Ríkir þöggun í samfélaginu um jákvætt og uppbyggilegt starf kirkjunnar?

Ríkir þöggun í samfélaginu um jákvætt og uppbyggilegt starf kirkjunnar?

Svo virðist sem skautað sé fram hjá þeirri staðreynd að félagsleg lausn í knýjandi neyð fólks kemur í þessu tilfelli einnig frá fólkinu í kirkjunum.
fullname - andlitsmynd Þorvaldur Víðisson
30. mars 2022

Í kvöldfréttum RÚV fimmtudagskvöldið 24. mars sl. var dásamlegt viðtal við sjálfboðaliðana Kristínu Guðnadóttur og Svein Rúnar Sigurðsson sem ásamt fjölmörgum öðrum leggja börnum og fjölskyldum þeirra frá Úkraínu lið um þessar mundir. Þau kynntu nýtt úrræði þar sem reynslumiklir kennarar og sjálfboðaliðar skapa börnum á flótta og mæðrum þeirra umgjörð menntunar, hlýju og uppbyggingar. Úrræðið er afsprengi samheldni og samhugar gagnvart þeim sem orðið hafa fyrir innrás rússneska hersins í Úkraínu. Börnin eru frá Úkraínu og íslensku kennararnir sumir komnir á eftirlaun, líkt og Kristín sem veitti RÚV viðtal í fréttinni.  

Ástandið laðar fram samhyggð og velvild með þeim sem líða, þar sem óteljandi einstaklingar, félagasamtök og fyrirtæki eru að leggja gríðarlega gott til og í raun að lyfta grettistaki. Kirkjan er einn af þessum fjölmörgu aðilum.

Merkilegt þótti mér að í fréttinni kom hvorki fram hvaðan Kristín hefði boðið fram krafta sína inn í þetta samstarf, né hvar þetta nýja úrræði er til húsa. Til upplýsingar kom hún inn í verkefnið á vettvangi þjóðkirkjunnar og úrræðið er til húsa hjá Hvítasunnukirkjunni Fíladelfíu.

Hvernig er hægt að flytja frétt og taka viðtöl um þetta mikilvæga verkefni og geta ekki ofangreindra atriða?

Getur verið að í samfélaginu ríki þöggun þegar kemur að jákvæðu starfi kirkjunnar í landinu? Eigum við erfitt með að nefna hugtakið kirkja þegar fjallað er um jákvæða uppbyggingu og félagsauð sem finna má innan kirkjunnar?  

Svo virðist sem skautað sé fram hjá þeirri staðreynd að félagsleg lausn í knýjandi neyð fólks kemur í þessu tilfelli einnig frá fólkinu í kirkjunum. En það er einmitt af því að við erum kirkja sem við hjálpum meðbræðrum okkar og systrum í neyð. Og þú ert velkomin til þátttöku.