Siðbót í samtíð

Siðbót í samtíð

Nú þurfum við siðbót í samtíð. Við verðum að geta sagt að þjóðfélagið okkar byggi enn á kristnum kærleiksboðskap. Ef við getum sagt það, þá hefur orðið siðbót í samtíð. Minnum hvert annað á gullnu regluna um að sýna öðrum það sem við viljum að okkur sé sýnt. Berum virðingu fyrir mannslífi stóru sem smáu og stöndum saman um að efla kirkjuna í heimabyggð okkar.

Flutt 13. ágúst 2017 · Hóladómkirkja, prestsvígsla (útvarpað á Rás 1)

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Guðspjallið sem ég hef valið mér við þessa prestsvígslu á Hólahátíð er sá fyrsti í röð þeirra texta sem vígsluvottar munu lesa hér á eftir og kallast skírnarskipunin eða kristniboðsskipunin og segir frá því þegar Jesús birtist lærisveinum sínum upprisinn 40 dögum eftir upprisuna á uppstigningardegi, felur þeim afar mikilvægt hlutverk og segir:
„Allt vald er mér gefið á himni og jörðu. 19Farið því og gerið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður og sonar og heilags anda 20og kennið þeim að halda allt það sem ég hef boðið yður. Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.“

Þessi orð eru í senn skipun og fyrirheit. Um leið og Jesús biður okkur um að boða allt það sem hann hefur boðað, þá lofar hann okkur því að vera með okkur og hjálpa okkur í því mikilvæga boðunarhlutverki.

Við getum reynt að setja okkur í spor lærisveina Jesú, sem höfðu fylgt honum í þrjú ár, en verða síðan fyrir þeim miklu vonbrigðum að hann er líflátinn á hrottalegan hátt. Þrátt fyrir fullvissu þeirra um upprisuna og jafnvel þó þau hafi séð hann upprisinn berum augum oftar en einu sinni og oftar en tvisvar þá lesum við að jafnvel þennan dag, þegar Jesús felur þeim hlutverkið stóra og mikla, þá voru sumir í vafa. Sumir efuðust eins og við öll efumst og setjum stór spurningarmerki við þessa tilveru okkar sem er svo óútskýranleg og undursamleg í alla staði.
Já, við getum sett okkur í spor þessa fólks vegna þess að Jesús felur ekki aðeins þeim þetta hlutverk, heldur okkur öllum sem höfum verið skírð og tilheyrum honum þar með á þennan leyndardómfulla hátt.
Í gær var einföld athöfn hér í Hóladómkirkju þar sem við endurnýjuðum skírnarheitið.

Langflest okkar hafa gleymt sinni eigin skírn og því er það gott fyrir sálina að fá tækifæri til að ryfja upp þetta undur sem gerðist í skírninni og endurnýja hana, líkt og fermingarbörnin gera þegar þau staðfesta skírn sína í fermingarheitinu. Allt sem endurnærir trúna í hjörtum okkar er gott fyrir sálina. Orð Guðs í Biblíunni endurnærir sálina, bænin endurnærir sálina og það að fara í kirkju og lofa Guð í messunni og altarisgöngunni endurnærir sálina.

Jesús kallar allt kristið fólk til að vera lærisveinar sínir. Þess vegna er skírnarskipunin lesin við hverja skírn og foreldrar og skírnarvottar eru hvött til að fara eftir henni.
Já, við erum öll kölluð til að fylgja Jesú, en nokkur okkar eru sérstaklega kölluð til að hafa það að ævistarfi að boða Guðs orð, kenna fólki það sem Jesús kenndi og hlú að náunganum í kærleika.
Þess vegna vil ég minna þig, kæri vígsluþegi, kæra Stefanía, á þetta:

Það er mikilvægt að boða trú og kenna um Jesú, en það er enn mikilvægara að hlú að, hjálpa og styrkja aðra í starfi prestsins. Sálgæsla er mjög mikilvægur hluti prestsstarfsins og það sem mestur tími fer í. Kirkjan er lifandi afl í samfélaginu og þar hjálpast margar hendur að, hugur og hjörtu.
Nú verður þú, Stefanía, stór hlekkur í þeirri keðju. Þú hefur unnið ötullega í kirkjunni bæði í barna- og æskulýðsstarfi, en líka í kórastarfi og hefur fallega söngrödd. Ég hef verið svo lánsöm að fá að fylgjast með þér og hve þú tókst námið alvarlega og af mikilli einbeitni. Ég er sannfærð um að þú verður sterk liðskona í kirkjunni, enda mikil íþróttakona.
Í dag er haldin Hólahátíð hér heima á Hólum og í ár minnumst við 500 ára afmælis siðbótar Marteins Lúthers. Það er gert með margvíslegum hætti um allt land, allt þetta ár.

Við horfum fram til þess með mikilli tilhlökkun að fá Stopp leikhópinn í heimsókn í hverja sveit og hvern söfnuð, en leikhópurinn er um þessar mundir að leggja síðustu hönd á undirbúning undir það að flytja leikrit um Martein Lúther, konu hans Katarinu frá Bóra, líf þeirra og störf. Ef það leikrit er eitthvað í líkingu við leikverk þeirra um Hallgrím Pétursson, þá megum við eiga von á góðri skemmtun. Við hugsum til þess á siðbótarafmæli hve djarfur og hugrakkur Marteinn Lúther var og liðið sem var með honum því enginn getur hrundið af stað svo sterkri hreyfingu einn síns liðs, enda var jarðvegurinn tilbúinn og fólk þyrsti í að fá að heyra Guðs orð á sínu eigin tungumáli. Á Hólahátíð í ár höfum við ekki aðeins horft til fortíðar, heldur einnig til samtíðar og framtíðar, reyndar er yfirskrift hátíðarinnar – Siðbót í samtíð.
Við höfum einbeitt okkur að íhugun um það hvernig við upplifum Guð í dag og hvernig kirkju við viljum hafa.

Þáttökugjörningur hefur verið í gangi alla helgina þar sem myndlistarkonurnar Guðrún Kristjánsdóttir og Ólöf Nordal hafa leyft fólki að mynda sínar hugmyndir og hengja þær á hurð eins og Marteinn Lúther gerði á sínum tíma. Það hefur verið gaman að fylgjast með því alla helgina og sjá fólk koma glaðbeitt hingað í kirkjuna með tesurnar sínar og heyra svo hamarshöggin dynja.
Í morgun var svo flutt stórkostlegt tón-leikhús sem þær Diljá Sigursveinsdóttir og Guðný Einarsdóttir hafa sett saman um siðbótarkonurnar Elísabetu Cruciger sálmaskáld og samstarfskonu Marteins Lúthers og Halldóru Guðbrandsdóttur, sem var bustýra hér á Hólum með konungsleyfi um biskupsvald, sterk kona sem vert er að minnast sem siðbótarkonu.

Hér á Hólum svífur andi siðbótarinnar yfir vötnunum þar sem hér var fyrsta prentsmiðjan, Guðbrandur Þorláksson gaf hér út fyrstu íslensku Biblíuna og á hans tíma ólst hér upp sálmaskáldið Hallgrímur Pétursson og var fyrsta útgáfa passíusálmanna prentuð hér.
Enn í dag er mikil starfsemi hér á Hólum. Hér er Háskóli og biskupssetur. Hér starfar Guðbrandsstofnun sem heldur uppi menningarstarfsemi hér heima á Hólum með sumartónleikum vikulega allt sumarið, fræðafundum heima á Hólum tvisvar í mánuði yfir vetrartímann og árlegri ráðstefnu sem undanfarin ár hefur borið yfirskriftina: Hvernig metum við hið ómetanlega?
Við köllum eftir siðbót í samtíð.
Margt ógnvænlegt gerist um víða veröld og við horfum á, og þó. Við erum þátttakendur í þessari veröld og við berum ábyrgð. Við þurfum að taka okkur á í kristinni kærleiksþjónustu.

Við þurfum að taka okkur á til að mæta hinum fátæku í samfélagi okkar. Við þurfum að taka okkur á í því hvernig við tökum á móti flóttafólki og hælisleitendum. Íslenskt samfélag hefur hingað til byggt á kristnum grunni.

Nú þurfum við siðbót í samtíð. Við verðum að geta sagt að þjóðfélagið okkar byggi enn á kristnum kærleiksboðskap.
Ef við getum sagt það, þá hefur orðið siðbót í samtíð. Minnum hvert annað á gullnu regluna um að sýna öðrum það sem við viljum að okkur sé sýnt. Berum virðingu fyrir mannslífi stóru sem smáu og stöndum saman um að efla kirkjuna í heimabyggð okkar. Í dag bætist við sterk liðskona í þann flokk sem vill efla kirkjuna. Það verður að brenna á okkur öllum að fylkja okkur saman um það stóra og mikla verkefni.

Sú kona sem hefur að mínu mati haft mest áhrif á kirkju samtímans er fyrsta konan sem hlaut prestsvígslu á Íslandi, sr. Auður Eir Vilhjálmsdóttir. Hún mun flytja hátíðaræðu hér í kirkjunni þegar við höfum gætt okkur á veislukaffi í Hólaskóla. Það er tilhlökkunarefni að hlusta á boðskap hennar sem er sífellt nýr og ferskur.
Að lokum vil ég segja við þig, kæri vígsluþegi, kæra Stefanía. Guð blessi þig í dag eiginkonu þína og börn og gefi ykkur öllum styrk til að þjóna Drottni með gleði og kærleika.
Í Jesú nafni.
Amen.