Að dæma til lífs

Að dæma til lífs

Dæmum okkur Guðs dómi sem er réttlátur dómur, dómur velvildar og kærleika. Okkur mistekst iðulega að velja veg lífsins en einnig þau mistök rúmar Guð í umhyggju sinni. Því gerum við okkar besta, einn dag í einu, eitt andartak í einu, að sýna samúð og umhyggju, eins og verðandi móðir ófæddu barni sínu sem hún gerir allt til að vernda og efla til lífs.

Prédikun flutt í útvarpsguðsþjónustu frá Grensáskirkju 27. júní 2021. 


Biðjum með orðum Lilju Sólveigar Kristjánsdóttur:


    Er morgunbjarmann bjarta

    þú breiðir yfir jörð,

    við lyftum hug og hjarta 

    í helgri bænagjörð. 

                                                                                                            

    Lát okkur, Drottinn, dvelja

    í dag við fætur þér

    og hafa vit að velja 

    þann veg, sem réttur er.

 

    Kenn okkur, Guð, að gera

    með gleði vilja þinn,

    hér öðrum birtu´ að bera

    og benda´ á himininn.                                                             

    Amen.


Ég heilsa ykkur með kveðju bréfsins sem kennt er við Júdas, bróður Jakobs: Miskunn, friður og kærleiki margfaldist með ykkur. Amen.

 

Í dag er fjórði sunnudagur eftir þrenningarhátíð. Í dag sem aðra sunnudaga hafa okkur verið gefnir þrír lestrar úr Biblíunni, einn úr Gamla testamentinu, úr spádómsbók Sakaría að þessu sinni, og tveir úr því nýja, úr fjallræðu Jesú og bréfi Páls postula til Rómverja. 

 

Skilaboð ritningarlestranna eru mjög skýr: Við eigum að forðast að kveða upp dóma yfir fólki, forðast fordóma en leitast þess í stað við að sýna velvild og umhyggju í öllum aðstæðum. Hvert andartak ættum við að velja vilja Guðs sem er kærleikur og líf, fylgja handleiðslu Guðs og leiðsögn, velja veg lífsins.

 

Þetta vitum við og höfum heyrt áður. En hvernig gengur okkur að fara eftir þessum góðu ráðum í daglegu lífi? Við skulum skoða skilaboð dagsins aðeins nánar með þá spurningu í huga því stundum er eins og það sem við heyrum oft fari inn um annað og út um hitt án þess að skilja mikið eftir. 

 

Guð sem hefur allt í hendi sér

Að þessu sinni skoðum við sérstaklega fyrri ritningarlesturinn. Hann er úr sjöunda kafla spádómsbókar Sakaría sem er næst síðasta bók Gamla testamentisins. Ef þið eruð með Biblíuna við hendina hvet ég ykkur til að fletta upp á þessum kafla, Sak 7.8-10.


    Orð Drottins kom þá til Sakaría: Svo segir Drottinn allsherjar:               

    Fellið réttláta dóma    
    og sýnið hver öðrum miskunnsemi og samúð.
    Níðist hvorki á ekkjum, munaðarleysingjum,
    aðkomumönnum né fátæklingum
    og hyggið ekki á ill ráð
    hver gegn öðrum í hjarta yðar.


Með hefðbundnum spámannahætti er ítrekað að skilaboðin koma beint frá Guði sem hér nefnist Drottinn allsherjar, Jahve Sebaoth, Guð hersveitanna, sem mætti líka þýða: Guð sem hefur allt í hendi sér. 

 

Við höfum okkar eigin íslensku útgáfu af þessari mynd Guðs í sálminum sem við syngjum hér á eftir: 

 

    Þú, Guð, sem stýrir stjarna her

    og stjórnar veröldinni,

    í straumi lífsins stýr þú mér

    með sterkri hendi þinni.                                                                                                                

 

Þessi mynd af Guði er traustvekjandi en á sama tíma ef til vill dálítið ógnvekjandi: Að Guð hafi allt í sinni hendi, allt frá því stærsta til hins smæsta, að vita sig í hendi Guðs vekur líklega hjá okkur öryggiskennd. En okkur gæti líka fundist að þessi skilningur á Guði ræni okkur sjálfsákvörðunarrétti og ábyrgð á eigin lífi. Ég á mjög skýra minningu úr bernsku minni af þeirri tilfinningu að ég væri eins og strengjabrúða í hendi Guðs. Ef ég segði nú eitthvað sem ég mátti ekki segja, eitthvað skammarlegt, væri það þá ekki líka Guði að kenna? 

 

Við erum ekki strengjabrúður

Núna veit ég betur. Við erum ekki strengjabrúður Guðs. Við erum ekki forrituð til að haga okkur á ákveðinn hátt. Við berum sannarlega ábyrgð á eigin lífi, því sem við segjum og gerum. Guð er ekki herstjóri sem með ægivaldi rekur flokk sinn áfram. Orðalagið Guð hersveitanna, Drottinn allsherjar merkir hins vegar að allt sem er, allt frá ómælisvídd alheimsins til minnstu frumu, er liður í verki Guðs: Allt á sér stað og stund og allt hefur áhrif hvað á annað. Haft er eftir rabbía nokkrum, að alltumlykjandi vera Guðs gæti þýtt að hver einasta frumeind, hver sameind í alheiminum, hinn óteljandi fjöldi þeirra vinni saman að einu markmiði eins og samhent eining.

 

Okkur hættir til að læsa Guð inni í okkar eigin skilgreiningum, lesa Guð eins og exel-skjal sem við sjálf höfum búið til. Nöfn Guðs í Gamla testamentinu benda í aðra átt: Veruleiki Guðs er handan allra skilgreininga, Guð er sem hafið sem við rétt fáum dýft tánum í á þeirri strönd lífsins sem við erum stödd á í það og það skiptið. Guð hersveitanna, Drottinn allsherjar, kann að hafa á sér hernaðarlegan blæ, Guð sem stýrir virkar ef til vill á okkur eins og en hvort tveggja er fjarri lagi. 

 

Sú biblíulega sýn að Guð hafi allt í sinni hendi, að allar eindir bæði okkar litla lífs sem og ómælisgeymsins sem engin vísindi fá þekkt eða útskýrt að fullu, er sýn sem segir okkur að allt virki saman, allt hafi áhrif hvað á annað. Hún segir að ákvarðanir okkar, hversu lítilvægar sem þær kunna að virðast, skipti máli í stóra samhenginu. 

 

Þess vegna biðjum við Guð að stýra okkur í straumi lífsins, ekki sem forrituðum strengjabrúðum heldur sem því sérstaka samsafni einda sem við erum hvert og eitt; við biðjum Guð að stýra hjarta okkar, tungu okkar, hönd okkar og fæti, og hag okkar í heild sinni. Stýring Guðs, stjórn Guðs felst í því að við veljum að gera vilja Guðs, stilllum okkur inn á þá bylgjulengd sem eflir lífið. Hún merkir að við séum eitt með kærleiksvitund Guðs sem kom til okkar í Jesú Kristi og er með okkur í heilögum anda sínum hvert andartak í þessum straumi lífsins sem við erum hluti af. 

 

Við þurfum að gefa eftir þá sjálfsstýringu sem ekki alltaf er til heilla, þegar líf okkar stýrist af fyrirbærinu „ég um mig frá mér til mín“. Til þess höfum við heilaga ritningu, Biblíuna, til að vísa okkur veg til þess innri veruleika sem við erum öll hluti af en mis meðvituð um. 

 

Krísa
Hér erum við að skoða 7. kafla spádómsbókar Sakaría. Spámenn Gamla testamentisins höfðu eitt aðal grunnstef: Að hvetja til réttlætis og miskunnsemi í samfélaginu. „Miskunnsemi vil ég, ekki fórnir“ eru til dæmis orð sem Jesús tekur upp (Matt 9.13, 12.7) eftir Hósea spámanni (6.6).

 

Merking þess gæti verið eitthvað á þessa leið: Það er ekki nóg að sýnast vera góð manneskja útávið, til dæmis með viðurkenndri trúariðkun, ef hugarfarið, hjartalagið er ekki í réttum fasa. Hjá Sakaría er þetta orðað svona: Fellið réttláta dómaDæmið rétta dóma, stóð í fyrri þýðingu. Við komumst víst ekki hjá því að fella dóma í ýmsu samhengi, taka afstöðu, álykta, meta, segja til um eða hvernig við nú viljum orða þetta. Spurningin er bara: Hvert leiða þessir dómar okkar? Leiðir afstaða okkar til lífs eða til dauða?

 

Í öllum þremur ritningartextunum dagsins er sama orð notað á grískunni, frummáli Nýja testamentisins og í grískri þýðingu Gamla testamentisins, sem nefnd er Sjötíumannaþýðingin, LXX. Þetta orð er κρῐ́σῐς (krísis). Það er komið  inn í nútíma íslensku sem krísa í merkingunni „ótryggt ástand, erfiðleikar, sálrænt vandamál, áfall“ svo vitnað sé í íslenska nútímaorðabók. Hugtakið kom fyrst inn í íslenska orðabók árið 1982 og er orðið fullgilt íslenskt orð, að mati Eiríks Rögnvaldssonar fyrrum prófessors í íslensku við Háskóla Íslands.

 

Upprunamerking gríska orðisins krisis, sem fann sér leið inn í germönsk mál í gegn um latínu, er þó aðeins önnur. Frummerkingin kann að vera sú staða í ferli sjúkdóms þegar brugðið getur til beggja vona, krísan er þá hápunktur sóttarinnar sem gæti leitt til hvors sem er, lífs eða dauða; krísa er því eiginlega það sem skilur að, skilur á milli. 

 

„Að fella eða dæma dóma, krísa krísuna“ á réttlátan hátt er þá að álykta lífinu í vil, taka afstöðu með lífinu og eiga þannig hlut í því að það málefni sem við stöndum frammi fyrir hverju sinni leiði til lífs en ekki dauða. 

 

Velvild til vaxandi lífs

Þetta skýrist enn betur í hvatningu Guðs í framhaldinu hjá Sakaría: Sýnið hveröðru miskunnsemi og samúð(1981 kærleika og miskunnsemi). Orðið miskunnsemi (á hebresku hesed, grísku eleos), er mikið notað í Biblíunni og mætti líka þýða sem velvilji, gæska eða umhyggjusemi

 

Orðið sem hér er þýtt samúð er ákaflega merkilegt hugtak á hebresku (racham). Bókstaflega þýðir það iður, kviður, nánar tiltekið móðurlíf eða leg, bústaður vaxandi fósturs á meðgöngunni. Í yfirfærðri merkingu segir þetta orð okkur að umgangast annað fólk sem væru þau okkar eigin afkvæmi sem þarfnast umhyggju okkar og ástúðar

 

Nokkrir viðkvæmir þjóðfélagshópar eru sérstaklega nefndir í þessu samhengi: Ekkjur, munaðarleysingjar – við gætum sagt einstæðir foreldrar og börn þeirra - aðkomumenn og fátæklingar. Margt hefur vissulega breyst frá því að þessi texti var færður í letur (á 6. öld fyrir Krist) en samt er það enn svo að þessir hópar eiga í vök að verjast í samfélagi okkar. 

 

Til dæmis eru aðkomumenn eða útlendingar eins og það var áður þýtt, (ger á hebresku), aðkomufólk, þau sem flytja til nýs lands til að verða hluti af því þjóðfélagi, ekki alltaf velkomið. Í því þjóðfélagi sem mótaðist á tímum Gamla testamentisins var þetta mjög skýrt: Þau sem áttu rætur sínar í hirðingjasamfélaginu, sem umreikandi Aramear (5Mós 26.5), þekktu vandkvæðin við að koma sér fyrir í nýju landi. Þau töldu sér skylt að taka vel á móti aðkomufólki sem baðst hælis í friðsamlegum tilgangi í þeirri von að fá að vera fullgildir þátttakendur í uppbyggingu samfélagsins. 

 

Fátækt

Annar viðkvæmur hópur er kallaður fátæklingar. Það hefur þótt hálfgert skammaryrði í okkar samhengi og er auðvitað til skammar að til skuli vera fátækt fólk á Íslandi í dag. Skömmin er ekki þeirra heldur okkar sem höfum það bærilegt og stundum rúmlega það. 

 

Í mars í fyrra fjallaði Lára Ómarsdóttir og fleiri á áhrifamikinn hátt um fátækt á Íslandi í fréttaskýringarþættinum Kveik. 

 

Þótt við viljum ekki hugsa til þess, geta allir orðið fyrir áfalli, tekjumissi, sem vindur upp á sig og endar í fátæktargildru. Verst standa einstæðir foreldrar, öryrkjar og innflytjendur og börn sem alast upp í fátækt fá ekki sömu tækifæri og önnur börn og eru líklegri til að glíma við fátækt allt sitt líf

 

segir í umfjöllun þeirra. Og áfram segir: 

 

Verst standa þeir sem eru utangarðs með öllu og heimilislausir og þeir fá líklegast minnstu samúðina. Þetta er oft fólk sem á við fjölþættan vanda að etja, geðræn vandamál sem og fíknivanda og á í fá hús að venda. Það ólst jafnvel upp við fátækt, er af annarri eða þriðju kynslóð fátækra. Þetta fólk er líka eins og óhreinu börnin hennar Evu, þegar koma á upp húsnæði eða aðstöðu fyrir það rísa nágrannar oft upp og mótmæla.

 

Miðað við umfjöllun fjölmiðla núna, rúmu ári síðar, og fjölda þeirra sem fá aðstoð frá bæði opinberum aðilum og frjálsum félagasamtökum hefur þetta lítið breyst, nema ef til vill til hins verra. Fólk sem á við geðrænan vanda að stríða er til dæmis að mörgu leyti verr sett en árið 1990, kom nýlega fram í blaðaumfjöllun um ábendingar Geðhjálpar varðandi úrbætur í geðheilbrigðiskerfinu. 

 

Úrbætur fyrir ákveðna hópa líta þó dagsins ljós af og til, ekki síst fyrir framtak félagasamtaka eins og til dæmis þjóðkirkjunnar. Þannig opnaði Hjálparstarf kirkjunnar nýlega dagsetur fyrir konur hér á neðri hæð Grensáskirkju að frumkvæði biskupsins okkar, frú Agnesar Sigurðardóttur, sem svaraði brýnni þörf heimilislausra kvenna fyrir aðsetur yfir daginn. 

 

Auðvitað hljótum við öll að vera sammála um að allar manneskjur eru jafnar, jafnmikils virði. Öll eigum við skilið að lifa því sem kallað er mannsæmandi lífi, óháð uppruna, kynhneigð, heilsu eða hvað það nú kann að vera sem veldur því að fólk mætir fordómum og skorti. 

Það getur bara verið svo erfitt að lifa þessa grundvallarafstöðu, að dæma rétt, fella réttláta dóma, taka ákvarðanir sem eru lífinu í vil, efla lífið, en leiða ekki til dauða í ýmsum skilningi. 

 

Það er samt engin afsökun. Við getum öll breyst með hjálp lifanda Guðs, Guðs sem vill lífið. Við höfum séð of mörg tilvik þess að dómstóll götunnar hefur dæmt fólk til lífsminnkunar og jafnvel dauða því orð geta valdið því að lífið þverr. Of mörg ungmenni hafa orðið fyrir skaða vegna orða sem einhver lét falla og nú enn frekar þegar samfélagsmiðlar eru notaðir til að hæða og smætta sem aldrei fyrr. 

 

Veljum lífið

Það sem við, þú og ég, segjum í dag, getur jafnvel kostað einhvern lífið með beinum eða óbeinum hætti. Vöndum okkur, kæru vinir, lítum fyrst í eigin barm og köllum eftir innri umbreytingu eigin lífs, gefumst Guði lífsins heilshugar og göngum þann veg sem heitir Líf. 

 

Í fimmtu Mósebók segir (5Mós 30.11-14, 19): 

Þetta boð, sem ég legg fyrir þig í dag, er ekki óskiljanlegt eða fjarlægt þér....
Nei, orðið er mjög nærri þér, í munni þínum og hjarta svo að þú getur breytt eftir því.
Ég kveð bæði himin og jörð til vitnis gegn ykkur í dag: Ég hef lagt fyrir þig líf og dauða, blessun og bölvun. Veldu þá lífið svo að þú og niðjar þínir megi lifa, með því að elska Drottinn Guð þinn...

 

Þannig segir í þessum forna texta. Erindi Guðs við okkur er sannarlega ekkert fjarlægt eða óskiljanlegt. Skilaboðin eru skýr, skilaboð lífs í kærleika, að dæma ekki rangláta dóma, að taka ekki ákvarðanir sem leiða til dauða, „að meta rétt þá hluti sem máli skipta“ eins og postulinn segir í Filippíbréfinu, með því að elskan aukist að þekkingu og dómgreind (Fil 1.9-10). 

 

Þegar við stöndum frammi fyrir krísu, úrskurði, ákvörðun, mati á aðstæðum, hversu léttvægar sem þær kunna að virðast okkar takmörkuðu sýn, höfum þá í huga hvert „dómur“ okkar leiðir: Leiðir afstaða okkar til lífs, eflir hún lífið? Eða leiðir hún til dauða í einhverjum skilningi, minnkar hún lífið eða meinar einhverjum lífs í fullri gnægð?

 

Látum ekki dóma annarra draga okkur niður

Síðustu orðin sem við heyrum í dag frá Sakaría spámanni eru líka merkileg: 
Hyggið ekki á ill ráð (LXX μνησικακείτω1981 hugsi öðrum illt í hjarta sínuhvergegn öðru í hjarta yðar.Aftur er gríska þýðingin á hebreska textanum upplýsandi en hún tengist því að minnast, muna, rifja upp: Munið ekki öðrum það illa sem þau hafa gert ykkur, dveljið ekki í særindum sem annað fólk kann að hafa valdið ykkur, látið ekki dóma annarra draga ykkur niður, draga úr lífsmagni ykkar. 

 

Svona mætti líka skilja þessi orð þó bókstaflega merkingin sé líka þörf, að forðast illar ráðagerðir. Ef við fylgjum grísku túlkuninni – því þýðingar eru jú alltaf túlkanir og ná varla bókstaflegri merkingu upprunatextans að öllu leyti – gætum við sagt eitthvað á þessa leið: Látum ekki læsa okkur inni í gömlum særindum, því sem annað fólk hefur gert á okkar hlut, verum ekki með hefndarhug gagnvart náunganum því hefndin er staður dauða en ekki lífs.

 

Nú höfum við skoðað nokkuð gaumgæfilega þessi þrjú vers úr spádómsbók Sakaría sem okkur voru gefin til íhugunar í dag. Í síðari ritningarlestrinum, úr Rómverjabréfinu (Róm 14.1-6) erum við minnt á að dæma ekki skoðanir þeirra sem hafa aðra nálgun en við í sinni trúariðkun og lífsstíl. Postulinn nefnir sérstaklega jurtafæðu og að gera mun á dögum. Í dag er orðið nokkuð útbreitt að vera grænkeri eða að vera vegan, neyta einungis jurtafæðu, til dæmis af umhverfisástæðum og dýraverndunarsjónarmiðum. 

 

Páll postuli er að tala inn í aðstæður þar sem kjöti var fórnað til guðanna en sumt kristið fólk vildi ekki leggja sér slíkt til munns af ótta við að smit yrði á milli trúarbragða. Annað kristið fólk lét sér standa á sama og eins hvað varðaði hátíðisdaga sem tileinkaðir voru guðum trúarbragðanna. Þau vissu sem var – og er - að Guð móðgast ekkert þó kristið fólk taki þátt í því sem tilheyrir öðrum trúarhópum af því að trúargrunnurinn, traustið til þríeins Guðs, er ekki háð ytra atferli. 

 

Guð hefur tekið okkur að sér

Hitt er annað mál, að ef eitthvað veldur þeim sem eru að fóta sig í trúnni hugarangri, er rétt að láta eigin trúarfullvissu ekki leiða til hroka heldur taka tillit til þeirra sem enn eru að læra. Aðalmálið er að Guð hefur tekið á móti okkur öllum, tekið okkur að sér (1981) og því eigum við að forðast að dæma þau sem velja að haga lífi sínu og trúariðkun með öðrum hætti en við gerum. 

 

Við eigum ekkert með að dæma, við stöndum öll og föllum Guði okkar og við munum standa því Guði er ekkert um megn. Hverog eitt okkar fylgi sannfæringu sinniá meðan sú sannfæring er til lífs en ekki dauða. Því allt sem við gerum eigum við að gera „vegna Drottins“ eins og segir í textanum, allt sem við gerum á að vera þannig að það „geri Guði þakkir“, færi Guði þakklæti fyrir lífið, sé ilmur af lífi til lífs (2Kor 2.14-16). 

 

Aftur sjáum við hvernig það getur verið okkur viðmið í daglegu lífi, að dómar okkar, skoðanir, ályktanir, ákvarðanir, séu til lífs, að okkar framganga sé öll þannig að kærleikurinn, velvildin, umhyggjan, samúðin eflist og þar með lífið. Öll þurfum við að gera Guði skil á sjálfum okkur jafnóðum (Róm 14.12), ekki bara einhvern tíman að loknu þessu lífi, heldur hvert augnablik. Tíunda reynsluspor 12-spora hreyfinganna getur verið okkur vegvísir á þeirri leið, að iðka stöðuga sjálfsrannsókn og þegar út af ber viðurkennyfirsjónir okkar umsvifalaust.

 

Dæmið ekki og þér munuð eigi verða dæmd. Sakfellið eigi og þér munuð eigi verða sakfelld. Fyrirgefið öðrum og Guð mun fyrirgefa yður. Gefið og yður mun gefið verða. Góður mælir, troðinn, skekinn, fleytifullur mun lagður í skaut yðar. Því með þeim mæli, sem þér mælið, mun yður aftur mælt verða

 

segir Jesús hjá Lúkasi guðspjallamanni (Lúk 6.37-38), samanber guðspjall dagsins, Matt 7.1-5.

 

Lítum í eigin barm

Vissulega og vonandi höfum v heyrt þetta áður. En nú höfum við aðeins flett utan af kunnuglegheitunum sem geta valdið því að við heyrum ekki skilaboðin lengur. Í því ljósi erum við vonandi komin aðeins nær því að þora að líta í eigin barm og svara spurningunni sem sett var fram hér í upphafi: Hvernig gengur okkur að fara eftir þessum góðu ráðum í daglegu lífi? 

 

Munum að eilífa lífið á sér stað í daglega lífinu, hvert andartak erum við að lifa lífið eilífa sem Guðsandinn gefur. Það er ekkert til sem heitir lokamarkmið í andlegum efnum, lífið er núna og við lifum af þeirri ábyrgð sem okkur er unnt hverju sinni, með hjálp Guðs, í mætti Guðs í vanmætti okkar miðjum. Dæmum heldur ekki okkur sjálf á ranglátan og niðurrífandi hátt. Dæmum okkur Guðs dómi sem er réttlátur dómur, dómur velvildar og kærleika. Okkur mistekst iðulega að velja veg lífsins en einnig þau mistök rúmar Guð í umhyggju sinni. 

 

Því gerum við okkar besta, einn dag í einu, eitt andartak í einu, að sýna samúð og umhyggju, eins og verðandi móðir ófæddu barni sínu sem hún gerir allt til að vernda og efla til lífs. Látum dóma okkar verða til lífs, ekki áfellisdóma, sleggjudóma, palladóma, sem leiða til dauða, veljum lífið, verum ilmur af lífi til lífs, umlukin lífi Guðs og varðveislu eins og Kristín Jónsdóttir yrkir:

 

    Jesús!

    Ég legg mínar hendur

    svo hugrökk í þínar. 

    Ég veit að þú vakir 

    og varðveitir mínar. 

 

Takið postullegri blessun með lokaorðum síðara Pétursbréfs: Vaxið í náð og þekkingu Drottins vors og frelsara Jesú Krists. Honum sé dýrðin nú og til eilífðardags. Amen.