„Biðjið og yður mun gefast“

„Biðjið og yður mun gefast“

Í gróðurhúsi trúarlífsins er bænin eins og vatnið sem vökvar plönturnar. Án vatnsins skrælna plönturnar og deyja. Án bænarinnar skrælnar trúin og deyr.

Og Jesús sagði við þá: „Nú á einhver yðar vin og fer til hans um miðnætti og segir við hann: Vinur, lánaðu mér þrjú brauð því að vinur minn er kominn til mín úr ferð og ég hef ekkert að bera á borð fyrir hann. Mundi hinn þá svara inni: Ger mér ekki ónæði. Það er búið að loka dyrum og börn mín og ég komin í rúmið. Ég get ekki farið á fætur að fá þér brauð? Ég segi yður, þótt hann fari ekki á fætur og fái honum brauð vegna vinfengis þeirra, þá fer hann samt fram úr sakir áleitni hans og fær honum eins mörg og hann þarf.

Og ég segi yður: Biðjið og yður mun gefast, leitið og þér munuð finna, knýið á og fyrir yður mun upp lokið verða. Því að hver sá öðlast sem biður, sá finnur sem leitar og fyrir þeim sem á knýr mun upp lokið verða. Er nokkur sá faðir yðar á meðal sem gæfi barni sínu höggorm ef það biður um fisk eða sporðdreka ef það biður um egg? Fyrst þér, sem eruð vondir, hafið vit á að gefa börnum yðar góðar gjafir, hve miklu fremur mun þá faðirinn himneski gefa þeim heilagan anda sem biðja hann.“Lúkas 11. 5-13

I

„Það er miðnætti. Allir eru komnir í ró. Hvíld næturinnar hefur færst yfir. Börnin eru sofnuð og húsráðendur gengnir til náða. Þá er bankað. Þögn. Það er bankað aftur. Aftur þögn. Síðan er bankað enn fastar og nú er kallað fyrir utan. Svona gengur þetta áfram. Hvaða ónæði er þetta? Hver lemur húsið að utan með hrópum og köllum svona seint? Er vinur minn genginn af göflunum að biðja mig um að lána sér brauð og klukkan orðin þetta margt? Það er best að fara til dyra áður en hann vekur börnin og alla fjölskylduna.“ Já, auðvitað er ónæði af því að vinurinn banki uppá á svona „ókristilegum“ tíma sólarhrings. En vegna áleitni hans verður húsráðandinn að staulast fram úr. Vegna áleitninnar. Með öðrum orðum, vegna þess að vinurinn heldur áfram að banka, hann bankar og bankar þar til það er svarað. „Knýið á, og fyrir yður mun upp lokið verða“. Það er því áleitni vinarins sem er hvatninn að því að húsráðandinn fer á fætur. Því frekar en að allir í húsinu vakni, þá er betra að fara til dyra og verða við óskum vinarins.

Oft erum við óþolinmóð gagnvart Guði og bænasvörum hans. Við biðjum um eitthvað, jafnvel krefjumst einhvers af honum, og við viljum fá svarið strax. Svo þegar ekkert gerist þá gefumst við upp. Hvers vegna er ekki meiri dugur í okkur en þetta? Hvernig eru börnin þegar þeim langar í eitthvað? Biðja þau bara einu sinni um það sem þeim langar í og bíða svo, og ef ekkert gerist þá hætta þau? Ó,nei! A.m.k. ekki mín börn, og vona ég að það sé ekki vegna þess að þau séu svo illa upp alinn. Ef þetta er eitthvað sem skiptir börnin máli, þá halda áfram að biðja um þetta, og þau biðja og biðja. Með öðrum orðum, þau suða og suða og manni finnst þau oft suða endalaust. Af hverju? Jú, því að oft, eða a.m.k. stundum þá ber það árangur. Börnin eru oft svo áleitin, vegna þess að það er í eðli þeirra. Síðan er þeim svarað, ekki endilega alltaf eins og þau vilja því sem betur fer hafa foreldrarnir oftast vit fyrir börnunum en oft fá þau það sem þau biðja um. Þannig eigum við að taka börnin okkur til fyrirmyndar. Þegar við biðjum til Guðs eigum við að vera áleitin, líkt og vinurinn í guðspjallstextanum áðan.

II

Maður nokkur var staddur í árabáti úti á regin hafi og var að renna eftir ýsu í soðið. Skyndilega skellur á stormur og hafið sem hafði verið spegilslétt fór nú að verða úfið og svakalegt. Maðurinn sem var trúaður, fór strax að biðja og bað Guð um að bjarga sér úr þessum sjávarháska. Maðurinn sem var bænheitur bað af krafti en varð skyndilega fyrir truflun í miðri bæninni. Þarna var komin trilla upp að árabátnum hans og skipverjar trillunnar kölluðu til mannsins um að koma yfir til þeirra, þetta sé nú ekki veður til þess að vera að velkjast um á árabát. Maðurinn sem var hálf fúll yfir þessari truflun, enda í miðri bæn, sagði þeim að forða sér sjálfir. Hann sé trúaður og trúir því að Guð muni vernda sig frá þessum háska. Trillan fór og maðurinn hélt áfram að biðja. Stuttu seinna var hann aftur truflaður, nú var komin þokkalegasti loðnubátur og var kallað til mannsins um að koma yfir til þeirra, það sé að gera storm og því hættulegt að vera á litlum árabáti í þessu veðri. Aftur varð maðurinn fúll yfir þessari truflun og sagði mönnunum að vera ekki að hafa áhyggjur af sér, Guð muni sjá um hann, og hann sendi þá á brott. Hann hélt áfram að biðja og var bænarhitinn svo mikill hjá honum að hann bókstaflega logaði og hann trúði því svo örugglega að Guð mundi stíga niður af himni og bjarga honum úr þessum sjávarháska. Þá varð hann enn og aftur fyrir truflun. Nú var togari kominn upp að honum og hann spurður hvort hann vilji ekki koma yfir til þeirra. En hann mátti ekkert vera að því, og undraði sig á því að mennirnir sjái ekki að hann sé að biðja og því muni Guð sjá um hann. Síðan sendi hann togarann á brott. Stuttu síðar yfirfyllist árabáturinn af sjó, sekkur og maðurinn drukknaði. Algerlega gáttaður á þessu gékk sjómaðurinn á fund Guðs og spurði hverju þetta sætti. Af hverju Guð hafði ekki hlustað á bænir hans og bjargað honum? Þá sagði Guð, ég reyndi það þrisvar, en þú sendir mig alltaf í burtu!!!

Guð heyrir bænir okkar, og það er meðal annars vegna áleitni okkar að Guð heyrir til okkar. Hann heyrir bænir okkar og veitir okkur blessun. Hins vegar hefur Guð aldrei sagt að hann muni bænheyra okkur samstundins, eða að bæna-svarið verði eins og við kjósum. Stundum kemur bænasvarið löngu eftir að beðið hefur verið, og oft er bænasvarið ekki eins og við vildum. En það er þá vegna þess að Guð veit hvað er okkur fyrir bestu. Það sem við höldum að sé það besta fyrir okkur, og við biðjum um, er ekki endilega það sem er okkur best. En Guð vill okkur aðeins það besta og því finnst okkur bænheyrslan ekki alltaf vera í takt við það sem við óskuðum okkur. Þarna reynir á trú okkar og við tökum á móti bænasvarinu þegar við erum tilbúin til, þegar hjörtu okkar eru auðmjúk fyrir Guði og sál okkar þyrstir eftir honum. Við verðum að vera opin fyrir bænasvörum Guðs. Svo ekki fari fyrir okkur eins og sjómanninum sem e.t.v. bjóst við að sjá hönd Guðs koma niður úr skýjunum og lyfta sér upp úr ólgandi hafinu. En þessi sýn mannsins gerði hann svo blindan að hann sá ekki þegar Guð rétti honum hjálparhönd í þrígang.

III

Ekkert heilbrigt foreldri snýr bakinu við barni sínu og gefur því stein þegar það biður um brauð, eða höggorm þegar það biður um fisk, eða sporðdreka þegar það biður um egg. Það liggur í augum uppi að foreldrar verða við þessum óskum barnanna. Þegar börnin mín eru svöng þá gef ég þeim að borða, vegna þess að ég veit að það er þeim fyrir bestu. Í guðspjallinu segir; „Fyrst þér sem eruð vond, hafið vit á því að gefa börnum yðar góðar gjafir“, með öðrum orðum; við sem erum ófullkomin, því hversu góðir foreldrar sem við teljum okkur vera, þá sem manneskjur erum við ófullkomin. Og eins ófullkomin og við erum þá höfum við samt vit á því að gefa börnum okkar góðar gjafir, því ætti þá ekki Guð, sem er svo miklu fremri okkur, svo miklu skilningsríkari, ást meiri og betri en við getum nokkurntíma orðið, að verða við bænum okkar? Þess vegna segi ég við ykkur, biðjið. Ekki einu sinni, ekki tvisvar og ekki þrisvar. Við eigum að biðja án afláts. Við eigum að vera áleitin, líkt og vinurinn í guðspjallstextanum.

En í guðspjalli dagsins er Jesús að tala við lærisveina sína. Hann er að áminna þá um að vera öflugir í bænum sínum. Í fyrri hluta textans, þar sem sagt er frá áleitna manninum sem knýr dyra hjá vini sínum er Jesús að útskýra fyrir lærisveinum sínum að gefast ekki upp strax þótt eitthvað virðist ekki fara eins og þeir vilji. Maður á að halda áfram að biðja, leita eða banka. Annars getur maður alveg eins sleppt því frá upphafi. Við eigum ekki að hætta og gefast upp þótt hlutirnir virðist ekki þróast á réttan veg. Heldur eigum við einmitt að vera staðföst og ákveðin og biðja enn heitar, leita enn betur og banka enn fastar.

Kristur kennir okkur að biðja og á fjölmörgum stöðum í guðspjöllunum er sagt frá því þegar hann biður. Sem Guð er beðið til hans og sem maður þá biður hann sjálfur. Í versunum á undan guðspjallstexta dagsins er einmitt sagt frá því þegar Jesús er að biðja. Þá kemur einn lærisveinninn til hans og biður Jesú um að kenna þeim að biðja. Og það gerir Jesús, hann kennir þeim bænina sem við öll kunnum; Faðir vor. Þar kennir hann lærisveinunum hvernig þeir eiga að biðja og hann kennir þeim þessa bæn. Þessa bæn sem okkur flestum var kennd í barnæsku. Þannig má segja að Jesús hafi í raun einnig kennt okkur þessa bæn, því hún hefur gengið mann fram af manni, kynslóð fram af kynslóð, frá lærisveini til lærisveins allt til okkar. Bænin sem Jesús kenndi okkur. Og á eftir þessum texta í guðspjallinu kemur einmitt textinn sem við erum að fást hér við í dag. Það er því svo augljóst af samhengi textans að þar er Jesús einmitt að árétta það að við eigum að vera iðin við að biðja, biðja án afláts. Vera áleitin í bænum okkar.

IV

Í dag er hinn almenni bænadagur.

Ég trúi því að fólk biðji meira og oftar en margir halda. Mín tilfinning er sú að fólk grípi oft til bænarinnar. Hvort sem það er til þess að biðja um hjálp í erfiðleikum, fyrirbænir eða þakkarbænir. Við eigum að vera dugleg að biðja, biðja án afláts. Bænin er andardráttur trúarinnar. Án bænarinnar deyr trúin út. Í gróðurhúsi trúarlífsins er bænin eins og vatnið sem vökvar plönturnar. Án vatnsins skrælna plönturnar og deyja. Án bænarinnar skrælnar trúin og deyr.

Guð er tilbúinn til þess að sjá fyrir okkur. Hann fyrirgefur okkur syndir okkar og hreinsar oss af öllu ranglæti. Hann frelsar okkur og huggar. Við meigum vera örugg þess að Guð heyrir bænir okkar, og hann veitir okkur eftir sínum vilja, okkur fyrir bestu. Verum áleitin, biðjum án afláts og okkur mun gefast.