Útförin - þjóðkirkjan í hnotskurn

Útförin - þjóðkirkjan í hnotskurn

Hér á Íslandi kemur það í hlut eina mannsins í kirkjunni sem ekki þekkti hinn látna að taka saman helstu æviþætti hans. Sú hefð veitir okkur urmul tækifæra að tengja trúfræði okkar inn á vettvang daglegs lífs.

Útfarir eru hluti af því sem við köllum „aukaverk“ og bendir til þess að önnur viðfangsefni og brýnni liggi fyrir prestum og samstarfsfólki þeirra. Þessi „aðalverk“ eru þá messur á sunnudögum og mögulega hópastarf í safnaðarheimili, auk sálgæslu og þess háttar.

 

Aukaverk/aðalverk

 

Í þessu örerindi held ég fram þeirri skoðun að útfarir séu réttnefnd aðalverk fyrir þjóðkirkju og eins og fram kemur í yfirskriftinni: þarna ættum við að sjá þjóðkirkjuna í hnotskurn, með kostum hennar og burðum. Já, þarna ættum við að sjá hana segi ég. Mér er ekki kunnugt um vettvangsrannsókn sem fjallar um afstöðu kirkjunnar fólks til útfara almennt en tímabært er að slík rannsókn líti dagsins ljós.

 

Skilgreinum fyrst þjóðkirkjuna og sleppum öllum lagabókstöfum, sem eru hvort eð er senn úreltir. Rætur þeirrar hugmyndar eða hugsjónar sem við getum kennt við þjóðkirkju getum við rakið til krepputíma í guðfræðilegum skilningi. Það var um aldamótin 1800 sem guðfræðingurinn Friedrich Schleiermacher setti fyrst fram kenningar sínar og hann þróaði þær áfram næstu áratugi. Áður hafði gagnrýni upplýsingarmanna kallað á rótæka endurskoðun. Síðari rit hans komu svo í kjölfar þess umróts sem varð í kjölfar Napóleonsstríðanna. Kirkjur voru víðast illa leiknar, eignamál voru í uppnámi og aðkallandi var að endurskoða kirkjulega starfsemi.

 

Kirkjufaðir 19. aldar

 

Schleiermacher var mótaður af hugmyndastefnu 19. aldarinnar, rómatíkinni. Vitaskuld er þjóð-kirkjan – kirkjan þjóðarinnar í anda þeirra tíma, rétt eins og þjóðríkið og þjóðarandinn. Hugmyndir þessa guðfræðings voru þó miklu víðtækari og báru þess merki að hann tengdi kristindóminn við önnur trúarbrögð. Honum var það hugleikið hversu mikilvægt það er hverri manneskju að fá að rækja kenndir sínar og tilfinningar.

 

Hann sá það til dæmis ekki sem hlutverk kirkjunnar að boða trú, það væri ekki náttúrulegt fólki að láta þröngva sér inn í tiltekið trúarkerfi. Trúarkenndin ætti ætti í raun rætur í hverjum einstaklingi. Við sjáum hvernig hann fléttar svið tilfinninga og reynslu við guðfræðina. Að endingu snýst starf safnaða um fólkið sem þangað venur komur sínar.

 

Kirkjur ættu því öðru fremur að mæta ákveðnum mannlegum þörfum. Þessar þarfir voru í meginefnum af tvennu toga. Annars vegar löngun mannsins til að tilheyra, bæði mannlegu samfélagi og svo að tengjast æðri mætti. Og svo hins vegar um viljann til að njóta frelsis, þar sem fólk tekur þátt á eigin forsendum án þess að það sé bundið í klafa formfestu og strangra kennisetninga.

 

Að mæta þörf

 

Guðsþjónustan ætti að þjóna þessum markmiðum. Hún ætti að umfaðma trúarleit mannsins, og mæta félagslegri og tilvistarlegri þörf hans. Til þess ætti að nýta listir og skapa tóm til íhugunar. Hann túlkaði hugmyndir Lúthers um prestsdóm trúaðra í þessu sambandi og talaði um að helgihaldið væri ákveðinn rammi utan um slíkt jafningjasamfélag, þar sem presturinn þjónaði vel skýrgreindu hlutverki.

 

Schleiermacher er áhrifamikill guðfræðingur. Hann hefur verið kallaður kirkjufaðir 19. aldarinnar og þegar þjóðkirkjur urðu til um miðbik og á seinni hluta þeirrar aldar fengu hugmyndir hans hljómgrunn. Á Íslandi er hægt að miða við árið 1874 í í því sambandi kjölfar trúfrelsisákvæða stjórnarskrárinnar.

 

Útfarir

 

Fróðlegt að meta útfarir í ljósi þessara hugmynda. Þegar við greinum á milli aðalverka og aukaverka verða þau fyrrnefndu oftar en ekki á forsendu okkar sem veitum þjónustuna. Við erum sérfræðingarnir og leiðum starfið í krafti þess. Aukaverkin svo nefndu, eru aftur á móti grundvölluð á samtali okkar við þau sem leita þjónustu okkar. Já, slíkt samtal er í raun einstakt tækifæri til að miðla hugsjón þjóðkirkjunnar áfram og kynnast því hvernig arfur okkar, menning og humyndafræði mætir síbreytilegum samtíma.

 

Hér á Íslandi kemur það í hlut eina mannsins í kirkjunni sem ekki þekkti hinn látna að taka saman helstu æviþætti hans. Sú hefð veitir okkur urmul tækifæra að tengja trúfræði okkar inn á vettvang daglegs lífs. Hversu ómetanlegt er það að þekkja til fyrrnefndra kenninga Lúthers um prestsdóm trúaðra þegar við setjum störf kennarans, sjómannsins, skrifstofumannsins eða kokksins í æðra samhengi? Já, vítan er í mínum huga öðru fremur útlegginging þeirrar hugmyndar.

 

Og hversu þakklátir verða áheyrendur minningarorða þegar ekki er dregin um dýrlingsmynd af hinum látna heldur raunsönn lýsing á breyskri manneskju sem átti sína kosti en einnig veikar hliðar? Þar býr guðfræðingurinn til dæmis að því sem Lúther kallaði simul iustus et peccator – manneskjan er í senn réttlát og syndug en umvafin náð Guðs.

 

Hið sama á við um tónlistina. Sálmar hafa það fram yfir flest dægurlög að í þeim velta höfundar sér ekki bara upp úr harmi og sorg. Í anda harmljóða Davíðssálma þá er endir þeirra jafnan fullur af von og uppbyggingu. Við sem sitjum í nefnd um tónlist við útfarir höfum rætt þá hugmynd að útbúin verði tónlistarmyndbönd með útfararsálmum sem prestur getur sýnt aðstandendum.

 

Þjóðkirkjan í hnotskurn

 

Útfarir eiga að vera þjóðkirkjan í hnotskurn. Þær eru dýrmætt stefnumót kirkjulegrar hefðar við samtímann og gera þær kröfur til okkar að miðla þeirri hefð með þeim hætti sem fólk skilur og vill meðtaka. Þarna gefst okkur færi á að laga guðfræði okkar að líðandi stund og slíkt er að sönnu krefjandi. Í anda Schleirmachers felst það ekki í einhliða boðun heldur í því að setja kenningar í samhengi sem fólk getur skilið og fundið sjálft það erindi sem kristin trú á við það.