Viðmiðið stóra

Viðmiðið stóra

Við lifum á þessum árum eftir Krist. Nær öll saga mannkyns er auðvitað fyrir Krist – það er þetta merkilega niðurtal sem lifendur á hverjum þeim tíma voru auðvitað grunlausir um að ætti sér stað. Stórmenni og heimssögulegir viðburðir eiga sinn stað á skeiði sem metið er áður en atburðirnir gerðust sem við lesum um hér.

Jesús: Ekkert nafn kemur oftar fyrir í samtölum okkar og einræðum. Á hverju andartaki er það nefnt víðsvegar um heiminn: í bænum og söngvum og auðvitað í andvörpum fólks og hrópum, af margvíslegu tilefni jafnt í miðjum harmleik sem í algleymi sigurs og gleði. Hið síðasta hefur ágerst á hinum síðari tímum, ef eitthvað er – mögulega í öfugri fylgni við þátttöku í trúarlegu starfi.


Atburðurinn sem allt miðast við

 

Jesús kemur í heiminn í þessari frægustu óléttu- og fæðingarfrásögn allra tíma. Þar er í sjálfu sér ekki mikið um yfirnáttúru  – þótt vissulega kunni englarnir að andmæla því með dýrðarsöng sínum. Fram að því er frásögnin jarðbundin og jarðnesk í einfaldleika sínum. Og raunar vitjar þessi herskari engla hóps manna sem eru fulltrúar fyrir hið fábrotna – jafnvel utangarðsfólk samfélagsins. Hirðarnir verða fyrstu vitni að þessum atburði.

 

Þá er amstur þeirra Jósefs og Maríu sögumanni hugstætt, þau sem sem hefðu svo hæglega getað horfið inn í sæg nafnleysingja sögunnar. Umkomuleysi þeirra er undirstrikað í samanburðinum við nöfn valdhafa sem nefndir eru í upphafi sögunnar. Jú og við getum bætt þeim við sem héldu utan um bókanirnar á gistihúsunum. Þar komu þau að lokuðum dyrum.

 

Vissulega vitum við ekki upp á hár hvenær þessir atburðir gerðust. Fræðimenn reikna reyndar með að Jesús hafi fæðst fjórum árum fyrir Krist – og taka þeir þá mið af veldistíma Heródesar sem nefndur er í þessum textum. Það skiptir þó ekki meginmáli því atburðurinn sem slíkur markar upphaf tímatals okkar.

 

Jesús: Við drögum línuna í sandinn við þá atburði sem hér var fjallað um. Þarna er núllpunkturinn. Ekki aðeins í kristnum samfélögum, heldur um heiminn allan.

 

Hátíð þessi tengist einhverjum merkustu tímamótum í sögu mannkyns. Hvar sem við stöndum eða erum stödd þá tökum við mið af þeim. 

 

Við lifum á þessum árum eftir Krist. Nær öll saga mannkyns er auðvitað fyrir Krist – það er þetta merkilega niðurtal sem lifendur á hverjum þeim tíma voru auðvitað grunlausir um að ætti sér stað. Stórmenni og heimssögulegir viðburðir eiga sinn stað á skeiði sem metið er áður en atburðirnir gerðust sem við lesum um hér.


Lagður lágt

 

Ég átti auðvitað eftir að nefna stallinn sem Jesús er lagður í, sjálfa jötuna. Við getum vart hugsað okkur óvirðulegri upphafsreit fyrir svo sögulega ævi sem þarna var nýhafin, sé aftur vikið að hinum hefðbundna metorðastiga. Íslenska sagnorðið „að éta“ er meira að segja dregið af þessum orði enda er sækja dýrin fóður sitt í jötu.

 

Þá hef ég vart nefnt á nafn hina ósungnu hetju þessara atburða – sjálfan Jósef sem ætti að vera fyrirmynd fólki á öllum tímum sem fylgir maka sínum í gegnum mótlæti og áskoranir. Rækilega er tekið fram að barnið var ekki hans en hann axlaði sína ábyrgð og stóð með henni Maríu. Þarna sjáum við enn eitt dæmið um það hvernig þessi knappi texti birtir okkur mannlega reisn í allri sinni hófsemd, auðmýkt og einlægni sem birtist í þjónustunni.

 

Skrásetjarar sem hefðu viljað hefja upp þann sem þarna kom í heiminn hefðu svo hæglega getað búið sögunni annan búning. En boðskapur jólanna er ekki fólginn í upphafningu og hroka. Hann snýst ekki um það að olnboga sig áfram, láta aðra kenna á valdi sínu eins og þeir sem nefndir eru fyrstir til sögunnar. Erindi jólanna er heldur ekki það að segja fólki hvað það á að hugsa, hverju það á að trúa. Hér er engin kennisetning, engin dogma – hér er ekki skipað í fylkingar þar sem fólk er sett út í kuldann vegna uppruna síns eða skoðana.

 

Jólasagan ávarpar sjálfa mennskuna, fegurð lífsins sem birtist okkur í hinum varnarlausa hvítvoðungi sem er svo umkomulaus. Á því ævistigi er verður auðsæranleikinn ekki meiri. Ungabarnið á ekkert í sínum reynslusjóði, engin orð til að tjá tilfinningar sínar, engin sjónarmið til að viðra. Jesús, þessi nafntogaðasta persóna samanlagðrar mannkynssögunnar mætir okkur á jólunum í þessari mynd. Og boðar okkur þennan fögnuð – um það hversu dýrmætt lífið er jafnvel í öllum sínum veikleika.

 

Og þar sem fréttir birta okkur okkur mynd af sviðinni jörð gróðahyggju og skeytingarleysis – ættum að líta til þessa stefnumót himnanna við sjálfa jörðina okkar sem hina fullkomnu andstæðu þessa.


Mótsstaða mennsku og náttúru

 

Við ættum að líta til jötunnar sem verður eins og mótsstaður mennsku og náttúru mitt í sjálfu fjárhúsinu þar sem dýrin eiga sitt afdrep. Þessi er boðskapur jólanna – verndum lífið, tryggjum fjölbreytnina, hlúum að hinu smæsta vegna þess að þar kann hið æðsta að leynast. Erindi jólanna til okkar er ríkulegt og skilur okkur eftir með þau skilaboð að ríkulegasta krúnudjásn hvers samfélags er umhyggjan fyrir hinu veika og smáa. Allt annað bliknar í þeim samanburði.

 

Jesúbarnið flytur okkur þennan boðskap á heilögum jólum því þótt vöðvaafl þess sé svo lítið, orðaforðinn enginn sem og völd þess – þá kann það þetta eitt sem skiptir þó öllu máli: að vekja hjá okkur kærleikann.

 

Það nafn er á hvers manns vörum nú árþúsundum eftir þennan atburð. Og sá upphafspunktur markar þau tímamót sem við síðan mælum alla aðra atburði við.

 

Guð gefi okkur gleðileg jól.