Hið brothætta traust

Hið brothætta traust

Kastljós á heiður skilinn fyrir að hafa gengið í þetta erfiða mál, stöðvað upphafsmann þess og geranda, og komið af stað nauðsynlegri umræðu um mikilvægt mál, sem vonandi leiðir til meiri árvekni alls almennings gagnvart þessum smánarbletti á samfélagi okkar.

Foreldrar Jesú ferðuðust ár hvert til Jerúsalem á páskahátíðinni. Þegar hann var tólf ára fóru þau upp þangað eins og þau voru vön og tóku Jesú með sér. Þau voru þar út hátíðisdagana. En þegar þau sneru heimleiðis varð sveinninn Jesús eftir í Jerúsalem og vissu foreldrar hans það eigi. Þau hugðu að hann væri með samferðafólkinu og fóru eina dagleið og leituðu hans meðal frænda og kunningja. En þau fundu hann ekki og sneru þá aftur til Jerúsalem og leituðu hans.

Eftir þrjá daga fundu þau hann í helgidóminum. Þar sat hann mitt á meðal lærifeðranna, hlýddi á þá og spurði þá. En alla, sem heyrðu til hans, furðaði stórum á skilningi hans og andsvörum. Og er þau sáu hann þar brá þeim mjög og móðir hans sagði við hann: „Barn, hví gerðir þú okkur þetta? Við faðir þinn höfum leitað þín harmþrungin.“

Og hann sagði við þau: „Hvers vegna voruð þið að leita að mér? Vissuð þið ekki að mér ber að vera í húsi föður míns?“ En þau skildu ekki það er hann talaði við þau.

Og Jesús fór heim með þeim og kom til Nasaret og var þeim hlýðinn. En móðir hans geymdi allt þetta í hjarta sér. Og Jesús þroskaðist að visku og vexti og náð hjá Guði og mönnum. Lúk. 2:41-52

„Eins og hindin þráir vatnslindir, þráir sál mín þig, ó, Guð.” Þessi kunnuglegu bænarorð 42. Davíðssálms eru upphafsorð lexíu þessa dags. Þau eru saumuð gullnu letri í gamalli þýðingu í hina fögru útsaumsmynd Unnar Ólafsdóttur, sem hangir yfir skírnarfontinum hér í Áskirkju. Þannig minna þau, og myndin af hindinni sem hallast upp að krossinum og teygar vatnið sér til lífs, á það, að án trúar og samfélags við Guð er maðurinn líkt og uppþornað skar, án trúar fær maðurinn ekki staðist, en í samfélagi hennar er þorsta hans eftir merkingu og sannleika lífsins í þessum heimi svalað.

Kirkjan er samfélag hinna trúuðu, samfélag um ákveðin grunngildi trúarinnar, byggð á boðskap Heilagrar Ritningar og hefðum kirkjunnar í túlkun orðsins og helgisiðum. Þetta er einfölduð lýsing, enda kirkjufræðin ein af margbrotnum og flóknum greinum guðfræðinnar, og viðfangsefni lærðra manna á öllum öldum. Ennþá einfaldari lýsing á kirkjunni væri: Staður þar sem fólk kemur saman. Punktur. - Og þó, kannski heldur komma, því við komum vissulega saman í kirkjunni í ákveðnum tilgangi, um málstað trúarinnar, vonarinnar og kærleikans, undir merki Jesú Krists, komum til að teyga lífsins vatn, slökkva þorsta okkar eftir merkingu í lífinu, sem við vitum að býr yfir dýpra inntaki en við okkur blasir í fljótu bragði, merkingu sem trúin ein kann svörin við, trúin á Guð sem maðurinn þráir í hjarta sínu. Við komum til kirkju til þess að styrkja okkur sem manneskjur, til að leggja grunn að trúaruppeldi barnanna okkar, kenna þeim að treysta því góða í lífinu sem við sækjum í boðskap trúarinnar, kennum þeim að hlusta eftir orði Guðs, kennum þeim að biðja, og kennum þeim að lifa í trúnni í samfélagi með öðrum sem deila trúnni með okkur. Við kennum börnunum okkar traust trúarinnar, viljum að þau geti treyst öðrum og að aðrir treysti þeim, kennum þeim að elska Guð og náungann eins og sjálf sig.

Traustið er ósýnilegt. Það er hárfínt og brothætt. Samt er það gríðarstórt og fyrirferðarmikið í öllum samskiptum manna. Stundum vex það hratt fram í kynnum okkar, en stundum fer það sér rólega og er lengi að koma. Svo eru dæmi þess einnig, að það skapist alls ekki, rétt eins og það getur horfið eins og hendi sé veifað, ef því er misboðið.

Við hér í Áskirkju höfum í liðinni viku fengið að læra sitt af hverju um traustið, í umfjöllun Kastljóss Ríkissjónvarpsins um Karl Vigni Þorsteinsson, tæplega sjötugan mann, sem verið hefur fastagestur í Opnu húsi eldri borgara hér í kirkjunni vikulega frá hausti til vors í tæpan áratug. Fyrstu fjögur árin var hann hér sem formlegur sjálfboðaliði og vann þá sem aðstoðarmaður í eldhúsi í Opnu húsi. Hann leitaði síðan eftir að fá að starfa í heimsóknarhópi sem hefur það hlutverk að heimsækja fólk í söfnuðinum sem býr einsamalt, og er ætlað að draga úr félagslegri einangrun þess og einsemd. Honum voru þó aldrei falin nein verkefni á því sviði og hann varð aldrei virkur í starfi heimsóknahópsins.

Árið 2007 fjallaði DV um mál Karls Vignis, og kom þar fram að hann hefði fyrir meira en 40 árum fyrr beitt börn sem dvöldu á vistheimili á Kumbaravogi í Flóa kynferðislegu ofbeldi. Ásakanir þessa efnis játaði hann fyrir lögreglu í kjölfar umfjöllunarinnar, en málið reyndist fyrnt að lögum, og enginn dómur var því upp kveðinn. Viðbrögð mín og Birgis Arnar, formanns sóknarnefndar Áskirkju við þessu urðu þau að leysa hann tafarlaust frá formlegu sjálfboðastarfi við Áskirkju. Honum var hins vegar sagt að honum væri frjálst að sækja Opið hús eldri borgara í kirkjunni áfram. Það þáði hann, og hefur sótt það síðan. Hann var eftir sem áður hjálplegur í eldhúsinu, lagði á borð og vaskaði upp. Einnig tók hann þátt í söngstundinni, sem er liður í dagskrá Opna hússins.

Ég vil ekki réttlæta með neinu móti þá ákvörðun að Karli Vigni skyldi veitt viðurkenning og þakkarvottur fyrir sjálfboðastarf við Áskirkju, en vil þó skýra tildrög þess. Seint á árinu 2011 bauð Biskupsstofa söfnuðum Þjóðkirkjunnar að heiðra fólk sem komið hefði að sjálfboðastarfi í söfnuðunum með sérstöku skjali, sem væri táknrænn þakkarvottur fyrir framlag þess. Valinn var um 30 manna hópur úr starfi Áskirkju til að hljóta þessa viðurkenningu. Ég ber sjálfur ábyrgð á því vali, en ekki sóknarnefnd kirkjunnar, enda hlutu allir sóknarnefndarmenn þessa viðurkenningu sjálfir ásamt fleiri sjálfboðaliðum. Tilefni þess að Karl Vignir var hafður með í hópi þeirra sem hlutu þakkarvottinn var liðsinni hans við eldhússtörfin í Opnu húsi, sem var hans aðalverkefni sem sjálfboðaliða frá 2003 til 2007, og síðan hjálpsemi hans sem óbreytts gests við þau sömu störf eftir það. Hann kom aldrei nálægt barna- og unglingastarfi hér við kirkjuna, eins og áréttað hefur verið. Hann var ekki tekinn út úr einn og sér, ekki hafinn á stall og hylltur fyrir stórkostlegt framlag sitt til safnaðarstarfsins, eins og mátt hefur skilja á fjölmiðlum, og var ekki einu sinni nærstaddur við það tækifæri sem skjöl þessi voru afhent. Í viðurkenningunni til hans fólst að sjálfsögðu ekkert samþykki á brenglaðri háttsemi hans. Skjalið var eingöngu hugsað sem þakklæti fyrir aðstoð hans við afmarkað félagslegt verkefni, kannski eins konar útrétt hönd til einstæðingsmanns, með orðunum „takk fyrir hjálpina”, en ekki aflátsbréf vegna synda hans, né neins konar velþóknun á þeim saknæmu athæfum hans sem þá þegar var vitað um. Flest erum við alin þannig upp að okkur hafi verið kennt að þakka fyrir okkur, og að skilja ekki útundan. Í ljósi allra þeirra upplýsinga sem fjölmiðlar hafa birt, og leiða í ljós risavaxna misgjörðasögu Karls Vignis, er engu að síður alveg ljóst að það var ekki aðeins óviðeigandi og ögrandi gagnvart þolendum hans að veita honum hið umrædda þakkarskjal, heldur beinlínis rangt. Því vil ég nú biðja söfnuð Áskirkju, samstarfsfólk mitt við kirkjuna, svo og aðra sem eiga hlut að máli, afsökunar á því.

Allt er þetta þó, kæru vinir, hégómi einn og smáræði hjá þeim þjáningum og vanlíðan, sem þessi fastagestur okkar hér í Opna húsinu í Áskirkju hefur valdið tugum einstaklinga á hálfri öld, þessi vingjarnlegi maður, Karl Vignir, sem kom sér vel hér hjá okkur og leitaðist við að skapa traust og tiltrú á sjálfum sér. Hugur er hjá öllum þeim fjölmörgu sem hann ávann sér traust hjá svo víða, til þess síðan að blekkja þau og misbjóða þeim. Okkur hér er engin sérstök vorkunn, þótt okkur kunni að svíða um stund undan myndum í sjónvarpi sem settar eru í annarlegt samhengi og við að heyra þar samtímis frásagnir af málavöxtum er snertu veru hans hér í Opnu húsi, sem leitað var upplýsinga um hjá mér í aðdraganda þáttanna, en voru affluttar og mistúlkaðar. Kastljós á heiður skilinn fyrir að hafa gengið í þetta erfiða mál, stöðvað upphafsmann þess og geranda, og komið af stað nauðsynlegri umræðu um mikilvægt mál, sem vonandi leiðir til meiri árvekni alls almennings gagnvart þessum smánarbletti á samfélagi okkar. Fjölmiðlarnir hafa það hlutverk að gera okkur ónæði og vekja okkur upp af værum blundi þegar þess þarf með.

Í guðspjalli dagsins í dag segir frá því að María og Jósef höfðu treyst á að aðrir úr hópi samferðafólks þeirra hefðu tekið Jesú með sér í hópinn sem hélt heim frá Jerúsalem áleiðis til Nasaret. Þau sneru því aftur og leituðu hans harmþrungin í þrjá daga uns þau fundu hann í helgidóminum, þar sem hann sat og hlýddi á lærifeðurna og spurði þá, og undraði alla á skilningi hans og andsvörum. Hann hélt síðan heim með foreldrum sínum og óx að visku og vexti og náð hjá Guði og mönnum.

Helgidómurinn var staðurinn sem Jesús leitaði í, og nefndi hann hús föðurins þar sem honum bæri að vera. Kirkjan er slíkur samfundarstaður Guðs og manna, Guðs hús, heilagur, frátekinn staður, þar sem við viljum geta sótt okkur frið og hugarró, nærst af orði Guðs og anda og teygað af vatnslindum trúarinnar. Hér viljum við leggja grunn að og næra lífstíðartraust barnsins, hér viljum við færa börn til lífssamfélags skírnarinnar, hér treysta ungmennin skírnarheit sín, hér viljum við neyta máltíðar Drottins við altari hans samkvæmt boði hans, hér vinna hjón hjúskaparheit sín og treysta bönd ástar og trúfesti, og héðan viljum við kveðja þá látnu í trausti trúarinnar og fela þá miskunn Guðs á vald.

Þetta viðkvæma, brothætta traust skulum við leitast við að vernda og styrkja saman, kæri söfnuður, hlúa hvert að öðru, og gæta hvert að öðru. Samfélag kirkjunnar í hverfinu er dýrmæt og mikilvæg kjölfesta, sem við skulum ekki láta áfall síðustu daga raska, heldur reyna að læra af reynslu þess og mistökum. Verum góðviljuð hvert við annað, miskunnsöm, fús til að fyrirgefa hvert öðru eins og Guð hefur í Kristi fyrirgefið okkur. Amen.