Sólin er ekki til sýnis

Sólin er ekki til sýnis

Þótt þessi glóandi stjarna geri jarðlífið mögulegt, þola viðkvæm augu okkar ekki að líta hana. Við þurfum að láta okkur nægja óbeina birtuna, hvort heldur er í upplýstri náttúru, á ljósmynd nú eða í gegnum einhvers konar fílter. Sólin er ekki til sýnis, getum við sagt.
fullname - andlitsmynd Skúli Sigurður Ólafsson
18. apríl 2025
Flokkar

Sólin er ekki til sýnis

 

Nú á föstunni, að morgni 29. mars nánar tiltekið, laumaði tunglið sér í veg fyrir sólina svo að það skyggði á tvo þriðju hluta hennar. Þetta kalla fræðin Deildarmyrkva á sólu. Ég svo heppinn að vera einmitt á kóræfingu á þeim tíma og í hléinu safnaðist fólk saman á túninu við kirkjuna til að geta fylgst með þessu sjónarspili himintunglanna.

 

Sólin er ekki til sýnis

 

Einhver voru svo forsjál að taka með sér þar til gerð gleraugu sem eru svo dimm að vart sést handaskil þegar þau eru á nefinu. En þegar horft var á röðulinn sjálfan þá birtist þessi magnaða mynd af honum eins og hálfu tungli þar sem máninn skyggði á hluta. Einhver tóku af sér gleraugun og vörpuðu geislunum á sléttan flöt og þar mátti greina bjartan hring sem skyggður var að hluta.

 

Þótt sólin sé búin að skína á lífverur þessarar jarðar frá öndverðu er það nú samt þannig að augun okkar geta ekki horft beint í hana án þess að hljóta skaða af. Þegar ég er á gangi á þessum björtu vordögum með níu mánaða gamlan dóttursoninn má ég hafa mig allan við að gæta þess að sólin skini ekki beint á litla andlitið. Og sjálfur pírir hann augun og reynir að beygja sig undan birtunni ef afinn er ekki nógu fljótur til.

 

Þótt þessi glóandi stjarna geri jarðlífið mögulegt, þola viðkvæm augu okkar ekki að líta hana. Við þurfum að láta okkur nægja óbeina birtuna, hvort heldur er í upplýstri náttúru, á ljósmynd nú eða í gegnum einhvers konar fílter.

 

Sólin er ekki til sýnis, getum við sagt.

 

Upprisa og upprás

 

Og nú er runninn upp páskadagur, upprisuhátíðin sjálf. Þetta er hátíðin bjarta þegar við þurfum ekki að tendra kertaljós eða hengja upp seríur í dimmu skammdegi, eins og á jólunum. Nú brosir náttúran við okkur. Íslenskan lætur heldur ekki að sér hæða. Upprisa kallast á við upprás – það þegar sólin hefur sig upp við sjóndeildarhring, eða öllu heldur við hérna á jörðinni snúum okkur þannig að hún birtist okkur.

 

Þannig hefst líka páskaguðspjallið: „Og mjög árla hinn fyrsta dag vikunnar við sólarupprás, koma þær að gröfinni.“ Þetta er sennilega ástæðan fyrir því að við rífum okkur upp á þessum frídegi og messum kl. átta að morgni. Upprisan kallast á við upprásina.

 

Við vitum ekki hvað gerðist þetta örlagaríka skeið milli krossfestingar og þess að konurnar komu að tómri gröfinni. Upprisan er svolítið eins og sólin. Við sjáum merki hennar og afleiðingar en ekki hana sjálfa. Hópurinn hafði verið skelkaður og sundraður en lagði nú upp í þá vegferð sem ekki sér enn fyrir endann fyrir.


Kross

 

Krossinn hafði verið merki um algeran ósigur þræla sem gert höfðu uppreisn gegn yfirboðurum sínum. Hann hefði átt að marka endalok Jesú-hreyfingarinnar í þessari annexíu Rómaveldis sem Júdea var.

 

Upprisan breytti því ekki bara, heldur umbylti því. Upprisan gaf þessum atburðum þveröfug formerki. Krossinn var ekki tákn um uppgjöf og dauða. Hann varð sigurtákn, valdeflandi staðfesting á því hvernig þolandi sigrar kvalara. Hann var ekki aðeins uppreisn hins undirokaða heldur sýndi hann máttinn sem býr í umhyggjunni, í kærleikanum, í því sem þorir að sýna veikleika sína og auðsæranleika.

 

Krossinn er „Grikkjum heimska og gyðingum hneyksli“. Þannig komst Páll postuli að orði, sjálfur sigurviss þótt hann mætti dúsa í fangaklefa og árangurinn af starfi hans væri þá harla takmarkaður. Þetta voru jú aðeins dreifðir hópar kristinna manna og virtust skilja fátt. En hann hafði sigurinn í hendi sér og gilti þá einu hvernig aðstæðurnar væru á þeirri líðandi stundu.

 

Það er lýsandi fyrir þá byltingu sem var í vændum að í guðspjallinu eru konur í aðalhlutverki. Fræðimenn telja að hlutur kvenna í fyrstu söfnuðum kristinna manna hafi verið ráðandi. Svo áttu kirkjuleiðtogar eftir að draga úr honum sennilega í áróðursskyni í karllægu samfélagi. Engu að síður er sú staðreynd að í þessum þáttaskilum skuli sjónum vera beint að konunum allrar athygli verð. Við getum jafnvel sagt í anda þessarar árstíðar að þar hafi fræi verið sáð sem átti síðar eftir að spíra, vaxa upp úr sverðinum til hærri hæða.

 

Sæl og blíð

 

Þannig heilsa páskarnir. „Sigurhátíð sæl og blíð“ sungum við hér í upphafi. Já, hún er einmitt blíð. Páskarnir er hinn ljúfi sigur þess sem birtist okkur á jólum í veikleika nýburans og hangir á krossinum í auðmýkt þrælsins.

 

Fylgjendur Jesú höfðu væntanlega séð fyrir sér að í skársta falli myndu þeir hverfa inn í þokumistur sögunnar, verða nafnlausir og týndir eins og nánast öll þau sem hafa gengið um þessa jörð. Í versta falli yrðu þeir ofsóttir og hundeltir – sem samverkamenn hins sigraða uppreisnarmanns.

 

Páskarnir eru hátíðin þar sem þessi ótti reyndist einmitt vera óþarfur. Upp frá þessu stigu lærisveinarnir fram af djörfung og sögðu sögurnar sem við eigum nú í Nýja testamentinu. Þessar sögur breyttu lífi fólks og gangi sögunnar og gefa okkur ný viðmið um gott og illt.

 

Upprisan er atburðurinn þar sem mælikvörðum var kollvarpað. Skyldur okkar og tilgangur felast í umhyggjunni gagnvart þeim sem standa höllum fæti. Og það á ekki síður við um skyldur okkar gagnvart ókomnum kynslóðum, sem birtist í umhyggju fyrir náttúru og lífríki.

 

Upprisan er að þessu leyti eins og sólin. Hún lýsir allt upp, breytir öllu, gefur líf. En hún er ekki til sýnis í þeim skilningi að við getum litið hana berum augum eins og við fundum þegar deildarmyrkvinn var hér á dögunum. Við sjáum þó afrakstur sólarinnar hvert sem litið er í lífríkinu. Sjálf eigum við að vera fólk ljóssins sem flytur sigurboðskap upprisunnar áfram til út í heiminn sem þyrstir að fá hlutdeild í því fagnaðarerindi.