Hafðu næga olíu á lampanum þínum

Hafðu næga olíu á lampanum þínum

Vers vikunnar er úr öðru Korintubréfi og segir: „Því að öllum ber okkur að birtast fyrir dómstóli Krists“ (2Kor 5.10a) Enginn veit hvenær það verður og þess vegna er það svo mikilvægt fyrir hvern og einn að vera viðbúinn og hafa næga olíu á lampanum sínum.

Sef 3.14-17, Heb 3.12-14 og Matt 25.1-13

Í dag er næst síðasti sunnudagur kirkjuársins og þess vegna leggja textar dagsins áherslu á mikilvægi þess að vera undirbúinn undir að standa frammi fyrir Guði.

Vers vikunnar er úr öðru Korintubréfi og segir:
„Því að öllum ber okkur að birtast fyrir dómstóli Krists“
(2Kor 5.10a)

 Já, Biblían talar um dómstól og dag dómsins. Jesús Kristur sagði margar dæmisögur og flestar þeirra voru um himnaríki og við hverju við meigum búast.

 Sagan um meyjarnar tíu er ein af þessum dæmisögum… saga um að vera tilbúin þegar kallið kemur… þær voru allar ungar, meyjar… á meðan við erum ung finnst okkur við hafa allan tímann í heiminum, en í raun er líf okkar í þessum heimi afar stutt… á mælikvarða eilífðarinnar… allt fólkið sem lifði á jörðinni árið 1900… er dáið, farið… og við sem lifum núna verðum öll farin eftir uþb 100 ár… það má segja að nær allt dýraríki jarðarinnar endurnýjist á hundrað árum… einstaka dýrategund lifir lengur en það… þannig að í raun og veru höfum við jörðina aðeins að láni í stuttan tíma…

Í þessari sögu er Jesús að benda okkur á að við þurfum að vera tilbúin… Meyjarnar tíu voru hver með sinn lampa, þær sameinuðust ekki um einn stóran lampa… nei, hver og ein hafði sinn lampa, hver og ein þurfti að halda sínu ljósi lifandi og til að halda ljósinu lifandi þurfti hver og ein að útvega sér næga olíu… þetta er einstaklings ábyrgð…  Við upplifum svipað ástand í þjóðfélaginu núna í sambandi við veiruna… þ.e.a.s. varðandi einstaklingsábyrð… ef hver og einn passar sig og gerir það sem hann getur til að smitast ekki, þá eru minni líkur á að hann smitist og smiti frá sér… hver og einn verður að hugsa um sig og takist það er sá hinn sami í góðum málum…

En víkjum aftur til meyjanna sem biðu brúðgumans? Þær vissu ekki hvað þær þyrftu að bíða lengi svo þær voru mis-vel undirbúnar… Þegar kallið kom, þegar brúðguminn birtist,  voru sumar orðnar olíulausar… ljósið sem táknar trúareldinn hafði slokknað… þær höfðu sofnað á verðinum og misstu af tækifærinu, þær voru skildar eftir.

Þessi saga er ein af mörgum sem Jesús sagði um Himnaríki… en allar sögurnar bera sama boðskap, þær segja okkur á einfaldan hátt að þangað förum við ekki sjálfkrafa… Jesús er kærleikur og þess vegna vildi hann láta alla vita, að hver og einn þarf að taka ábyrgð á sér, taka ákvörðun fyrir sig, hver og einn þarf að velja að fylgja honum og hver og einn þarf að sjá um að halda trúareldinum lifandi í hjarta sínu… Trúin á Jesú þarf að vera stimpluð í hjörtu okkar.

Jesús sagði hinar myndrænu sögur um Himnaríki svo allir myndu átta sig á alvarleikanum. Meyjarnar þurftu að halda trúarloganum lifandi, aðrar dæmisögur segja að hafrarnir verði skildir frá sauðunum, illgresið verður skilið frá hveitinu, óætu fiskarnir frá hinum ætu… og á akrinum verður einn tekinn en annar skilinn eftir… Eins eigingjarnt og það hljómar… þá verður hver að hugsa um sig, bjarga sér. Það er kannski núna þegar alls staðar er hamrað á ábyrgð okkar gagnvart veirunni… að það er auðveldara að átta sig á ábyrgðinni á okkar eigin sáluhjálp.

Við getum aðeins borið fagnaðarerindið áfram til annarra svo þeir geti tekið ákvörðun fyrir sig. Við eigum að bera kærleika hvort til annars… því þannig sést að við séum lærisveinar Jesú… og við þurfum að vera óhrædd að viðurkenna trúna. Í Matt segir Jesús: Hvern þann sem kannast við mig fyrir mönnum, mun og ég við kannast fyrir föður mínum á himnum. Matt 10:32  

Við getum sótt styrk og fengið hugarró í gegnum bænina. Hinar ýmsu sögur Biblíunnar gefa okkur innsýn í líf fólks, hvernig það brást við í veikindum og hverskonar erfiðleikum og hvað trúin gaf þeim. Trúin getur veitt okkur það sama. Guð var og er sá hinn sami… Fagnaðarerindið, góðu fréttirnar sem Jesús færði okkur eru að fyrir trú á Jesú verðum við börn Guðs, systkini Jesú og eignumst þannig hlutdeild í Ríki Guðs…. 

Vegna þessa fyrirheitis, viljum hafa næga olíu á lampanum okkar, við viljum vera hveitið sem verður bundið inn en ekki illgresið sem verður skilið frá og brennt… við viljum vera sauðir hirðisins en ekki hafrar hins illa, við viljum ekki vera skilin eftir. Í Op Jóh segir: Sjá, ég kem skjótt og launin hef ég með mér til að gjalda hverjum og einum eins og verk hans er.  Op 22:12

,,Sjá, ég kem skjótt” sagði Jesús en lærisveinarnir misskildu þetta orð ,,skjótt” og héldu að hann kæmi bráðlega… en skjótt merkir, snögglega, eins og hendi veifað eða að óvörum… Enginn veit hvenær það verður og þess vegna er það svo mikilvægt fyrir hvern og einn að vera viðbúinn og hafa næga olíu á lampanum sínum.