Fjárhirðar

Fjárhirðar

Þarna voru þeir saman komnir fyrir 2000 árum, nokkrir fjárhirðar sem gættu um nóttina hjarðar sinnar úti í haga. Og allt í einu stóðu þeir frammi fyrir áskorun sem var engri lík: Áttu þeir að trúa því að engillinn væri alvöru engill og boðskapurinn alvöru boðskapur. Áttu þeir að trúa? Gátu þeir treyst?
fullname - andlitsmynd Pétur Björgvin Þorsteinsson
25. desember 2006
Flokkar

Þarna voru þeir saman komnir fyrir 2000 árum, nokkrir fjárhirðar sem gættu um nóttina hjarðar sinnar úti í haga. Og allt í einu stóðu þeir frammi fyrir áskorun sem var engri lík: Áttu þeir að trúa því að engillinn væri alvöru engill og boðskapurinn alvöru boðskapur. Áttu þeir að trúa? Gátu þeir treyst?

Þarna stóð hann ungur maðurinn fyrir meira en 4000 árum, sinnti búfénu sínu dag og nótt. Og allt í einu stóð hann frammi fyrir áskorun sem var engri lík: Átti hann að trúa því að þetta væri í alvöru Guð sem væri að tala við hann, að köllunin væri alvöru köllun.

Átti hann að trúa? Gat hann treyst?

Og hér erum við í dag, við sem sinnum skyldum okkar dag og nótt, tökum okkur frí öðru hvoru, njótum lífsins og tökumst á við þær áskoranir lífsins sem mæta okkur hverju sinni.

Og allt í einu eru komin jól. Og við stöndum frammi fyrir þeirri spurningu hvort að jólaguðsspjallið sé í alvöru frásögn um Guð, frásögn sem er beint til okkar. Eigum við að trúa? Getum við treyst? Þekkjum við þessar sögur? Eru þessar aðstæður sem hér eru nefndar kunnuglegar?

Hef ég velt aðstæðum fjárhirðanna þarna fyrir 2000 árum fyrir mér? Hef ég kynnt mér sögu Abrahams sem Guð fól ungum stóra ábyrgð? Hver er okkar eigin saga og aðstæður? Því verður hver að svara fyrir sig. - En leyfið mér að gefa ykkur innlit í mitt svar.

Kannski er sagan um fjárhirðana sem gættu um nótt hjarðar sinnar sú saga sem oftast hefur hljómað í eyrum okkar. Ég geri ráð fyrir því að þeir hafi verið misjafnir eins og þeir voru margir. Að sjálfsögðu hafa þeir átt margt sameiginlegt og þekkingin sem þeir bjuggu yfir verið álíka. Slíkir voru tímarnir sem þeir voru uppi á og þannig voru þeirra aðstæður. Þeirra hlutverk var að gæta hjarðar og það gerðu þeir vel.

En svo birtist engill, færði þeim fréttir af fæðingu frelsarans, gull-litaður bjarminn gjörði nóttina bjarta sem um miðjan dag og lofsöngur englakórsins kom með hljóm inn í líf þeirra sem þeir höfðu aldrei heyrt áður.

Þeir sem hingað til höfðu verið venjulegar manneskjur voru gerbreyttir. Reynslan þessa nótt átti eftir að fylgja þeim alla lífstíð, þetta var ógleymanleg stund, alveg einstök tilfinning. Vel má vera að sagan um hinn unga Abram, eða Abraham eins og hann hét síðar sé sú saga sem við þekkjum minnst. Hún hefst svona:

1. Drottinn sagði við Abram: Far þú burt úr landi þínu og frá ættfólki þínu og úr húsi föður þíns, til landsins, sem ég mun vísa þér á. 2. Ég mun gjöra þig að mikilli þjóð og blessa þig og gjöra nafn þitt mikið, og blessun skalt þú vera. 3. Ég mun blessa þá, sem þig blessa, en bölva þeim, sem þér formælir, og af þér skulu allar ættkvíslir jarðarinnar blessun hljóta.

Þetta var venjulegur dagur í lífi Abrahams. En svo birtist Guð, fól honum nýtt hlutverk. Köllun Abrahams hljómar eins og ævintýri, fyrirheitin gefa mynd af bjartri framtíð og blessunarlindin sem hér opnast kemur með hljóm inn í líf Abrahams sem hann hafði aldrei heyrt áður. Hann sem hingað til hafði verið venjuleg manneskja var gerbreyttur. Reynslan þennan dag átti eftir að fylgja honum alla lífstíð, þetta var ógleymanleg stund, alveg einstök tilfinning.

Kannski er sagan um okkur sjálf sú saga sem við viljum tala minnst um þó auðvitað sé það misjafnt hjá okkur. Um leið og við eigum margt sameiginlegt, eru skoðanir okkar mjög fjöl-breyttar og þekkingin sem við búum yfir marg-breytileg og menningarlegur bakgrunnur okkar mjög víður. Slíkir eru tímarnir sem við erum uppi á og þannig eru okkar aðstæður. Ef til vill spyrjum við okkur hvert hlutverk okkar sé, hvað við viljum gera og hver við viljum vera?

Og ég spyr hvort við viljum hlusta á engilinn sem færir okkur fréttir af fæðingu frelsarans, spyr hvort við sjáum gull-litaðan bjarmann sem gerir gráma hversdagsins bjartari en okkur þorir að dreyma um og hvort við heyrum lofsöng englakórsins, hvort við viljum að hann komi með hljóm inn í líf okkar sem breytir lífi okkar? Viljum við að jólasagan fylgi okkur alla lífstíð, sé ógleymanleg stund, alveg einstök tilfinning?

Fjárhirðarnir heilla mig, því mér finnst ég sjá í sögu þeirra barnslega hrifningu stoltra karla. Þeir heilla mig líka því þeir skilja eðli lífsins. Dagleg baráttan í leit að nægri fæðu og góðu vatni fyrir féð hafði kennt þeim að meta það sem heldur í okkur lífinu. Og það að vera sífellt á varðbergi gagnvart hinum ýmsu ógnum hafði gert þá meðvitaða um að lífið er ekki sjálfsagt. En umfram allt heilla þeir mig því þeir krupu við jötuna og sýndu konungi lífsins lotningu.

Abraham heillar mig því hann treystir orðum Guðs. Hann veit ekki hvað er framundan. Hann veit fyrst og fremst eitt: Guð verður með hon-um. Abraham heillar mig líka því hann þorir að taka afstöðu þrátt fyrir að Guð fari ekki í dylgj-ur með það að samstaða hans með Abraham sem hann hefur kallað til sinnar þjónustu er slík að það muni myndast fylkingar. Og þar heillar Abraham mig líka því að framkoma hans í slíkum tilvikum er til fyrirmyndar.

Þú heillar mig. Manneskjur eins og þú sem taka sér tíma til að mæta í kirkju á aðfangadagskvöld Manneskjur eins og þú heilla mig þegar tíminn skiptir ekki öllu máli, heldur uppbygging samfélagsins sem við búum í. Þú heillar mig er þú nemur staðar, sinnir eigin innra manni, börnunum, ástvinunum, nágrönnunum, náttúrunni ... En fyrst og fremst heillar mig manneskjan sem þorir að benda á óréttlæti og siðleysi og gerir sitt í að bæta heiminn.

Ég er Guði þakklátur fyrir að hafa fengið að kynnast sögu fjárhirðanna og í kvöld vil ég vera með þeim þar sem þeir krjúpa við jötuna í lotningu.

Ég er Guði þakklátur fyrir að hafa fengið að kynnast sögu Abrahams og í kvöld vil ég vera með honum þar sem hann leggur traust sitt á Guð í þeirri fullvissu að hann mun vel fyrir sjá.

Ég er Guði þakklátur fyrir að hafa fengið að kynnast manneskjum sem hafa tekið frásögninni af Jesú Kristi sem sannleik sem vert er að fylgja og sína það í orði og verki þar sem þau hlú að sjúkum, styðja hjálparstarfið, leggja sig alla fram fyrir fjölskylduna sína. Eru fólk sem láta sig lífið máli skipta, eiga traust og sýna trú.

Því sagan af Guði er saga okkar með Guði og saga jólanna jafn sönn og plássið sem hún fær í hjarta þér. Guð gefi þér gleðileg jól. Amen.