsku móður og föður. Þannig vakti líf þitt þann mátt, það afl í brjósti þeirra, sem var fúst til að takast á við hvaða hindrun, hvers kyns fórnir svo líf þitt mætti þroskast og styrkjast. Þessa er ekki óeðlilegt að minnast á jólum þegar við fögnum fæðingu barnsins í fjárhúsinu í Betlehem.

III „Förum beint til Betlehem að sjá það sem gjörst hefur og Drottinn hefur kunngjört oss“ sögðu fjárhirðarnir forðum. Þangað viljum við einnig fara, til Betlehem að sjá son Guðs lagðan þar í jötuna. Til Betlehem. Betlehem merkir á hebresku Hús brauðsins. Það er sérkennilegt nafn.

Hvar er Betlehem? Hvar er staðurinn þar sem Guð fæðist?

Það er ekki einungis í borg sem er tuttugu kílómetra sunnan við Jerúsalem. Jólaguðspjallið fjallar í raun og veru ekki um bara um upphaf lífs Jesú, heldur ekki síður um upphaf okkar lífs, sem karla og kvenna, það fjallar um okkar eigin líf. Það er sagan um holdgun Guðs, hvernig Guð varð maður til þess að vitja mannanna og gjöra sér bústað meðal manna. Hvar er sá bústaður?

Betlehem, Hús brauðsins, er hvarvetna þar sem menn og konur hungrar og þyrstir eftir réttlæti Guðs og vilja taka við honum. Nýja testamentið segir frá því, að Guð býr sér bústað í hjörtum mannanna og eingöngu í hjörtum mannanna.

Þess vegna er Betlehem jólanna ekki aðeins borgin sunnan við Jerúsalem, heldur einnig þetta hús, sem við dveljum í - hér og nú. Þetta hús sem býður þér sunnudaga ársins um kring að koma upp að altarinu og þiggja hið lifandi brauð í sakramentinu. Brauðið sem hann sagði um „brjótið... og takið og etið, það er líkami minn - líf mitt þér gefið.“ Þess vegna er kirkjan þín Betlehem, Hús brauðsins, staðurinn þar sem Guð vitjar þín, fæðist inn í heim þinn, kemur inn í líf þitt. Það er hér sem hann fæðist Guðs sonur. Og það er hjarta þitt sem er jatan hans og hann er lagður í umvafinn reifum.

Þú veist best sjálfur, að hjarta þitt er ekki merkileg vagga. Þar eru jafnvel afkimar sem eru myrkir, ekki allt hreint og fágað þar inni og ekki allt viðbúið komu Guðssonarins. Það er tötralegt hreysi svo hábornum konungi, en þó hefur hann svo fyrir séð, að hann lætur sér það vel líka, lætur sér nægja að dvelja í fátæklegri jötu hjarta þíns og helgar það og þig með nærveru sinni. Það er um þetta sem jólin snúast. Ekki aðeins það að Guð vitjaði mannanna fyrir um 2000 árum og fæddist í barninu Jesú í borginni Betlehem sunnan Jerúsalem. Nei, jólin snúast um það, að hann vill fá að fæðast í lífi þínu, birtast þér í kirkjunni þinni og vera lagður í hjarta þér og dvelja þar, lifa þar. Og þegar það hefur gerst hefur þú eignast það sem öllu skiptir, lífið eilífa, líf Guðs, líf með Guði, hið fullkomna frelsi.

Getum við í alvöru treyst og byggt á þessum boðskap?

Við þekkjum þessa spurningu. Hún veldur okkur stundum varanlegum sviða. Böl og byrðar, synd og sekt, sem við höfum fyrir augunum alla daga og ekki hverfur, vekur okkur stöðugt ný tilefni til þess að reyna sjálf að umbreyta lífi okkar og annarra, betra heiminn af eigin rammleik, reyna að ávinna okkur velþóknun Guðs með því að gera umbætur á okkur sjálfum.

Allar þær tilraunir eru til einskis. Þú þekkir af eigin reynslu að án þinnar elsku og umsjár vex ekki barn þitt til þroska. Án þess máttar sem þú veitir því er því hætta búin. Með sama hætti komumst við börn þessarar jarðar ekki til Guðs af eigin rammleik. Það er Guð sem kemur til okkar. Því verður ekki haggað. Hans braut, braut náðarinnar, útilokar okkar braut, braut verkanna. Það getur verið háskaleg braut.

Frelsun fæst ekki með verkum mannanna hversu góð sem þau eru, heldur aðeins fyrir náð Guðs. Það byggist ekki á sjálfum okkur er við treystum því, að við séum Guðs börn og höfum frið við Guð. Það er ekki á okkar valdi eða okkar meðfæri á einn né neinn hátt. Það byggist á engu öðru en því, að Guð hefur sent son sinn, fæddan undir lögmáli til þess að afnema það.

Þegar við hlýðum á boðskapinn um það, að við séum Guðs börn aðeins fyrir hann, þá sendir Guð son sinn. Þá verður fæðing barnsins í Betlehem að veruleika. Hverju sinni sem við nefnum Guð föður og áköllum hann sem föður, skulum við fagna og fulltreysta því, að við séum Guðs börn og erfingjar að hjálpræði hans. Þá eigum við auðlegð Guðs í hversdagsleikanum. Þá horfum við ekki efablandin, kvíðandi og spyrjandi á fátækt okkar. Við eigum FÖÐUR í himnunum vegna Jesú Krists og komu hans í mannheim. Kærleikur Guðs er eina lögmálið sem við lútum. Og þó mætum við ekki með gáleysi þeim Guðs vilja, sem hefur gert okkur að Guðs börnum.

Já, þetta er jólaguðspjallið, gleðiboðskapurinn í tilbreytingaleysi daganna, - ekki vonarbjarmi sem lýsi fyrir okkur lífið og dauðann - heldur boðskapurinn um hinn mikla fögnuð sem fremur vill fremja umbyltingu í lífi okkar, ef við viljum ljá honum rúm, höfum hann til annars en stopulla helgra hugleiðinga á tyllidögum, ef við látum hann hljóma um rúmhelgi lífs okkar - boðskapinn sem umbyltir, leysir úr viðjum, ENDURLEYSIR.

Nýfædd

Á þessari helgu nóttu skaltu setja þér fyrir hugskotssjónir nýfætt barn. Skoðaðu fingur þess og fálmandi hendur sem teygja sig til þín og vilja grípa í hönd þína. Virtu það fyrir þér og sjáðu hvernig ljós Guðs blikar í augum þess og bros Guðs á vörum þess. Finndu ilm þessa ungbarns fyrir vitum þér og finndu sæta hlýjuna sem stafar af litla líkamanum og þú munt finna með sjálfum þér að ekkert, EKKERT, er betur fært eða líklegra til þess að vekja í brjósti þér hið hið milda og góða, eða staðfestu og ásetning til að breyta vel og gera það sem gott er. Þannig - nákvæmlega þannig - kemur Guð til þín í nótt, til þess að vekja þig og tilfinningar þínar, vitund þína um það, sem er heilagt, heilt og frelsandi. Orðið varð hold, Guð gjörðist maður og vitjaði þín. Þegar þú finnur það og játast því, þá verða jól.

Og jólunum fylgir þetta fyrirheit, að hver sem sér soninn og trúir á hann hefur eilíft líf, hann fæðist til lifandi vonar, til frelsis, til friðar, til þjónustu við ríkið, sem jólin minna á og koma mun, svo á jörðu sem á himni.

Guð gefi þér það líf, þá náð, þá blessun - nú þessi jól.