Það er sennilega að bera í bakkafullan lækinn að ræða þau ósköp sem ganga nú yfir heimsbyggðina. Tónninn í guðspjallinu sem hér var lesið kallar þó á að rýnt sé í hugarfar þeirra sem telja sig trúið og beita trúnni fyrir vagn sinn í annarlegum tilgangi.
Útvaldir leiðtogar
Í austri og vestri sitja á valdastólum leiðtogar sem nota Guðsorðið óspart til að réttlæta völd sín og óhæfuverk. Pútín í Rússlandi kynnir sig sem varðmann kristninnar á sama tíma og hann stundar grimman hernað gegn Úkraínu og fremur stórfelld mannréttindabrot heima fyrir. Vestanhafs kveður við sama tón. Það er þó kyndugt að þeir íhaldssömu söfnuðir sem forsetinn hefur stutt, varast að setja hann fyrirvaralaust í sinn flokk. Til þess er leiðtoginn að þeirra mati þrátt fyrir allt of siðlaus og óheftur. En þeir fagna því margir hvernig hann skreytir sig með kristnum gildum og vísar í sjálfan sig sem útvalinn leiðtoga Guðs.
Þessi trúarlega dygðaskreyting, stangast á við þann tón einkennt hefur sögu kristninnar öldum saman. „Gjaldið keisaranum það sem keisarans er og Guði það sem Guðs er“ sagði Jesús þegar menn reyndu að fá hann til að beina hjálpræðisköllun sinni í pólitíkan farveg. Síðan hefur verið vísað til þeirra orða. Trúmálin hafa átt sinn sess ásamt stjórnmálunum með vísan til þess að þar mætast ólíkir þættir mannsálarinnar. Þar getum við sagt að hafi ríkt gagnleg verkaskipting.
Trúin hefur gegnt því hlutverki að vera mótvægi við harðan heim laga og réttar. Tilgangur helgihalds kirkjunnar var að „hugga hrelldar samviskur“ eins og það var orðað í kirkjuskipan Kristjáns þriðja frá 1537. Leiðtogar kristninnar eiga að ganga fram af sömu auðmýkt og frelsarinn gerði. Frá fornu fari voru kirkjur griðarstaðir. Þar leituðu þau skjóls sem áttu undir högg að sækja, voru á flótta eða þurftu skjól af einhverjum ástæðum.
Kirkjur eru staður fyrir hið heilaga þar sem fólk gengur inn í heim tímalausrar fegurðar og skynjar sig mitt í mótlæti sínu og raunum, sem börn Guðs. Já inn í rými sem þessi geta þau sótt sem vilja hlusta og njóta. Síðar í dag fáum við hér í Neskirkju skínandi dæmi um slíkt framlag. Kór Neskirkju flytur ásamt hljómsveit H-moll messu J. S. Bach. Tónsmiðurinn varð síðar kallaður fimmti guðspjallamaðurinn og um hann var sagt að hann gerði hið jarðneska himneskt og hið himneska jarðneskt.
Mögulega er kjarnar sú lýsing, erindi trúarinnar í því samfélagi sem við búum í og þekkjum, nefnilega að flétta saman hið háleita og hið jarðbundna. Það að geta hafið sig yfir hið takmarkaða og tímanlega er ein af grunnþörfum manneskjunnar. Þetta hefur svo lagt grunninn undir listir, menningarstarf og siðferði í þeim löndum sem teljast kristin.
Þess vegna svíður mörgum kristnum einstaklingum þegar ofbeldisfólk réttlætir gjörðir sínar með vísan til slíkra fjársjóða. Þeir standa jú nánast óvarðir fyrir gripdeildum af slíku tagi og getur hver sem er gramsað í þeim dýrgripum. Jú, ein er sú vörnin sem kristnir menn eiga og hafa beitt óspart í gegnum tíðina. Það er sú gagnrýni sem beinist inn á við. Í samhengi kirkjusögunnar kallst hún siðbót og hún á sér ótal birtingarmyndir í gegnum aldirnar og er sannarlega ekki vanþörf á að hrinda í framkvæmd nú á þessum ólgutímum
Í guðspjallinu hlýddum við á samtal sem er þó aðeins hluti af lengri samskiptum. Þarna ræðir Jesús við hóp gyðinga sem hvorki teljast til farísea né fræðimanna. Litlu fyrr í guðspjallinu er einmitt talað um þá gyðinga sem höfðu tekið trú á Jesú. Já voru þetta trúsystkini hans? Og í því ljósi vekur það óneitanlega athygli hversu harður tónninn er í orðum hans og óvæginn hann er í garð þeirra. Eru þeir sem ættu að hafa séð ljósið, þrátt fyrir allt, „þrælar syndarinnar“?
Samtalið tekur á ýmsum þáttum í samfélagi fólks. Í lokin býr hópurinn sig undir að grýta Jesú. Þar birtist okkur ofbeldi múgsins í sinni skýrustu mynd. Fórnarlömb slíkra ódæðisverka þola grjótkast úr öllum áttum en gerendurnir geta hlíft samvisku sinni með því að enginn einn ber ábyrgð á banahögginu. Við könnumst mögulega við þá afstöðu í ýmsu samhengi, til að mynda óvæginnar umræðu þegar sótt er að einstaklingi úr öllum áttum.
Grjótkast
Jesús átti í öðru samhengi eftir á ávarpa menn sem hugðust grýta konu, bersynduga. Og þá einmitt bjargaði hann lífi konunnar með því að hvetja hvern og einn þeirra til að kasta fyrsta steininum. Já, þann sem taldi sig vera syndlausan skyldi hefji aftökuna. Hvers vegna höfðu þau orð slíkan áhrifamátt? Jú, skyndilega þurfti hver og einn að líta í eigin barm, spyrja sig áleitinna spurninga. Sá var ekki aðeins hluti af múgnum sem ætlaði að taka völdin yfir hverjum og einum, heldur einstaklingar sem bar persónulega ábyrgð. Og þeir gengu í burtu einn af öðrum.
Samtal þetta fjallar líka um skaðlega hegðun múgsins. Í textanum má með sama hætti greina hvað býr að baki þegar fólk leitar ekki eftir því að skilja viðmælandann, vill ekki öðlast þekkingu og vit heldur sækist fyrst og fremst eftir því að koma höggi á náungann. Hugsið ykkur þessa lýsingu, þeir beita aðferð sem enn í dag er óspart notuð til þess að leiða umræðuna á villigötur.
Þetta eru svokallaðar lokaðar og leiðandi spurningar, sem í rauninni er bara hægt að svara játandi eða neitandi. Það getur verið óþægilegt að fá svoleiðis lagað yfir sig enda er svarið stundum hvorki já eða nei. „Er það ekki rétt sem við segjum að þú sért Samverji og hafir illan anda?“ Hversu margar hliðstæður getum við fundið við þessa aðferð sem þeir beita til að koma höggi á hann?
Þarna er reynt að draga fólk í dilka: Ertu ekki Samverji? ertu í þessu liði en ekki hinu? ertu með eða á móti? Fátt er jafn skaðlegt opnu samtali, vegur meira að tjáningarfrelsi og lýðræði á okkar dögum en sú óöld sem ríkir á vettvangi umræðunnar. Fólk veigrar sér við að tjá skoðanir sínar ef von er á að það verði sett í einhvern hóp, markað einhverri fylkingunni og svo er haldið áfram að þjarka án þess að nokkur sé nokkurs vísari. Þegar vígmóðir hóparnir snúa sér að öðru verkefni er menn oftar en ekki jafn langt frá sannleikanum og þeir voru þegar leikar hófust.
Kærleikurinn getur verið hvass
Guðspjall dagsins gefur okkur eins og leiftursýn inn í þá heima og þær aðstæður sem við ættum að verjast. Kristin trú kallar hvert okkar til ábyrgðar gagnvart Guði okkar og náunganum. Þaðan hefur sú gagnrýni beinst að eigin valdhöfum og þeim sem skreyta sig með krossum og villa um fyrir fólki með kristilegum frösum sem hafa þó enga merkingu þegar nánar er gáð.
Kristur sjálfur gefur okkur fordæmi í þeim efnum. Kærleikurinn sem hann boðaði getur í því sambandi verið hvass og óvæginn enda miðar hann að því að efla það sem gott er og vinna gegn öllu hinu.