Friðarórar í föllnum heimi

Friðarórar í föllnum heimi

"sagan hefur einnig sýnt að til þess að ná markmiðum, sem virðast óyfirstíganleg, þá getur verið gagnlegt að setja sér jafnvel enn stærri markmið – eins mótsagnakennt og það hljómar – sem lýsa líkt og vonarstjarna á himni sem nærir von og trú mannsins á, að hið ómögulega sé mögulegt. Þannig fylgja draumórar Johns Lennon fullkomlega fyrirmynd spámannlegra draumsýna Gamla testamentisins sem sáu fyrir sér heim þar sem ríkti fullkominn friður – ekki aðeins manna í millum heldur einnig allra dýra sköpunarinnar"
Mynd

Flutt í Háteigskirkju

Lexía: 1M 3.1-24; Pistill: 2Kor 6.1-10; Guðspjall: Mt 4.1-11

„Jafnvel þótt Pútín vinni stríðið þá er það hann sem tapar.“ Einhvern veginn þannig ritar einn af ritstjórum þýska fréttablaðsins Der Spiegel. Þetta rökstyður hann með þeirri staðreynd að nú þegar hefur Pútín skaðað sitt eigið land og sína eigin þjóð gríðarlega. Hann sé sjálfur orðinn að úrhraki í alþjóðlegu samfélagi þjóða, rússneskir hermenn hafi hans vegna blóð saklauss fólks á höndum sér og rússneskt efnahagslíf muni ekki jafna sig af yfirstandandi efnahagsþvingunum um árabil. Almenningur verði æ fátækari og einangraðri, og reiðin í samfélaginu fari vaxandi – sem reyndar gæti haft þær einu jákvæðu afleiðingar að hægt og bítandi myndi grafa undan valdi Pútíns. Hann hafi gert land sitt veikara í stað þess að gera það sterkara. Hann sé misheppnaður forseti.

Þennan dóm hefði líklega mátt fella nánast orðréttan yfir ótölulegum fjölda einræðisherra í mannkynssögunni. Pútín sker sig á engan hátt úr þeim hópi. Rússnesk þjóð hefur í sögu sinni ávallt verið í vissum skilningi fórnarlamb sinna eigin stjórnvalda. Dýrð rússneska keisaradæmisins á 19. öld, veldis sem teygði sig yfir hálfan hnöttinn, var ekki rússneskum almenningi til hagsbóta frekar en veldi Pútíns nú.

En jafnvel þótt Pútín vinni, þá er það hann sem tapar. Merkilegt nokk, þá er þetta nokkurn veginn það sem kristin trúarhugsun hefur boðað í hartnær 2000 ár. Sá sem tapar í þeirri miklu, epísku frásögn, sem Biblían rekur allt frá goðsögulegu upphafi heims og mannkyns í 1. Mósebók til upprisu Jesú Krists frá dauðum í lok guðspjallanna er enginn annar en dauðinn sjálfur.

En afl dauðans birtist með ýmsum hætti. Hann getur verið kærkominn og eðlilegur endir á löngu lífi. En í annan tíma getur dauðinn verið ótímabær, miskunnarlaus og grimmur og sviptir fólk ástvinum í blóma lífsins. Og þá er svo óendanlega dýrmætt að leyfa sér að treysta því að „lífsins Drottinn vitjar allra manna“ og að „eilíft líf við hreppum“ eins og Marteinn Lúther orðar það í einum sálmi sínum (SB 157). Í þessum sálmi líkir Lúther baráttu Krists við dauðann við styrjöld – reyndar þá hörðustu í heimi þar sem styrjaldir geysi stöðugt. Í einni stuttri setningu fáum við upplýsingar um pólitískar og samfélagslegar aðstæður á tíma Lúthers: Það voru ófriðartímar líkt og hafa nánast alltaf verið með mislöngum hléum þó.

Nú höfum við, íbúar Vestur-Evrópu, fengið að upplifa fádæma friðartíð í 77 ár, frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Og þó var sá friður að sumu leyti sýndarfriður því að bak við tjöldin geysaði hugmyndafræðilegt stríð – kalt stríð – sem við héldum að væri liðið. En atburðir síðustu viku í Úkraínu hafa líkt og vakið okkur af þyrnirósarsvefni.

Nú vöknum við upp við þá ótrúlegu staðreynd að þrátt fyrir tvær heimsstyrjaldir í nánustu fortíð skuli enn sitja á valdastóli í evrópsku ríki maður sem sé tilbúinn til þess að ganga að tilboði djöfulsins, sem djöfullinn gerir Jesú í guðspjalli dagsins en Jesús neitar:

Enn tekur djöfullinn hann með sér upp á ofurhátt fjall, sýnir honum öll ríki heims og dýrð þeirra og segir: „Allt þetta mun ég gefa þér ef þú fellur fram og tilbiður mig.

Eins og svo margir textar Biblíunnar afhjúpar þessi frásaga kjarnann í mannlegri ógæfu: freistingu valdsins sem fyrir sitt leyti nærist á græðginni og hrokanum. Jesús stenst freistingu djöfulsins en það er ekki öllum dauðlegum mönnum gefið. Djöfullinn er að sjálfssögðu táknmynd fyrir allt það í fari mannsins sem skaðar og meiðir, tákn fyrir hið illa, sem lætur einskis ófreistað til þess að ná sínu fram, jafnvel þótt það hafi í för með sér þjáningar eða dauða. Ritskýrendur fyrri alda litu einnig á höggorminn í paradísarsögunni sem tákn fyrir hið illa sem freistar manneskjunnar til þess að taka meira en henni ber. Og með meðvitundinni um eigið brot sem fylgir í kjölfarið kemur einnig tilhneigingin til þess að hafna eigin ábyrgð og kenna öðrum um. Eins og maðurinn kenndi konunni um og konan höggorminum, varpar Pútín ábyrgðinni á stríðinu á Úkraínumenn með sögufölsunum og lygum um sekt þeirra.

Það fer líklega eftir samhenginu hverju sinni hvað telst vera undirrót hins illa en græðgin verður að teljast býsna líklegur valmöguleiki og hún getur beinst að svo mörgu og ekki síst völdum. Og auður og völd fara gjarnan saman. Græðgi Pútíns birtist í mikilmennskubrjálæði spillts manns sem notar vald sitt til þess að mergsjúga sitt eigið samfélag með hjálp jafnspilltra viðskiptajöfra og dreymir þar að auki um endurreisn Sovétríkjanna eða hins dýrðlega rússneska keisaradæmis. Með glýju í augum fellur Pútín fram og tilbiður djöfulinn.

En einræðisherrar og ofbeldismenn eru ekki þeir einu sem geta látið sig dreyma.

Í laginu Imagine, sem sungið var hér áðan í íslenskri þýðingu Þórarins Eldjárns, „Að hugsa himnaríki,“ hvetur John Lennon okkur til þess að ímynda okkur heiminn halda grið og frið. Síðan segir hann: „Mér er sagt ég sé með óra. Ég er ekki einn um það. Já, komdu með, við höldum hópinn, gerum heiminn að griðarstað.“

Þegar Lennon samdi Imagine var Víetnamstríðið í algleymingi og hann vildi vekja fólk til umhugsunar um það sem hann áleit undirrót ófriðar. Hann lýsti einhvers staðar laginu sem svo að það beindist gegn trúarbrögðum, gegn þjóðernishyggju, gegn hefðum og gegn hvers konar einkaeign. Í stuttu máli sagt öllu því sem frá örófi alda hefur einkennt mannlegt samfélag. Lagið Imagine varð þegar í stað afar vinsælt og er – eins og allir vita – eitt þekktasta dægurlag heimsins. En það vakti líka deilur enda var það náttúrlega tilgangur Lennons að hrista upp í hefðbundinni hugsun og viðhorfum samfélagsins frekar en að setja fram patent-lausn. Margir bentu á þá þversögn, sem fælist í því að maðurinn, sem þannig beindi spjótum sínum að einkaeign, væri sjálfur milljónamæringur sem lifði í vellystingum.

Önnur þversögn í sambandi við þetta lag felst í þeirri staðreynd að þrátt fyrir að Lennon hvetti fólk til að ímynda sér heim án trúarbragða, þá var það kristin bænabók, sem vinur hans hafði gefið honum, sem varð honum innblástur að meginhugmynd lagsins, sem er hugmyndin um að það sé raunverulega hægt að koma e-u góðu til leiðar með svo kallaðri jákvæðri bæn.

Þessar tvær þversagnir sýna að með textanum hafði Lennon alls ekki í huga að setja fram hugmyndafræði – ekkert var honum fjær. Hann vildi örugglega ekki hvetja til byltingar sem myndi kollvarpa samfélagsskipaninni enda hefði það farið í berhögg við friðarboðskap lagsins. Hann var hvorki að prédika kommúnisma né var hann að ráðast á trúarbrögð sem slík. Sama ár og hann var myrtur útskýrði hann þetta þannig: „Ef maður getur ímyndað sér friðsaman heim, án trúarhreyfinga – ekki án trúarbragða heldur án þessa „minn guð er stærri en þinn guð“ – þá getur það orðið að veruleika.“ Þetta sýnir að hann var fyrst og fremst að hugsa um afstöðu manns til hlutanna og hvernig maður umgengst þá.

Lennon hlýtur að hafa vitað jafn vel og hver annar að heimur án landamæra, án eignarréttar eða án trúarbragða var ekki raunhæfur möguleiki. Hann hefði allt eins getað skrifað um heim án mismunandi tungumála, heim þar sem enginn skilgreindi sig út frá því með hvaða íþróttaliði hann eða hún héldi, eða heim þar sem fólk upplifði sig ekki sem sjálfstæðar persónur og þar sem ekki væru til neinar fjölskyldur. Allt þetta aðgreinir fólk og skiptir því í lið. Heimurinn er fullur af óteljandi skilgreiningaratriðum sem aðgreina okkur frá öðrum, frá þeirri stundu þegar sjálfsmeðvitundin um sjálf sig sem einstaklinga vaknar hjá börnum um tveggja ára aldur. Aðgreining á milli einstaklinga og hópa á ótal forsendum er óhjákvæmileg. En hatur, óvild og ófriður er ekki óhjákvæmileg afleiðing þeirrar staðreyndar.

Sagan sýnir okkur vissulega að hægara er um að tala en í að komast en orð eru til alls fyrst segir máltækið. Og orð eru tjáning hugsunar og ímyndunaraflið er eitt öflugasta verkfæri hennar. „Já, hugsaðu þér heiminn halda grið og frið.“ Draumórar um frið og náungakærleika eru ekki nýir af nálinni. Bæði gyðingdómur og kristni hafa byggst upp í kringum þá draumóra að allir menn geti lifað saman í sátt og samlyndi ef þeir aðeins vilja það. Í trúarlegri hugsun heitir það að framkvæma vilja Guðs um réttlátan heim; að vinna meðvitað, af heilum hug og hjarta, að framgangi lífsins, að réttlæti, að friði. En það krefst þess að maður trúi því að það sé hægt að skapa réttlátan heim þar sem friður ríkir. Maður verður að ímynda sér það og trúa því – jafnvel þó það sé ótrúlegt.

Og sagan hefur einnig sýnt að til þess að ná markmiðum, sem virðast óyfirstíganleg, þá getur verið gagnlegt að setja sér jafnvel enn stærri markmið – eins mótsagnakennt og það hljómar – sem lýsa líkt og vonarstjarna á himni sem nærir von og trú mannsins á, að hið ómögulega sé mögulegt. Þannig fylgja draumórar Johns Lennon fullkomlega fyrirmynd spámannlegra draumsýna Gamla testamentisins sem sáu fyrir sér heim þar sem ríkti fullkominn friður – ekki aðeins manna í millum heldur einnig allra dýra sköpunarinnar líkt og hjá Jesaja í texta sem alltaf er lesinn á aðventunni:

Þá mun úlfurinn búa hjá lambinu og pardusdýrið liggja hjá kiðlingnum.
Kálfur, ljón og alifé munu ganga saman og smásveinn gæta þeirra.

...

Enginn mun gera illt, enginn valda skaða á mínu heilaga fjalli (Jes 11.6, 9ab)

Sterkasta vopnið gegn illskunni er trúin á kærleikann og á meðan vonin á sigur kærleikans yfir illskunni lifir í brjóstunum munum við geta hrint atlögu hennar.

En, kæri söfnuður, illskan er ekki staðbundin við Kreml eða vígvellina í Úkraínu eða annars staðar í heiminum. Höggormurinn í paradísarsögunni og djöfullinn í guðspjallinu eru ekki táknmyndir fyrir einstaklinga heldur fyrir breyskleika og hættur sem búa innra með hverri manneskju. Og stríðsátök líkt og þau sem nú eiga sér stað afhjúpa miskunnarlaust hversu flókinn heimurinn er og hversu auðvelt er að gera sig sekan um tvískinnung og hræsni. Því að í svona aðstæðum höfum við skiljanlega tilhneigingu til þess að sjá heiminn í svart-hvítu: góðu gæjarnir gegn vondu gæjunum, við gegn þeim, Úkraínumenn gegn Rússum, við gegn Rússum – og gleymum í leiðinni að venjulegir Rússar bera ekki ábyrgð á stríðsrekstri Pútíns og gerum ekki greinarmun á almenningi og stjórnvöldum. Og fyrr en varir verða rússnesk börn fyrir einelti í íslenskum skólum og framin eru skemmdarverk á bænhúsi Rússnesku Rétttrúnaðarkirkjunnar þar sem   vel að merkja – bæði Rússar og Úkraínumenn hafa komið saman til þess að iðka trú sína sem bræður og systur. Við þurfum að standa vörð um okkar eigin siðferðilegu heilindi og ekki aðeins gera allt sem við getum til þess að aðstoða Úkraínumenn á flótta heldur einnig að standa í gegn andúð og aðkasti sem hætta er á að rússneskt fólk verði fyrir á þessum tímum, hér á landi sem annars staðar. Við megum ekki gleyma að það er einnig fórnarlömb harðstjórnarinnar.

Dýrð sé Guði: Föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er enn og verða mun um aldir alda. Amen.