Allt sem við gerum hinni minnstu móður

Allt sem við gerum hinni minnstu móður

Þessi linnulausi mæðradauði er glæpur gegn mannkyni. Glæpur gegn mannkyni flokkast sú aðför sem er almenn og kerfisbundin og beinist gegn mannlegri reisn og virðingu. 99% prósent kvenna sem deyja af barnsförum búa í þróunarlöndum. Þetta er engin tilviljun. Mæðradauði er almenn og kerfisbundin aðför að öryggi og mannlegri reisn.

Ávarp flutt í Bústaðakirkju við messu kl. 14 Málið var flutt með stuðningi frá eftirfarandi punktum.

1) Auður og velsæld einkenna Ísland í dag, þennan nýársdag 2015. 300 þúsund manns búa á lítilli eyju, á vel afmörkuðu landssvsæði sem enginn ásælist. Við eigum auðlindir sem eru meiri á mann en flestir þekkja, fisk, orku, vatn.

Við eigum innviði sem eru undirstaða samfélags: Menningararf, sögu, tungu - það sem skapar samfélag. Hér er friður. Við erum mjög ofarlega á velsældarmælikvarða Sameinuðu þjóðanna.

Fáir hafa það betra en við.

Ísland er eins og uppskrift að Paradís.

* * *

2) Ísland er líka jafnaðarland. Hér er ekki mikill ójöfnuður miðað við það sem gengur og gerist. Fátækt er ekki mikil miðað við mörg lönd, en hún er þeim mun verri að hún er með öllu óþörf. Það er lítið mál að útrýma skorti á Íslandi.

2015 munu þjóðir heims setja sér háleitt markmið um að útrýma sárafátækt að næstu 15 árum. En við gætum þetta nánast í þessum töluðum orðum. Ísland er ekki bara lýðveldi heldur auðveldi.

* * *

3) Skýrsla Rauða krossins um fátækt á Íslandi kom út 2014. Og minnir á að það sem skapar samfélag er ekki auður í sjálfu sér, heldur hvernig auðurinn er skapaður og hvernig honum er dreift.

Og vegna þess að árið 2014 var ár leiðréttingarinnar miklu, spyr ég:

Skuldar íslenska auðveldið þeim sem verst standa ekki sína leiðréttingu?

* * *

4) Á heimsvísu er ástandið mun verra en hjá okkur.

Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn, Alþjóða bankinn, G-20 ríkin sem eru þau ríkustu í heimi, sjálfur Bandaríkjaforseti og fjármálaráðherra hans sem fara fyrir mesta auði og hervaldi á heimsvísu tala sama máli.

Jafnvel á hinni árlegu ráðstefnu fjármálafursta í Davos er niðurstaðan sú sama: Ójöfnuður er helsta hættan sem steðjar að mannkyni. Efnahags og framfarastofnunin í París gaf út það lærða álit fyrir jólin að ,,brauðmolakenningin” væri röng. Það frábæra plan að hampa þeim ríku því þannig myndu broðmolar hrynja af borðum þeirra niður til hinna er rangt.

Brauðmolarnir hrynja ekki niður heldur sogast upp! Frá þeim sem ekki eru aflögufærir.

Yfirstéttin er of dýr, auðræðið of hættulegt, græðgi er ekki góð.

* * *

5) Mig langar til að biðja ykkur að taka þátt í æfingu.

Hér á bekkjum sitja samtals nær 85 manns.

Vinsamlega rísið úr sætum og sýnið okkur hinum hversu stór hópur þetta er í reynd.  Já. 85 manna hópur sem kemst fyrir á bekkjum Bústaðakirkju á næstum helming allra eigna í heiminum. Helming allra eigna. Þessi litli hópur.

En á hinum endanum er helmingur mannkyns. 3.5 milljarðar. 3500 milljónir manna sem eiga í reynd ekki neitt. Nokkrar geitur eða kofa þeir ríkustu, flestir ekki neitt, og nánast allt þetta fólk er vannært.

* * *

6) Kraftverk hefur gerst. Jafnvel blindir hafa öðlast sýn.

Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn og allir þessir fínu sem reikna út haglíkön: Þetta ástand er fráleitt.

En það er fráleitt vonlaust. Það sem er vont getur batnað og við höfum, við sem teljumst til mannkyns, við höfum sýnt það. Maður skapar samfélag, ekki auður.

* * *

7) Mig langar í þessu samhengi að minnast á jólin. Þau eru sagan af konu sem átti barn. Barnið átti að vera von mannkyns.

Ég spyr reyndar: Eru ekki öll börn von mannkyns? Framtíðarvon?

María ól barn og lagði í jötu því eigi var rúm fyrir hana í gistihúsinu.

Mörg Marían elur barn við óviðunandi aðstæður, jafnvel á vergangi, því eigi er rúm fyrir hana í sjúkrahúsinu.

* * *

8) Mig grunar að sóknarnefndin hafi beðið mig að koma hingað með hugleiðingu vegna veru minnar meðal fátækra þjóða undanfarin ár og kannski líka vegna þess að ég sendi frá mér hugleiðingar um þá reynslu fyrir skömmu.  Síðasti kaflinn í því riti, Afríka - ást við aðra sýn, heitir Mæður, og byrjar svona:

Mæðradauði. Fá orð vekja meiri óhug. Nema ef vera kynni ungbarnadauði. Af ástæðum sem í langflestum tilvikum er hægt að koma í veg fyrir. Andartakið þegar konan elur barn, þegar nýtt líf kemur úr skauti konu í þennan heim er það andartak sem mannkyn á að hylla, verja og vernda. En svo er ekki. Aldrei er afrísku konunni jafn hætt og þegar hún elur barn. 800 konur og stúlkur deyja af barnsförum daglega. 99% þeirra í þróunarlöndum.

Er hægt að breyta þessu?

Já. Síðustu 20 ár hefur dauðföllum kvenna vegna barneigna fækkað um helming á hverjum degi.

* * *

9) Góðu fréttirnar eru að árangur hefst náðst gegn mæðradauða og ungbarnadauða. Milljónir og aftur milljónir eru á lífi, sem hefðu dáið ella.

* * *

10) Slæmu fréttirnar eru að hildarleikurinn heldur áfram.

Tveir flugvélafarmar deyja á degi hverjum, fátækar konur sem eru í sporum Maríu í Betlehem.

Þetta jafngildir næstum allri íslensku þjóðinni á hverju ári.

Þessu er hægt að breyta. Hvernig?

Með því að svara heiðarlega og einarðlega spurningunni:  Hvernig fólk viljum við vera? Hvernig mannkyn viljum við vera?

Ég er ekki löglærður í alþjóðasamskiptum en þessi linnulausi mæðradauði er glæpur gegn mannkyni. Glæpur gegn mannkyni flokkast sú aðför sem er almenn og kerfisbundin og beinist gegn mannlegri reisn og virðingu. 99% prósent kvenna sem deyja af barnsförum búa í þróunarlöndum.

Þetta er engin tilviljun.

Mæðradauði er almenn og kerfisbundin aðför að öryggi og mannlegri reisn.

Nú þegar við sjáum árangur liðinna ára og vitum hvað þarf að gera er engin afsökun til.

Það gleður okkur að vita að Ísland leggur sitt af mörkum, byggir sjúkrahús og fæðingardeildir í löndum þar sem konum er hættast.

* * *

11) Hér er stutt saga. Það var skömmu eftir efnhagshrunið á Íslandi að morgunútvarpið hafði við mig reglubundið spjall af vettvangi í einu fátækasta ríki heims.

Spyrlarnir spurðu: Hefur Ísland efni á að hjálpa fátækum við svo erfiðar aðstæður heima fyrir?

Þau voru góð við mig, gáfu upp bolta og ég hefði getað svarað:

Ísland er ennþá ríkasta landi í heimi, við eigum mikil auðævi, fólkið sem ég sé hér í kringum mig að róta upp mold á ökrunum í þeirri von að regntíminn byrji fljótlega þarf að lifa á 150 krónum á dag.

En mig langaði ekki að segja það sem öllum er í raun ljóst.

Svo þegar þau spurðu: Hefur Ísland efni á að hjálpa fátækum við svo erfiðar aðstæður heima fyrir?

Svaraði ég: Hvað hefði Jesú sagt?

Þið munið eftir Jesú, barnið sem lifði af í fjárhúsinu og varð með orðheppnari spámönnum sem sögur kunna frá að greina. Það varð smá þögn í útvarpinu heima.

Ég var ekkert á því að botna þessa spurningu. Hugsaði um fólkið heima yfir morgunkaffinu, á rauða ljósinu á Kringlumýrarbraut, í röð við stimpilklukkurnar í frystihúsunum.

Hvað hefði Jesú sagt?  Hann sagði það fyrir löngu:

Allt það sem þér gerið mínum minnsta bróður gerið þér og mér.

Það sem við gerum okkar minnsta gjörum við sjálfum okkur.

* * *

12) Lærdómurinn af þessu litla spjalli mínu með viðkomu í fjárhúsi fyrir 2000 árum er EKKI að minna okkur á að erindi snáðans frá Nazaret sem óx upp í að verða trúartákn sé tímalaust og eigi alltaf við.

Erindi mitt er að segja að það sé einmitt tímabært, í dag, og vísi til þess sem við eigum að gera - ekki bara hugsa.

Hann sagði: Allt það sem þér gerið mínum ...

Gerið.

Hann sagði ekki: Allar fallegu hugsanirnar og kærleiksríku orðin sem þið sendið mínum minnsta....  Hann minntist ekkert á „hugheilar jóla- og áramótakveðjur“ og að „okkur sé hollt að minnast þeirra sem minna mega sín á jólum“. Svo hér og nú segi ég við ykkur og býð að verði áramótaheitið 2015:

Tökum Jesú á orðinu:

Allt það sem við gerum hinni minnstu móður gerum við sjálfum okkur.

Gleðilegt athafnaár 2015.