Gefur grið ei nein

Gefur grið ei nein

Sú afstaða sem Fjallaskáldið eignar þorranum er kannske þegar betur er að gáð, aðeins útlegging á því ískalda og miskunnarlausa hugarfari sem mennirnir geta borið hver til annars. Boðskapurinn minnir á þá hugmynd sem þá hafði nýverið rutt sér til rúms að veröldin sé guðlaus og miskunnarlaus – hinir hæfustu lifi af.

Það er eitthvað nöturlega hreinskilið við þorrann sem nú er genginn í garð. Hann er tyftarinn í samhengi hinna íslensku mánaða.


Þorraþræll


Kristján fjallaskáld orti honum eftirminnilegan óð í Þorraþrælnum. Það var árið 1866 sem hann orti þennan víðkunna brag. Það ár hófst kuldaskeið hér á landi sem lagðist á eitt með aukinni eldvirkni til að hrekja fimmtung landsmanna á brott til Vesturheims. Uppistaðan í þeim flóttamannahópi var fólk á besta aldri eins og við segjum, svo það lætur nærri að heil kynslóð hafi yfirgefið landsteinana.

 

Í lokaerindinu á ljóði fjallaskáldsins, er þorrinn eins og voldugur herra sem hlýðir þögull á kveinstafi hrakinnar þjóðar við ystu höf og ,,gefur grið ei nein." Svo hefur hann upp raustina. Hann flytur þá speki að þegar „frýs í æðum blóð“ þá sé það gert til að herða landsmenn og kenna þeim fyrirhyggju: ,,Bóndi minn, þitt bú betur stunda þú,“ segir hann við skjálfandi kotbóndann sem á að hafa lært sitthvað af öllum þessum hremmingum.

 

Þorri samtímans einkennist þó fremur af prúðbúnu fólki sem sækir skemmtileg þorrablót. Það er ólíkt því yfirbragði sem hann hafði í gegnum aldirnar. Koma þorrans var í anda hins ískalda lögmáls þar sem engin grið eru gefin. Aðeins þau sem búa sig vandlega undir kuldaljóðin, geta vænst þess að lifa af. Já, það er eina vonin sem mætir okkur í meitluðum ljóðlínum höfundarins sem andaðist sjálfur þremur árum eftir útkomu ljóðsins, 27 ára gamall. Þá voru sveitir á Íslandi að leggjast í eyði og fjöldi landsmanna reyndi að koma undir sig fótunum við gerólíkar aðstæður í nýju landi.

 

Textar umhyggju


Textarnir sem við lesum í kirkjum landsins í upphafi þorra fjalla ekki um vinda og frost sem stytta líf hinna veiku, en stæla hraustari eftirlifendur. Þar skilur ekki á milli feigs og ófeigs hvort sperrur séu vel negldar á bæjum eða hvort búið sé að safna nægum heyjaforða til vetrarins. Lestrarnir eru fremur eins og andsvar við ströngum dómi þorrans.

 

Þar erum við ávörpuð. Og jú, líkindi eru á milli þeirra orða og Þorrans: ,,Hann er hinn mikli Guð, hetjan og ógnvaldurinn, sem gerir sér engan mannamun og þiggur ekki mútur."


Hér mætti vissulega ætla að sami kuldinn sé í erindinu og fyrr var vitnað til, en textinn heldur áfram. Þá birtist okkur gerólík mynd. Hér er það ekki hlutskipti hins veika að vera troðinn undir þegar ógnaröflin geysa. Hér er hugsunin ekki, að hver sé sjálfum sér næstur og vei þeim sem ekki hefur hlúð nógu vel að sínum bæ. Nei, þvert á móti er mælikvarðinn og viðmiðið hvernig við komum fram við þau sem ekki geta sjálf staðið á eigin fótum:

 

Hann rekur réttar munaðarleysingjans og ekkjunnar og sýnir aðkomumanninum kærleika og gefur honum fæði og klæði. Þið skuluð því sjálfir elska aðkomumanninn því að þið voruð sjálfir aðkomumenn í Egyptalandi.

 

Ég verð alltaf jafn heillaður yfir tign þessara orða. Hér er sá boðskapur fluttur að þann mælikvarða megi leggja á takmarkaða lífdaga okkar mannnanna – hvernig við komum fram við þau sem geta ekki sjálf staðið á eigin fótum. Já, hver rekur réttar munaðarleysingja og ekkju? Þessi orð standa framarlega í Biblíunni – þetta er fimmta bókin af þeim 66 sem mynda meginstofn ritningarinnar. En þarna strax sjáum við hvers af okkur er vænst.


Xenófóbía

 

Og við skulum að sama skapi leiða hugann að því af hverju aðkomumaðurinn er svo nefndur þarna í sömu andrá. Er ekki skýring á því? Jú, það er jú innbyggt í mannsálina að bera ótta í garð þess sem er framandi. Fræðimenn eiga til hugtak yfir þá kennd, óþjált vissulega, en á því miður oft við: „xenófóbía“ er dregið úr grísku og merkir óttinn við það sem er ókunnugt eða útlent.

 

Til að skapa hluttekningu í brjósti þeirra sem á hlýða hvetur Drottinn þá til að líta í eigin barm og rifja upp bakgrunn sinn. Já, munið það að þið voruð sjálf aðkomumenn er þið dvölduð í Egyptalandi. Þessi texti geymir svo margt, í honum er þessi sterka siðfræði: það er ótækt að ætla sem svo að okkur líðist það sem við myndum ekki vilja að aðrir ástundi.

 

Manneskjurnar eru jafn verðmætar, óháð því hvernig lukkan og gæfan hefur leikið þær. Glaðværir íslendingar nútímans sem gæða sér á súrum krásum, nú eða fá sér bara pottréttinn, eru vissulega dýrmætir í augum Guðs. En það eru líka þau sem búa við kröpp kjör, það eru líka þau sem hrekjast um höfin í leit að skjóli undan ófriði. Nú eða flýja þann þorra sem leggst yfir heimsbyggðina og er ekki napur heldur brennandi heitur. Eyðandi máttur elda og þurrka neyða fólk til að bregða búi og leita ásjár á öðrum slóðum.

 

„Þið skulið elska aðkomumanninn“ segir í þessum texta og sú áminning er ekki að tilefnislausu því okkur er miklu tamar og eðlilegar að elska þau sem eru einmitt af okkar eigin sauðahúsi, líkjast okkur og standa okkur nærri. Hið sama segir postulinn: „Berið sama hug til allra, verið ekki stórlát, umgangist fúslega lítilmagna. Oftreystið ekki eigin hyggindum. Gjaldið engum illt fyrir illt.“


Íslenskt flóttafólk

 

Hinir fornu Ísraelsmenn eru ekki eina þjóðin sem þurfti að lifa í erlendu landi þar sem stóðu höllum fæti. Þegar við Íslendingar vegum það og metum hvernig við hyggjumst taka á móti gestum sem leita hér vars undan ógn og stríði í sínu heimalandi, þá ættum við að taka orðin í textanum til okkar. Samtímafólk fjallaskáldsins hraktist héðan undan óblíðum náttúruöflum. Þau nutu góðs af því hversu vel var tekið á móti þeim og þeim vegnaði flestum vel á nýjum slóðum. Það ætti okkur að vera hugstætt þegar við bjóðum nýja hópa velkomna hingað til lands.

 

Sú afstaða sem Fjallaskáldið eignar þorranum er kannske þegar betur er að gáð, aðeins útlegging á því ískalda og miskunnarlausa hugarfari sem mennirnir geta borið hver til annars. Boðskapurinn minnir á þá hugmynd sem þá hafði nýverið rutt sér til rúms að veröldin sé guðlaus og miskunnarlaus – hinir hæfustu lifi af. Jú, þannig er það í ríki náttúrunnar en þeirri afstöðu óx ásmegin að mannleg samfélög ættu að vera sama marki brennd. Ekkert gæti verið meira framandlegt hinni biblíulegu mannsýn. Þar er ekki spurt um litarhaft eða uppruna. Þar eru okkar minnstu systkini andlag kærleiksverka okkar og um leið prófsteinninn á mennsku okkar.

 

Já, guðspjallið talar inn í þennan sama veruleika. Hversu sterkar eru þær andstæður sem birtast okkur þar? Líkþrár maður og rómverskur herhöfðingi. Annar var talinn óhreinn og því utangarðs, óhæfur til að búa í samfélagi þeirra sem ekki glímdu við þau mein. Hinn var vissulega, ekki vanmáttugur og allslaus, heldur fulltrúi erlends valds sem drottnaði yfir heimafólkinu. Og af þeim sökum stóð hann líka á jaðrinum, þótt ástæður þess hafi verið gerólíkar. En þessir fá hljómgrunn hjá Kristi. Hann horfði inn í sálina, sá í gegnum afmyndaðan líkama hins holdsveika og hann staðnæmdist ekki við einkennisklæðað hundraðshöfðingjans.


Þennan boðskap flytur Biblían okkur, allt frá fyrstu köflunum. Hann er fjarri því sjálfgefinn því margt í eðli mannsins elur á tortryggni og skeytingarleysi. Gegn því talar Biblían og kjarninn í þeirri mannssýn er líka lykillinn að siðferði okkar og afstöðu til náungans. Þá ríkir birta í hjörtum okkar þótt élin séu grimm og köld hið ytra.