Hinn almenni bænadagur

Hinn almenni bænadagur

En það er erfitt að biðja þegar allt leikur í lyndi - þegar maður þarfnast einskis. Það er erfitt að kafa í sjálfan sig og tala frá hjartanu, og það er erfitt að hlusta. Það er erfitt að hlusta á þessað hljóðu, orðlausu en þó merkilega voldugu rödd, sem getur mætt manni þegar minnst varir.

5Og Jesús sagði við þá: „Nú á einhver yðar vin og fer til hans um miðnætti og segir við hann: Vinur, lánaðu mér þrjú brauð 6því að vinur minn er kominn til mín úr ferð og ég hef ekkert að bera á borð fyrir hann. 7Mundi hinn þá svara inni: Ger mér ekki ónæði. Það er búið að loka dyrum og börn mín og ég komin í rúmið. Ég get ekki farið á fætur að fá þér brauð? 8Ég segi yður, þótt hann fari ekki á fætur og fái honum brauð vegna vinfengis þeirra, þá fer hann samt fram úr sakir áleitni hans og fær honum eins mörg og hann þarf. 9Og ég segi yður: Biðjið og yður mun gefast, leitið og þér munuð finna, knýið á og fyrir yður mun upp lokið verða. 10Því að hver sá öðlast sem biður, sá finnur sem leitar og fyrir þeim sem á knýr mun upp lokið verða. 11Er nokkur sá faðir yðar á meðal sem gæfi barni sínu höggorm ef það biður um fisk 12eða sporðdreka ef það biður um egg? 13Fyrst þér, sem eruð vondir, hafið vit á að gefa börnum yðar góðar gjafir, hve miklu fremur mun þá faðirinn himneski gefa þeim heilagan anda sem biðja hann.“

Lk. 11.5-13

Einu sinni var könguló. Hún spann þráð sinn niður þar til hún fann hentugan stað. Þar tók hún að spinna vef sinn. Hún veiddi í hann flugur og varð lengi vel gott til fanga. En þar kom að minna varð um bráð. Köngulóin bætti við þráðum og grandskoðaði vefinn fullviss um að ef hún aðeins gerði vefinn betri, tæki veiðin að glæðast á ný. En allt kom fyrir ekki. Köngulóin yfirfór vefinn aftur og aftur, til að finna hvað væri að.

Svo var það einn dag, að hún tók eftir þræði, sem hún skildi ekki. Hann lá upp miðjum vefnum eitthvað út í loftið. Aldrei hafði nein fluga flækst í þessum þræði. Og hvernig sem Köngulóin skoðaði og braut heilann gat hún ekki séð að hann ætti sér nokkurn tilgang eða gerði nokkurt gagn.

Smám saman sannfærðist hún um að þessi þráður væri ástæðan öllum vandræðunum, - tilgangslaus - og gerði ekkert annað en þvælast fyrir. Þannig að köngulóin klippti á þráðinn. En þá hrundi allur vefurinn. Því þetta var þráðurinn að ofan, upphaflegi þráðurinn, sem allt hékk á.

Í dag er hinn almenni bænadagur.

Þetta, sem við köllum bæn, er að sumu leyti mjög auðvelt umræðuefni. - það er auðvelt vegna þess að öll höfum við af því persónulega reynslu. - En þar í liggur einmitt hin hliðin - bæn er mjög erfitt umræðuefni, einmitt vegna þess hvað hún er presónuleg. Sá sem þekkir bænir manns, þekkir innstu fylgsni hjartans.

Samtal og samband Guðs og manns í öllum sínum myndum, - í gleði og í sorg, í reyði og örvæntingu, í orðaflaumi og í þögn - er eitt það mikilvægasta í lífi okkar allra. - “þráðurinn að ofan.”

Í bænina sækir trúin endurnæringu sína og líf. Húnn er hin andlega líftaug okkar.

Á vorum dögum er oft kvartað yfir blindri efnishyggju samtímans og að fólk finni lífi sínu ekki tilgang, og leiti út í sjálfhverfa lífsnautn. Við höfum líka hlustað á margar góðar predikanir um mikilvægi þess að halda í og verja kristið siðferði, kristinn sið í þessu landi. Allt er þetta rétt og satt. Það er vissulega skynsamlegt að halda í; - t.d. kristnar hugmyndir um rétt og rangt.

En sú spurning sem ég bið ykkur að íhuga, í þessu sambandi kæru áheyrendur er þessi: Hversu lengi haldið þið að kristnar hugmyndir um rétt og rangt lifi án kristinnar trúar? Kristinnar grundavallarafstöðu til lífsins og tilverunnar? - Ef grundvallarafstaðan breytist þá breytist siðferðið - svo einfalt er nú það.

Og ef það er nú rétt að efnishyggjan sæki á, með allri sinni afneitun andlegra verðmæta, hvernig skildi standa á því?

Kannski er svarið einfaldara en margur heldur. Ef við hættum að biðja, ef við hættum knýja á dyr náðarinnar, ef við hættum að umgangast og rækja hinn andlega veruleika, þá tekur hann smám saman að hverfa sjónum okkar, mást úr huga okkar, .

Hrísi vex og háu grasi sá vegur er vætki treður.

Og þegar við höfum glatað tilfinningunni, skinjuninni á andanum. Hvað eigum við þá eftir?

- Þá eigum við eftir efnisheiminn. Stein-dauðann, með öllu því sem verður mælt og vegið, - og engu öðru. Hver verður þá tilgangur lífsins? - Annar en sá að njóta þess, með öllum þeim ráðum og tækjum og tólum og efnum sem bjóðast? - Það er ótrúlegt hvað hin sjálfhverfa lífsnautn getur orðið innantóm til lengdar.

Og við og við er eins og lífsnautnamaðurinn heyri óm af gömlum kvæðum: “Hvar hafa dagar lífs þíns lit sínum glatað” eða .. “Einhvers skírra, einhvers blárra æskti hugur minn...”

Þetta er það sem gerist smám saman, bræður og systur, ef við vanrækjum bænina.

En hvers vegna, ef bænin er svona mikilvæg, vanrækjum við hana svo oft?

Ég held að svarið sé einfalt: - Það er erfitt að biðja. Það er kannski auðvelt í sjávarháska og öðrumn áföllum lífsins, þegar maður finnur að eign máttur má sín lítils gagnvart höfuðskepnunum.

En það er erfitt að biðja þegar allt leikur í lyndi - þegar maður þarfnast einskis. Það er erfitt að kafa í sjálfan sig og tala frá hjartanu, og það er erfitt að hlusta. Það er erfitt að hlusta á þessað hljóðu, orðlausu en þó merkilega voldugu rödd, sem getur mætt manni þegar minnst varir.

Ég hef alltaf verið undrandi - og jafnvel tekið þeim mönnum með svolítilli tortryggni, sem gefa þá lýsingu á bænalífi sínu, að Guð segi þeim alltaf það sem þá langar til að heyra.

Bænin er jafn flókið fyrirbæri og þeir sem taka þátt í henni. Það er að alveg rétt að Guð veitir í bæninni huggun og styrk hinum hrjáðu og veiku og lítils megandi. En hvað með þá sem eru ekki hrjáðir veikir og lítils megandi? Hvað með okkur sem aldrei höfum liðið skort? Hvað með þá stekru voldugu og hraustu? Þurfum við eitthvað við Guð að tala?

Kannski er það nú þannig að við okkur hefur Guð svolítið annað að segja.

Sá maður sem gengur inn til bænar, til að biðja um eitthvað, getur komið út segjandi “Verði þinn vilji”

Ofstækismaðurinn sem egngur inn í herbergi sitt til að biðja Guð um sigur í átökum við óguðlega gæti sem best komið út segjandi með orðum Tómasar Guðmundssonar: Hér settust þeir töfrar í sál minni að sem síðan ég mátti’ ekki verjast og því lét mig ósnortinn æðimargt það sem öðrum varð hvöt til að berjast.

Og hinn sjálfhverfi lífsnautnamaður gæti fengið í heimsókn til sín gest, eins og lýst er í öðru ljóði Tómasar. Það heitir Heimsókn:

Frá gullnu víni, ljúfum perluleik, við ljóð og draum, frá rós, sem angar bleik, þú hrekkur upp með andfælum og hlustar. Því sjá, það hefur hent, sem kveiðst þú mest: Hér hýsir þú í stofu þinni gest, sem óvænt kom og köldum hrolli gustar.

Og þér finnst gestsins ásýnd stinga í stúf við stofu þína. Hans rödd er köld og hrjúf og vekur hjá þér gremju ógn og ótta. Og langt að baki rís þín rödd og spyr: Hví rekurðu ekki þennan gest á dyr? Er ekki tími til að leggja á flótta?

Of seint, of seint. Þig elta augu hans. Þú ert á valdi hins dapra komumanns. Þú lokar þig ei framar einan inni. Því gluggar þínir opnast upp á gátt. Við augum þínum blasir, kallt og grátt, þitt land, þín veröld, séð í fyrsta sinni.

--- Því hér er líf, sem þú berð ábyrgð á. Um örlög þín skal liggja vegur sá, sem lífið fer, á leið til fjærstu alda. Því vit, að eigi aðeins samtíð þín, hver ófædd kynslóð meðan stjarna skín þarf strax í dag á þinni hjálp að halda. ---- Því meðan til er böl sem bætt þú gast, og barist var á meðan hjá þú sast er ólán heimsins einnig þér að kenna... --- Og ger þér ljóst, er gengur þú á hönd, þeim gesti, er sótti þig í ókunn lönd, að viðsjál mun þér veröld þessi finnast. En hafi mildi og mannslund varist þar, þá minnstu þess, að einnig barist var um hjarta þitt, og þar skal stríðið vinnast. ---- Og sjá, að gullnu víni, ljúfum leik við ljóð og draum, að rós, sem angar bleik er annar maður ókunnugur sestur....

Þetta er kannski það stórkostlega - en um leið skelfilega við bænina. - Maður veit aldrei fyrirfram hverju Guð svarar. Hann gefur þér örugglega ekki stein ef þú biður um fisk. En hann gæti gefið þér fisk ef þú biður um stein. Hann gæti gefið þér rósemd ef þú biður um hefnd. Hann gæti gefið þér ábyrgð ef þú biður um þægindi, hann gæti gefið þér tilgang ef þú biður um ljúfan leik við ljóð og draum. Þú gætir orðið annar maður. Allt þetta getur gerst - og gerist ef bænin er framkvæmd í fullri einlægni hjartans. En einlægni gengur einmitt eins og rauður þráður í gegn um kenningu Jesú Krists um bænina. Jesú segir í Fjallræðunni:

“Varist að iðka réttlæri yðar fyrir mönnum, þeim til sýnis, annars eigið þér engin laun hjá föður yðar á himnum. Þegar þú gefur ölmusu, skaltu ekki láta þeyta lúður fyrir þér, eins og hræsnarar gera í samkunduhúsum og á strætum til þess að hljóta lof af mönnum. Sannlega segi ég yður, þeir hafa tekið út laun sín. --- Og þegar þér biðjist fyrir, þá verið ekki eins og hræsnararnir. Þeir vilja helst standa og biðjast fyrir í samkundum og á gatnamótum, til þess að menn sjái þá. Sannlega segi ég yður, þeir hafa tekið út laun sín. En nær þú biðst fyrir, skaltu ganga inn í herbergi þitt, loka dyrunum og biðja föður þinn, sem er í leynum. Faðir þinn, sem sér í leynum, mun umbuna þér. Þegar þér biðjist fyrir, skuluð þér ekki fara með fánýta mælgi að hætti heiðingja. Þeir hyggja að þeir verði bænheyrðir fyrir mælgi sína. Líkist þeim ekki. Faðir yðar veit, hvers þér þurfið, áður en þér biðjið. ...”

Við þessi orð Drottins er nú kannski ekki miklu að bæta.

Það er fátækt líf sem er án bænar, því bænin er hin andlega líftaug. Hún er rót okkar á himnum og gegn um hana fáum við andlega næringu.

Dýrð sé Guði, Föður og Syni og Heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Takið hinni postullegu kveðju: Náðin, Drottinns vors Jesú Krists, Kærleiki Guðs, og samfélag Heilags anda sé með yður öllum. Amen.