Áramót á 365 daga fresti

Áramót á 365 daga fresti

Ég held að við höfum gott af því að hafa áramót á 365 daga fresti, svona aðeins til að líta yfir farinn veg og íhuga það sem framundan er. Áramótin marka upphaf nýs tíma og gefur okkur eldmóð til að setja okkur markmið og kraft til þess að breyta og bæta siði okkar og hegðun þar sem það á við.
01. janúar 2014
Flokkar

Gleðilega hátíð og gleðilegt nýtt ár.

Nú er gamla árið liðið og enn eitt árið tekið við. Líkamsræktarstöðvarnar eru farnar að auglýsa tilboð, völvuspárnar komnar út og nú fara allir af stað aftur í sína rútínu. Jólaskrautið fær fljótlega að fjúka og hjá sumum fær jafnvel litla jesúbarnið líka að fjúka - allavega svona þangað til næstu jól. En vonandi á það aðeins við um lítinn hóp fólks.

Ég held að við höfum gott af því að hafa áramót á 365 daga fresti, svona aðeins til að líta yfir farinn veg og íhuga það sem framundan er. Áramótin marka upphaf nýs tíma og gefur okkur eldmóð til að setja okkur markmið og kraft til þess að breyta og bæta siði okkar og hegðun þar sem það á við.

Ég tel að það sé alltaf gott að temja sér að líta yfir farinn veg með þakklæti í huga. Að þakka fyrir allt sem hefur farið vel og einnig fyrir það sem ekki hefur farið jafn vel því það hefur ef til vill styrkt okkur og aukið reynslu og þekkingu. Á áramótum höfum við líka tækifæri til að þakka fyrir það sem framundan er, og að þakka fyrir hvern dag sem við fáum að þiggja. Við fáum tækifæri til að líta fram á við með von og trú um bjarta framtíð.

Á jólum leggjum við oft meira upp úr því að sýna náungakærleik heldur en aðra daga ársins. Þessi náungakærleikur kemur sér oft vel á jólunum, fólk er t.d. fúsara að gefa í alls kyns líknarsamtök og vill leggja sitt af mörkum til að sem flestum líði vel um jólin. En þetta er kannski eitthvað sem við mættum gera meira af allt árið.

Þegar ég lít yfir árið þá hef ég margt að þakka fyrir og eru það flest allt jákvæðar minningar og góð reynsla.

Það er eitt neikvætt sem stendur þó eftir í huga mér og er það að ég upplifi allt of oft að okkur manneskjurnar skorti umburðarlyndi í garð náungans. Við búum á tímum mikilla tækniframfara, m.a. í samskiptamiðlum. Samskiptamiðlarnir eru frábært tækifæri til að byggja upp og styrkja. En þessum miðlum og tækninýjungum fylgir líka mikil ábyrgð og er mikilvægt að við gætum þess að særa ekki eða meiða nokkura manneskju, hvorki í hugsunarleysi né meðvitað. Ef til vill gætum við t.d. sýnt meira umburðarlyndi í kommentakerfum fjölmiðla. Við gleymum því svo oft, þegar við erum á netinu, að samskiptin þar lúta ósköp svipuðum lögmálum og samskipti sem við eigum við fólk í eigin persónu. Því er kannski gott ráð til okkar allra að hugsa einn hring enn áður en við ýtum á “send”.

Ég hef hugsað mikið um það hvernig samskiptum er háttað á milli fólks og hef oft staðið sjálfa mig að verki þetta árið við að vera föst í hugsunum um hvað ég sé sár yfir litlu umburðarlyndi fyrir skoðunum fólks, sama hverjar þær eru. Við þurfum nefnilega ekki alltaf að hafa sömu skoðanir, alls ekki. En við þurfum samt að bera virðingu fyrir skoðunum náungans, allavega upp að vissu marki. Þegar ég segi upp að vissu marki þá meina ég að við þurfum kannski að grípa inn í þegar skoðanir einhvers eru orðnar skaðlegar henni/honum eða öðrum.

Hér er eitt dæmi, Moska á Íslandi, ég hef nú ekki myndað mér fullkomna skoðun á því hvort ég vilji hafa Mosku á Íslandi eða ekki og þá hvar, en eitt veit ég að ég þarf hvorki að sýna múslimum né svínum óvirðingu hvað það varðar. Mér sárnaði mjög sú óvirðing sem múslimum var sýnd þegar svínahausum var dreift á svæðið sem þau höfðu fengið úthlutað til byggingar fyrir bænahúsið sitt. Og ég var afar undrandi á vanmætti lögreglunnar til þess að meta alvarleika þess er þarna átti sér stað.

Í pistli dagsins fjallar Páll postuli einmitt um umburðarlyndið þegar hann segir:

Hér er hvorki Gyðingur né annarrar þjóðar maður, þræll né frjáls maður, karl né kona. Þið eruð öll eitt í Kristi Jesú.

Þetta er líklega einn þekktasti texti Biblíunnar sem fjallar um umburðarlyndi og gott að hafa í huga á þessu nýja ári að öll erum við jafn mikilvæg í augum Guðs, hver sem við erum og hvaða skoðanir sem við höfum.

Þannig að nú í upphafi árs, þegar ég lít yfir farinn veg, er umburðarlyndi mér efst í huga. Jesús vildi að við elskuðum náungann eins og sjálf okkur. Og það er vilji Guðs að við komum fram við allar manneskjur af kærleika, hvort sem okkur líkar skoðanir þeirra eða ekki. Já, og sem betur fer höfum við ólíkar skoðanir. En ég held það yrði gott áramótaheit að sýna náunganum meira umburðarlyndi á næsta ári, við eigum aldrei of mikið af því. Og gleymum ekki okkur sjálfum þegar kemur að umburðarlyndi. Sýnum okkur sjálfum umburðarlyndi. Höfum sanngjarnar væntingar til okkar á nýju ári og berum virðingu fyrir okkur sjálfum.

Líklega er besta leiðin til þess að verða umburðarlyndari á þessu nýja ári að við lítum hvert og eitt, í eigin barm og hugsum um að koma vel fram við öll þau sem við mætum, hvort sem það er rafrænt eða í eigin persónu.

Að við íhugum hvert og eitt hvernig við getum bætt líf okkar sjálfra. Ekki aðeins til þess að þóknast öðrum eða til þess að líta betur út í augum annars fólks, heldur vegna þess að við elskum Jesú Krist og okkur er ekki sama um náungann. Já, ég held að það sé gott fyrir okkur að hafa áramót á 365 daga fresti í það minnsta, þar sem við förum yfir það sem liðið er og fáum tækifæri til að þakka, kveðja, syrgja eða bæta okkur þar sem þörf er á. Að fá að byrja upp á nýtt með nýjar framtíðarvonir og ný og fersk fyrirheit.

Guð gefi ykkur öllum, gleði og gæfuríkt ár.

Amen.