Um hirðinn og sauðinn

Um hirðinn og sauðinn

Í dag hugleiðum við orð Guðspjallsins um hirðinn. Orðin sem Jesús sagði um sjálfan sig: Ég er góði hirðirinn. Þannig skilgreinir hann sig. Við setjum orðin Góði hirðirinn sérstaklega í samhengi við Jesú því við vitum að hann viðhafði þau um sjálfan sig.

Ég er góði hirðirinn. Góði hirðirinn leggur líf sitt í sölurnar fyrir sauðina. Sá sem er leigður og hvorki er hirðir né á sauðina, hann flýr og yfirgefur sauðina þegar hann sér úlfinn koma og úlfurinn hremmir þá og tvístrar þeim. Enda gætir hann sauðanna aðeins fyrir borgun og er ekkert annt um þá. Ég er góði hirðirinn og þekki mína og mínir þekkja mig eins og faðirinn þekkir mig og ég þekki föðurinn. Ég legg líf mitt í sölurnar fyrir sauðina. Ég á líka aðra sauði sem eru ekki úr þessu sauðabyrgi. Þá ber mér einnig að leiða, þeir munu heyra raust mína. Og það verður ein hjörð, einn hirðir. Jóh 10.11-16

Hann var merkilegur maður. Um það geta allir verið sammála. Hann ólst upp í litlu þorpi en fáum sögum fer af honum á ungdómsárum. Þegar hann eltist varð lýðum ljóst að hann hafði mikla hæfileika og sterka útgeislun. Fólk tók að streyma þangað sem hann var og fór jafnvel um langan veg til þess að sjá hann og hlýða á raust hans. Hann átti hatursmenn sem sögðu hann leiða fólk villur vegar. Það baktal hafði lítil áhrif og frægðarljómi hans varð enn skærari. Hann snerti strengi í hjörtum ungra og aldinna. Hann breiddi út gleði og góðar tilfinningar, ekki síst meðal fólks sem átti um sárt að binda. Hann var nefndur konunungur. Ævi hans var stutt og fékk sviplegan endi. Þegar hann dó var hann aleinn og yfirgefinn. Fljótlega eftir dauða hans komst sá kvittur á kreik að hann væri ekki dáinn í raun og veru. Hann lifir! var hrópað. Sumir sögðust hafa séð hann á lífi og margir halda því fram að hann lifi enn í dag. Þið vitið um hvern ég er að tala er það ekki? Auðvitað Elvis Presley. Þeir eiga ýmislegt sameiginlegt Jesús og Elvis, sérstaklega ef ekki er of grannt skoðað. Sennilega eigum við öll eitthvað sameiginlegt með Jesú. Við getum samsamað okkur honum á einn hátt eða annan, enda eðlilegt því Jesús var maður eins og við. Sannur maður. Lengra komumst við þó ekki í samlíkingunni því Jesús er líka sannur Guð. Það erum við ekki. Hvorki ég, þú, Elvis né nokkur annar maður. Því að Jesús er ekki eins og aðrir menn. Hann er gjöf Guðs, ekki aðeins til þeirra sem voru uppi á sama tíma og hann heldur til allra alda, til allra manna og þjóða. Í dag hugleiðum við orð Guðspjallsins um hirðinn. Orðin sem Jesús sagði um sjálfan sig: Ég er góði hirðirinn. Þannig skilgreinir hann sig. Við setjum orðin Góði hirðirinn sérstaklega í samhengi við Jesú því við vitum að hann viðhafði þau um sjálfan sig. Þeir sem heyrðu Jesú segja þessi orð þekktu texta Gamla testamentisins. Þar er Guði oft líkt við sauðahirði. Þekktust slíkra líkinga er án efa 23. Davíðssálmur, sem sunginn var hér áðan: Drottinn er minn hirðir. Jesús segir: ÉG ER þessi hirðir sem um er sungið. Ég er hirðir þinn. Ég er Drottinn. Lykilorð allra ritningartexta dagsins í dag eru þessi: Hirðir og sauður. Orðið hirðir er fagurt orð, létt á tungu og lætur vel í eyrum. Okkur er það að vísu ekki tamt til nota þegar kemur að íslenskum sauðfjárbúskap. Við eigum okkar smala. Munurinn á smala og hirði er að smali rekur fé en hirðir leiðir fé. Hirðar í Ísrael á dögum Jesú önnuðust fjárhópinn og fundu honum vötn og grænar grundir. Þegar hætta stafaði að hópnum, til dæmis ef villidýr sóttu að þá var hirðirinn til varnar. Féð þekkti hirðinn og hirðirinn þekkti féð. Hvern einasta sauð. Jesús sagði: Ég þekki mína og mínir þekkja mig - Hann er hirðirinn, ég er sauðurinn. Sauður, já. Það var hitt lykilorðið. Það hljómar ekki eins vel. Hver vill vera sauður? Þetta orð hefur á sér yfirbragð skammaryrðis á okkar ástkæra ylhýra enda er sauður í besta falli meinlaus og í versta falli þrár ef hann er ekki sofandi. Sauðir í hjörð hafa tæpast neina sjálfstæða hugsun heldur hlýða hirðinum og fara þangað sem hann vill að þeir fari og þeir kæra sig hyrnda og kollótta um hvort hann leiði þá í haga eða til slátrunar. Já, vel að merkja, til slátrunar. Staðreyndin er sú að hirðirinn hefur lifibrauð sitt af sauðunum? Hirðinum er þannig mest í mun að sauðirnir verði sem fall - legastir, í merkingunni að þeir hafi sem mestan fallþunga og þyngi þannig pyngju hans sjálfs. Ef slíkar hugsanir trufla þig í samhenginu við það þegar Jesús, góði hirðirinn, talar um sig og sína sauði þá hvet ég þig til að leggja þær til hliðar. Að vera sauður í hjörð hans er nefnilega ekki það sama og að hugsa ekki sjálfstætt og láta leiðast í blindni. Jesús er nefnilega GÓÐI hirðirinn. Aðrir heimsins hirðar lifa af hjörðinni. Jesús lifði og dó fyrir hjörðina. Jesús er góði hirðirinn. Að vera hirðir er honum allt. Hann er hirðir upp á líf og dauða og hann unir sér aldrei hvíldar að safna saman lömbunum, ekki aðeins þeim sem villst hafa frá hjörðinni í þoku gylliboðanna, dottið í gjótur skyndilausnanna eða flækt sig í gaddavíra fíknanna. Heldur líka þeim sem vita ekki að þeir eru týndir og fara á mis við lífið með honum og í honum. Þeim sem missa af kærleika hans og leiðsögn annað hvort vegna þess að þeir hafa ekki heyrt um Jesú eða vegna þess að þeir hafna honum. Jesús gefst aldrei upp á villuráfandi sauðum. Hann er persónulegur frelsari. Að fylgja honum er að trúa á hann og að trúa á Jesú er ekki að trúa á hvað sem er.

Við getum sagt að trúin hafi tvær víddir. Önnur snýr að innihaldinu: Á hvað trúi ég. Hin snýr að afstöðu okkar til trúarinnar: Hvað geri ég með trú mína. Þetta tvennt verður að fara saman. Við getum ekki sagt: Ég trúi á Guð en innihald trúarinnar skiptir mig engu máli.

Það er raunalegt að heyra menn afneita svo til allri trárjátningunni en halda því fram að þeir hafi kristna trú.

Við getum heldur ekki haldið því fram að við séum kristinnar trúar fyrir það eitt að samsinna öllu sem trúarjátningin felur í sér. Lifandi kristin trú er traust á kærleika Guðs sem birtist í Jesú Kristi. Að vera kristinnar trúar er að kannast við þörfina á fyrirgefningu syndanna. Hana getur enginn veitt nema Jesús. Trúin er og dauð án verkanna. Það þýðir að enginn getur trúað á frelsarann án þess að vilja vanda sig í lífinu og líferni sínu. Hitt er svo annað mál að enginn er fullkominn þó hann trúi og reyni að breyta vel. Gleymum því ekki heldur að verkin sem við vinnum afla okkur ekki fyrirgefningar. Fyrirgefningin er og verður gjöf Guðs til okkar, en ekki laun fyrir vel unnin störf. (M.R. bls. 77-78) Þegar við heyrum rödd góða hirðisins og kall hans til eftirfylgdar þá er hann jafnframt að lofa okkur að hann yfirgefi okkur aldrei, hvað sem á kann að bjáta. Hann hefur aldrei lofað börnum sínum að þau sleppi við allar lífsins hörmungar, veikindi, sorg eða háska. En „jafnvel þótt ég fari um dimman dal óttast ég ekkert illt, því þú, Jesús, hirðirinn minn, ert hjá mér.“

Við stöndum öll hjarta hans næst, hjartanu sem brast á Golgatahæð, hjartanu sem fór aftur að slá á þriðja degi, af ást til okkar. Þig ljúfan lít hér, lausnari sæll minn æ breiða mót mér miskunar faðm þinn; Raust hirðis öll er, indæl með kraft sinn. Nú stendur náðin. Þorlákur Þórarinsson, prófastur í Vaðlaþingi. Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er enn og verða mun um aldir alda. Amen.