Vilji Guðs og rödd hrópanda í eyðimörk

Vilji Guðs og rödd hrópanda í eyðimörk

Ég heyrði eitt sinn getið um víðlesinn mann sem þó hafði aldrei litið í þá helgu bók sem við í daglegu tali nefnum Biblíuna. Dag nokkurn ákvað hann að lesa þá texta hennar sem við kennum við hinn Nýja sáttmála, þ.e. hið Nýja testamenti Drottins okkar og frelsara Jesú Krists. Þegar maðurinn hafði lokið lestrinum lét hann svo um mælt við lærða vini sína, að það sem hann nú hefði lesið væri í raun og veru fremur persóna en texti.

Hvað virðist yður? Maður nokkur átti tvo sonu. Hann gekk til hins fyrra og sagði: Sonur minn, far þú og vinn í dag í víngarði mínum. Hann svaraði: Það vil ég ekki. En eftir á sá hann sig um hönd og fór. Þá gekk hann til hins síðara og mælti á sömu leið. Hann svaraði: Já, herra, en fór hvergi. Hvor þeirra tveggja gjörði vilja föðurins? Þeir svara: Sá fyrri. Þá mælti Jesús: Sannlega segi ég yður: Tollheimtumenn og skækjur verða á undan yður inn í Guðs ríki. Því að Jóhannes kom til yðar og vísaði veg réttlætis, og þér trúðuð honum ekki, en tollheimtumenn og skækjur trúðu honum. Það sáuð þér, en snerust samt ekki síðar og trúðuð honum. Mattheus 21, 28 - 32

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

Góð systkin í Drottni, kæru landar.

Ég heyrði eitt sinn getið um víðlesinn mann sem þó hafði aldrei litið í þá helgu bók sem við í daglegu tali nefnum Biblíuna. Dag nokkurn ákvað hann að lesa þá texta hennar sem við kennum við hinn Nýja sáttmála, þ.e. hið Nýja testamenti Drottins okkar og frelsara Jesú Krists. Þegar maðurinn hafði lokið lestrinum lét hann svo um mælt við lærða vini sína, að það sem hann nú hefði lesið væri í raun og veru fremur persóna en texti. Þannig hafði hann mætt persónu Drottins Jesú sem lesandi þessara texta. Þetta er í samræmi við þá staðreynd að allt Nýja testamentið varðar hann, geymir orð hans og vitnar um verk hans. Það er því sönnu nær að í hvert sinn sem heyrum orð Jesú og dæmisögur þá mætum við honum sjálfum. Það er enda ekki aðeins boðskapur hans sem erindi á við okkur heldur umfram allt hann sjálfur og hann allur. Þannig er það einnig með guðspjallslesturinn í dag.

Þar er Kristur Drottinn staddur í musterinu, guðshúsinu mikla sem stóð í borginni helgu Jerúsalem og er orðinn alkunnur fyrir verk og orð. Þarna í helgidóminum ganga æðstu prestarnir og aðrir fleiri að honum með spurningar um hvaðan honum komi valdið og krafturinn til máttarverkanna. Ásakanir um guðlast og annað verra liggja í loftinu. Guðspjallstexti dagsins geymir eitt svar Jesú við áreitni þeirra. Svarið er örstutt dæmisaga um eiganda víngarðs sem átti tvo syni. Eigandi víngarðsins segir sonum sínum, hvorum fyrir sig, að taka nú til hendinni þar. Hinn fyrri hafnaði ósk föður síns með þeim orðum að hann vildi það ekki en sá sig svo um hönd og dreif sig af stað. Hinn síðari tók vel í ósk föður síns og sagði: "Já, herra," en orð hans fylgdu ekki athöfnum og hann gekk ekki til verka. Og Jesús spyr áheyrendur sína: Hvor sonanna tveggja varð til að gera vilja föður þeirra? Dæmisagan er mjög skýr og einföld og það svo að svarið við spurningu Jesú fer ekki á milli mála. Enda svara andstæðingar hans og áheyrendur svo að það hafi, þrátt fyrir neikvæðar undirtektir í byrjun, verið fyrri sonurinn sem lét að vilja föður síns en hinn síðari ekki þrátt fyrir jákvætt svar hans.

Synirnir tveir í sögunni eru hvor með sínu sniði. Annar segir nei með munni sínum en síðan já með hjarta sínu og verður við vija föður síns. Hinn segir já með munni sínum en nei í hjarta sínu og gerir því ekki eins og faðir hans vill. Áheyrendur Jesú og andstæðingar þarna í musterinu áttuðu sig ekki á því að með því að skilja söguna og svara spurningu Jesú rétt höfðu þeir afhjúpað sjálfa sig og óheilindi sín. Það kom á daginn er Jesús upplýsti þá um merkingu dæmisögunnar um vínyrkjann og synina tvo. Það gerði hann með þessum beittu orðum: "Sannlega segi ég yður: Tollheimtumenn og skækjur verða á undan yður inn í Guðs ríki. Því að Jóhannes kom til yðar og vísaði veg réttlætis og þér trúðuð honum ekki, en tollheimtumenn og skækjur trúðu honum. Það sáuð þér en snerust samt ekki síðar og trúðuð honum."

Hér víkur Jesús orðum að manni sem Jóhannes hét og nefndur var skírari. Þýðing Jóhannesar skírara verður seint ofmetin í samhengi trúarinnar á Krist Jesúm. Hann var dáinn ekki alls fyrir löngu, er hér var komið. Hann hafði safnað um sig lærisveinum sem spámaður Guðs og skírt fólk svonefndri iðrunarskírn í ánni Jórdan. Til að fullnægja öllu réttlæti hafði Jesús sjálfur farið til Jóhannesar og látið skírast af honum. Það var og Jóhannes sem vísað hafði eigin lærisveinum og samferðamönnum til Jesú og trúar á hann sem hinn fyrirheitna Krist og Drottin. Persóna Jóhannesar skírara og boðun hans hafði haft mikil áhrif í Jerúsalem og víðar um Landið helga. Hann kom fram sem maður af Guði sendur og hafði snortið margan í samfélagi gyðinganna.

Minning Jóhannesar skírara var minning spámanns og píslarvotts sem Heródes konungur hafði fangelsað og látið myrða í varðhaldinu. Af því er líka saga í textum hins Nýja testamentis. Þetta illvirki Heródesar var afar illa þokkað meðal fólksins og minning Jóhannesar sveipuð sæmd og guðlegri vegsemd. Því létu æðstu prestarnir og höfðingjar gyðingalýðs í Jerúsalem sem þeir hefðu nafn hans í heiðri. Það sem þeir hins vegar kusu að líta fram hjá, var boðskapur Jóhannesar um Jesúm Krist. Sá boðskapur hans að hinn fyrirheitni Messías væri kominn í Jesú frá Nasaret hlaut yfirleitt ekki viðtöku á meðal höfðingjanna og prestanna við musterið jafnvel þótt þeir að öðru leyti játuðu að Jóhannes skírari hefði verið sannur erindreki Guðs.

Að sínu leyti, lýkur þetta upp dæmisögunni um föðurinn og synina tvo sem hann vildi senda til starfa í víngarði sínum. Jóhannes skírari er rödd föðurins sem tjáir vilja Guðs og víngarðurinn er nærvera Guðs og ríkis hans í Jesú Kristi. Víngarðurinn er sígild líking um Guðs ríki og þá ræktarsemi sem Guð kallar okkur til að sýna því.

Mörg þeirra sem við boðskap Jóhannesar tóku voru ekki af því tagi sem heimurinn hampar. Lærisveinahópur Drottins Jesú hafði að geyma margt fólk sem almennt var litið niður á. Í þeirri hjörð var fólk sem löngum hafði sagt "nei!" við Guði og ekki viljað bregðast við orði hans en þegar það mætti Drottni Jesú sagði það eindregið "já!" með hjarta sínu og munni. Þetta fólk fylgdi honum nú, eigin tilveru til endurnýjunar lífsins, í óslökkvandi trú, von og kærleika. Jesús varð þessu fólki sá "vegur réttlætis" sem Jóhannes hafði vísað á.

Tollheimtumenn og skækjur eru því fyrri sonurinn sem svaraði neitandi í fyrstu en sá sig um hönd og tók við Jesú Kristi í trú. Þarna í musterinu stóðu hins vegar æðstu prestarnir, þjónar musteris Guðs og aðrir höfðingjar sem dag eftir dag létu jáyrði og jafnvel lofsyrði falla um sannferðugleika Jóhannesar skírara með munni sínum en trúðu honum þó ekki. Þessir og aðrir þeim líkir eru því síðari sonurinn í dæmisögu Jesú sem svaraði "Já herra!" en fór ekki til vinnu í víngarðinum.

Það fer ekki á milli mála að dæmisagan snýr að öllum Guðs börnum og himneskum föður okkar sem vill að við lifum og störfum í samræmi við algóðan vilja hans og í trúartrausti til hans. Þannig erum við, mín kæru systkin, fyrir trúna, kölluð til starfs og arfs af Guði hér og nú. Ekki er ég í nokkrum vafa um að því samsinni allir kristnir menn. Það kann hins vegar að vefjast fyrir okkur í hverju sá starfi sé fólginn og hvað það beri í sér að erfa guðs ríki. Hvort tveggja kristallaðist í spurningu ríka mannsins unga sem eitt sinn spurði Jesú, hvað hann ætti að gera til að öðlast eilíft líf. Honum sagði Jesús að fylgja sér þ.e. að gerast lærisveinn. Trúin á Jesúm Krist er okkur sjálfum til lífs og nægta, - þar sem hann er, þar er víngarðurinn og þar vill faðirinn sjá börn sín við uppbyggilega iðju. Það er einnig allrar athygli vert að það sem faðir sonanna tveggja vill er þeim síður en svo óviðkomandi. Þvert á móti eru þeir erfingjar hans og garðurinn með gæðum sínum geymir hag þeirra sjálfra um aldur og ævi.

Kæru systkin. Við erum öll, óháð kynferði, kölluð til arfs fyrir trúna á Jesúm Krist. Synirnir í dæmisögunni koma kynferði fólks ekki við á nokkurn hátt, heldur varða þeir þær viðtökur sem Kristur fær hjá okkur mönnunum. Megi Guð verka svo í okkur hverju og einu að við viljum og framkvæmum það sem til uppbyggingar er og blessunar í hverju efni.

Verum minnug mannsins sem las texta hins Nýja testamentis og áttaði sig þegar að hér var ekki um að ræða einhverja heimshyggju eða sérlega lífsskoðun eða heimspekistefnu, innihald textans varðaði heldur ekki stefnur og strauma í stjórnmálum, - hvorki þá né nú. Við lesturinn mætti hann persónu Jesú Krists og undraðist það líf sem sál hans nærðist af er hann las. Minnumst bænarinnar, - að rækja hana og iðka kærleikann hvert í annars garð. Megi Drottinn Jesús vera okkur hverju og einu vegur lífsins og réttlætisins er hjá honum haldast tryggilega í hendur.

Dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen