Óhagkvæmt en nauðsynlegt

Óhagkvæmt en nauðsynlegt

Konur gera oft svo undarlega hluti og ekki er það alltaf hagkvæmt sem þær taka uppá. Aldrei mundi karlmaður haga sér svona eins og konan í Betaníu. Að ganga inn í hús manns sem haldinn var líkþrá, alls óhrædd við að smitast, eitthvað hefur nú erindið verið brýnt.

En Jesús var í Betaníu í húsi Símonar líkþráa. Kom þá til hans kona og hafði alabasturs buðk með dýrum smyrslum og hellti yfir höfuð honum, þar sem hann sat að borði. Við þessa sjón urðu lærissveinarnir gramir og sögðu: „Til hvers er þessi sóun? Þetta hefði mátt selja dýru verði og gefa fátækum.“

Jesús varð þess vís og sagði við þá: „Hvað eruð þið að angra konuna? Gott verk gjörði hún mér. Fátæka hafið þið jafnan hjá ykkur, en mig hafið þið ekki ávallt.“ Matt: 26

Konur gera oft svo undarlega hluti og ekki er það alltaf hagkvæmt sem þær taka uppá. Aldrei mundi karlmaður haga sér svona eins og konan í Betaníu. Að ganga inn í hús manns sem haldinn var líkþrá, alls óhrædd við að smitast, eitthvað hefur nú erindið verið brýnt. Auðvitað hafði frelsara hennar og velgjörðamanni ekki verið boðið til Borgarstjórans í Betaníu í mat. Heldur var það Símon vinurinn líkþrái sem fékk tignasta gest jarðar í mat til sín. Sjálfan son Guðs, sem heldur ekki virtist haldinn smithræðslu fremur en konan. En hún hefur nú samt verið hrædd þar í þessu ókunna húsi, hrædd við fylgdarmenn Jesú sem nú horfðu á hana fullir undrunar og í svip sumra þeirra hefur jafnvel mátt sjá hneykslun yfir framferði hennar ekki síst þegar hún tekur að hella rándýrri olíu yfir höfuð vinar síns og meistara þar sem hann situr og matast, og um leið og dýrmæta olían rennur yfir hár frelsarans og vanga, - fara fátækleg híbýli líkþráa mannsins að ilma svo undursamlega. Og ég held að lærisveinarnir hafi notið ilmsins, annað var ekki hægt. En þeir máttu til með að imponera meistara sinn með athugasemd um hvað væri hagkvæmara að gera við peninga en slíkt bruðl, - bruðl með rándýra olíu! Það mætti segja mér að ef þetta matarboð hefði verið haldið í dag, hér í Reykjavík. Myndu þeir hafa rætt um það í fúlustu alvöru að betra væri að fjárfesta í hlutabréfum - og þegar rétti tíminn kæmi,- að deila ÞÁ hagnaði á meðal fátækra.- Þeir bíða spenntir eftir að fá viðbrögð meistara síns, við þessum gáfulegu og praktísku athugasemdum um olíu sem allir geta lifað án. En svar hans kemur öllum viðstöddum á óvart. HVAÐ ERUÐ ÞIÐ AÐ ANGRA KONUNA, GOTT VERK GJÖRÐI HÚN MÉR.

Mér finnst þetta umhugsunarefni. Það er ekki mjög víða í Biblíunni sem við sjáum að samferðamenn og konur sýna Jesú umhyggju og kærleika á meðan hann var enn á meðal okkar á landi lifenda. Og kærleiksrík umhyggja helst ekki alltaf í hendur við hagkvæma vörslu á peningum.

Ég var nýverið að lesa bók sem heitir ÚR BLÖÐUM LAUFEYJAR VALDEMARSDÓTTUR en Laufey var dóttir hinnar merku kvenréttinda konu Bríetar Bjarnhéðinsdóttur. Þessi bók er gefin út 1949 og er hér gripið niður í eina af ræðum Laufeyjar, Og gef henni orðið:

Þegar mæðrastyrksnefnd hóf starfsemi sína fyrir nærri 16 árum og allflest kvenfélög samþykktu þátttöku í þeim samtökum, þá var það EITT málefni sem sameinaði þessar ólíku konur: Krafan um að þjóðfélagið viðurkenndi vinnu móðurinnar á heimilinu með því að veita þeim konum, sem einar væru FYRIRvinnur styrk til þess að halda heimilinu saman. Ýmsir bæir í Noregi höfðu komið á hjá sér slíkum mæðrastyrkjum greiddum úr bæjarsjóðum. Skoraði því Mæðrastyrksnefnd hvað eftir annað á Bæjarstjórn Reykjavíkur að koma slíkum styrkjum á hér í bæ. En því var neitað og borið fyrir að, ekki væri hægt að gera slíkt án þess að Alþingi setti um það lög.

Alþingi virðist enn ekki hafa skilið kröfuna um mæðralaun. - Ég held að það hljóti að vera skortur á ímyndunarafli háttvirtra þingmanna sem veldur því að þeir hafa enn ekki gefið sér tíma til að skilja betur málefni ekkna og einstæðu mæðranna. Það er eins og sumir menn geti ekki séð í huga sínum aðra mynd af heimili en þar, sem þeir eru sjálfir miðdepillinn. - Segir Laufey árið 1949. Og við skulum vona að mikið hafi breyst síðan. Það er skrítið að lesa í fundargerðarbókum háttvirts Alþingis, ýmsar athugasemdir sem bókaðar hafa verið á fyrri hluta 20 aldarinnar. Eins og það þegar Kaþólsku nunnurnar báðu um lán úr bæjarsjóði til þess að byggja Landakotsspítalann. Reis þá ein mannvitsbrekkan á fætur þar í þingsalnum og sagðist "ekki sjá nokkra ástæðu fyrir fátækt bæjarfélag að fara að hjálpa þessum konum að reisa hús fyrir fátæklinga að deyja í, þau gætu alveg eins dáið heima hjá sér"

Nei, veðmætamatið erum við víst ekki alltaf sammála um. Hvað er hagkvæmt peningalega, eða hvað er nauðsinlegt að sjá í kringum okkur, byrgjum ekki augu okkar fyrir því að það sem sameinaði konurnar í mæðrastyrksnefnd árið 1934 voru ekki hagkvæm mál heldur mál sem við við konur víkjum okkur ekki undan að berjast fyrir, því engin okkar vill skirrast við að leggja mannúðinni lið. Nú gæti einhver sagt: Er ekki óþarfi að vera að rifja upp baráttu kvenna frá fyrrihluta 20aldar, þegar Íslendingar voru fátæk þjóð og umkomuleysi þeirra sem verst voru settir eins og einstæðar mæður mjög átakanlegt, en hvað kemur okkur þetta við í dag?

Jú, okkur ber að íhuga orð Jesú, þar í húsi Símonar líkþráa. "Verið ekki að angra konuna, hún var að blessa mig með kærleika sínum og umhyggju. Fátæka hafið þið alltaf á meðal ykkar, en mig hafið þið ekki alltaf. - "Fátæka hafið þið alltaf á meðal ykkar" Hvílíkur spádómur - mannsonarins sem þekkti réttlæti mannanna barna. Og nú 2000 árum seinna verðum við að viðurkenna að þó eitthvað hafi breyst til batnaðar í þeim málum hér í okkar velmegunar þjóðfélagi - þá er það ekki nóg - það er eins og sum okkar kannist við lýsingu Laufeyjar Valdemarsdóttur þar sem hún gluggar í dagbók mæðrastyrksnefndar þar er getið um einstæða tveggja barna móður og vanmáttinn sem þessar góðu konur finna í baráttu sinni til að hjálpa henni sökum skilningsleysis ráðamanna á aðstæðum stúlkunnar sem er veikburða sérstaklega eftir barnsburð og hefur ekki kraft til annars en reyna að hugsa um börnin sín tvö.Hún hefur fengið neitun um hjálp hjá barnaverndarnefnd, aðra neitun hjá fátækrafulltrúa um viðbótar styrk og farið jafnvel til lögreglustjóra í Stjórnarráðið. Ekkert nema örvæntingin gat gefið henni djörfung til að fara þessa kross göngu, (Segir Laufey) en engin getur hjálpað henni. Og í dagbók mæðrastyrksnefndar stendur:

19 okt. 1939. Kemur stúlkan enn. Býr hún nú ein síns liðs í litlu herbergi með börnum sínum tveim, er annað á þriðja ári, en hitt um tveggja mánaða. Hún fær meðlög með börnunum og húsaleigu, en hún getur ekki lifað af þessu og biður um að talað sé við fátækrafulltrúana fyrir sína hönd og beðið um fæðispeninga handa sjálfri henni. Er þetta gert, en ber ekki árangur.
12 febr. 1940 Hefur Mæðrastyrksnefnd tekist að útvega stúlkunni Kolapoka en er það óveruleg hjálp (Skrifar Laufey og heldur áfram) "Nú kem ég heim til hennar og sé litla þrifalega herbergið og börnin, sem eru svo snyrtileg þrátt fyrir fátækt móðurinnar."

Tilvitnun lýkur. Mér finnst þetta svo fallegt, því ég get ekki betur séð en hér hafi Laufey, þessi vel menntaða kona fyrsta konan sem tekur stúdentspróf á Íslandi - rogast með kolapokann heim til þessarar einstæðu móður - Þær tala saman. Laufey og vinkonur hennar gera allt sem þær geta til að hjálpa. En þegar öll sund virðast lokuð grípur stúlkan til þess ráðs að koma yngra barninu fyrir á vöggustofu og því eldra í sveit, svo hún komist til vinnu. En sólarhring eftir að þetta úrræði er tekið kemur stúlkan grátandi til Laufeyjar og biður hana í Guðs bænum að hjálpa sér til að ná barninu af barnaheimilinu, hún hafi séð að ekki fór vel um það, og forstöðu konan telji að hún hafi afsalað sér móðurréttinum um leið og hún kom með barnið og leyfði að það væri gefið. En stúlkan sagðist ekki geta látið barnið frá sér eins og hlut á útsölu. Hún kvaðst ekki getað lifað aðra eins nótt og þá sem liðin var síðan barnið fór. Laufey fór þá með henni og hjálpaði henni að fá barnið og hún segist aldrei gleyma feginleik stúlkunnar þegar hún hjúfraði barnið að sér.

En sjötta mai sama ár var stúlkan skyndilega og skýringarlaust svipt húsaleigustyrknum. Laufey hittir hana svo eftir að hún er búin að gefa bæði börnin frá sér og skrifar:" Ég get ekki með orðum lýst hve snauð hún var og slokknuð eftir allan baráttuhuginn sem hún hafði sýnt veturinn áður. Allur sá sársauki sem hún hafði reynt, kom snöggvast fram, þegar hún sagði lágt og þungt: "Ég get ekki skilið að það sé rétt að pína fátækar stúlkur til þess að láta börnin sín." Þetta var jú árið 1940. Við höfum sjálfsagt önnur kærleiksríkari úrræði fyrir einstæðar mæður í dag. Eða er það ekki? En sjálfur Guð lætur sér svo umhugað um einstæðar mæður. Við lesum í Biblíunni og sjáum í Jesaja. En Jesaja var spámaður sem var uppi 7 öldum áður en matarveislan í Betaníu átti sér stað og konan sýndi elsku sína og umhyggju gagnvart Jesú með því að smyrja höfuð hans með olíu.Í Jesaja segir: "Óttist eigi því að ég er með ykkur. Látið eigi hugfallast því ég er ykkar Guð. Ég styrki ykkur, ég hjálpa ykkur, og styð ykkur með hægri hendi réttlætis míns. - Börn hinna yfirgefnu munu fleiri verða en giftu konunnar, segir Drottinn: Víkka þú út tjald þitt, þú hin yfirgefna og lát þenja út tjalddúka búðar þinnar, gjör tjaldstög þín löng og rek fast niður hælana. - Óttast eigi því þú skalt ekki til skammar verða - því að hann sem skóp þig er eiginmaður þinn, drottinn alsherjar er nafn hans.

Þessu er spáð 700 árum áður en þegar bersynduga konan gekk inn í hús höfðingjans, fariseans sem boðið hafði Jesú til kvöldverðar, (Það er svo skrítið) konur hafa alltaf uppá Jesú hvar sem hann neytir kvöldverðar hvort sem er hjá hágum eða lágum. Óboðnar ganga þær rakleitt til frelsarans og sýna honum umhyggju og kærleika og þakklæti fyrir að láta sér annt um þau smáðu. Sú kona tók að væta fætur hans með tárum sínum og þerraði með hári sínu, hún kyssti fætur hans og smurði með dýrum smyrslum. Og fína fólkið í kringum þau hugsaði "Ekki getur hann nú verið merkilegur spámaður þessi Jesús, því væri hann það mundi hann vita , hver og hvílík sú kona er sem snertir hann, að hún er bersyndug" En ekkert var sagt upphátt, því háttvísin var í hávegum höfð í þessu boði. Enginn varaði sig á því að þessi Jesús heyrði hugsanir þeirra og svaraði þeim: Og svarið til þeirra ætla ég ekki að tíunda hér, en ég lofa ykkur því að hann lét þau hafa það óþvegið! Nei, hér ætla ég að tala um það sem hann sagði þegar hann sneri sér að konunni. " Þau sem elska mikið, er mikið fyrirgefið - trú þín hefur frelsað þig far þú í friði."

Eitt sinn hlýddi ég á ræðu í Enskri kirkju. Ræðumaðurinn talaði um hinn sterileseraða Jesú Krist sem við mennirnir erum búin að koma okkur upp. Á frægum málverkum horfum við á hreinan mann með hvíta skýlu um lendar sér og oftast er krossinn staðsettur uppi á háum hól. En þetta var ekki þannig sagði þessi enski predikari - hann var blóðugur og illa útleikinn af aur sem kastað hafði verið í hann, engin skýla var um lendar hans, krossinn var ekki reistur á neinum hól, hver sem framhjá gekk og vildi hæða hann og smána gat komið við hann, káfað á honum og snert hann. Þessi hugsun fannst mér óbærileg, og ég hringdi í trúaða vinkonu mína hún heitir Caroline og er brúðugerðar maður sem rekur lítið brúðuleikhús þar á enskri grund. Ég held ég hafi verið hálfgrátandi þegar ég var að segja henni frá þessu. Þeir gátu snert hann - endurtók ég hvað eftir annað - Já en Gudrun - mundu eftir olíunni sagði Caroline - hvaða olíu - spurði aumingja ég - dýru olíunni sem konan hellti yfir höfuð hans þegar hann sat til borðs hjá Símoni líkþráa - Þetta var svo dýr og vönduð olía að þar sem Jesús hékk kvalinn á krossinum hefur brotist út sviti og tár og við það hafa þessar dýru ilmjutir í olíunni hitnað og tekið að ilma. Svo í nösum hans hefur ilmur olíunnar sem hellt var yfir höfuð hans kvöldið áður, veitt honum huggun. Hann hugsaði um vinina sem elskuðu hann. Konurnar sem sýndu honum þakklæti sitt og kærleika með því að nudda fætur hans með dýrum smyrslum og hella yfir höfuð hans þeim ilmi, sem dýrmætastur er á jörð. Ilm sem er dýrari en allar fjárfestingar innanlands og utan. Ilm vináttunnar og kærleikans.