Að gera allt vitlaust

Að gera allt vitlaust

Og upprisuhátíð kristinna manna átti sannarlega eftir að gera allt vitlaust. Krossinn er ekki hinn algeri ósigur. Dauðinn er ekki lengur inn endanlegi dómur. Dauðinn dó en lífið lifði. Kristur eru upprisinn.
fullname - andlitsmynd Skúli Sigurður Ólafsson
17. apríl 2022
Flokkar

Við sem flytjum boðskap upprisunnar erum fagnaðarboðar. Við erum í sífellu með hátíð á vörunum.

Kveðjur

Þegar börn eru skírð, brúðhjón eru gefin saman er gleðin er hátíðin allt um lykjandi. Við flytjum hátíðarkveðju þegar vorboðarnir okkar í kirkjunni hafa gengið inn gólfið, hvítklædd fermingarbörnin, björt og vonarrík eins og árstíðin sjálf.

En orðatiltækin eru margvísleg enda er tungumálið síhvikt. Stundum taka kveðjurnar á sig furðulegar myndir. Þannig þykir það vera til marks um góðan árangur ef einhver „er að gera allt vitlaust“. „Hann er að gera allt vitlaust“ í boltanum segjum við um klókan þjálfara eða markasækinn framherja. Einhver „er að gera allt vitlaust“ í leikhúsinu eða á skjánum og þá fáum við áhorfendur aldrei nóg af því að fylgjast með þeirri hæfileikakempu sem svo er lýst. 

Þetta orðatiltæki vakti athygli mína þegar ég var að undirbúa páskana. Ég heyrði einhvern útvarpsmanninn komast svo að orði og fór óðara að tengja það við þessa stærstu hátíð kristinna manna.

Má ekki segja sem svo að upprisan hafi „gert allt vitlaust“ þarna í fornöld og sér ekki fyrir endann á?

Mörg furðan

Og í samhengi þessarar miklu hátíðar verður að segja að sitthvað var einmitt öfugsnúið við þá sigurgöngu sem þarna var í burðarliðnum. Í myrkri þjáningar og ósigurs á krossinum var þessi litli hópur fylgjenda Krists skelkaður og vonlaus. Það skyldi engan undra. Enginn hafði kosið þessi örlög eða þessar lyktir. 

Herra þeirra hafði vissulega ítrekað gert allt vitlaust í boðun sinni og störfum. Hann hóf upp hin jaðarsettu en gagnrýndi valdhafa. Við síðustu kvöldmáltíðina sagði hann brauðið vera hold sitt og vínið í kaleiknum blóð sitt. Og bauð þeim að neyta. Jafnvel enn furðulegra var þegar herrann sjálfur kraup niður og þvoði fætur lærisveina sinna og sagði sig ekki vera kominn til að láta þjóna sér heldur til að vera þjónað.

En þarna var eins og allt væri unnið fyrir gýg. Hvað beið þeirra? í besta falli hafa þeir séð fyrir sér að hverfa inn í þokumistur sögunnar, verða nafnlausir og týndir eins og nánast öll þau sem hafa gengið um þessa jörð. Í versta falli yrðu þeir ofsóttir og hundeltir – sem fylgjendur hins sigraða uppreisnarmanns. 

Endurskoðun og endurmat

Páskarnir eru hátíðin þar sem þessi ótti reyndist einmitt vera óþarfur – vitlaus getum við sagt. Upp frá þessu stigu þeir fram af djörfung og sögðu sögurnar sem við eigum nú í Nýja testamentinu. Þessar sögur breyttu lífi fólks og gangi sögunnar. 

Og frásögnin geymir fleiri furður sem áttu eftir að kalla á endurskoðun og endurmat á því sem áður þótti sjálfsagt og rétt. Upprisufrásögnin er í raun ferðasaga og þar eru konur í aðalhlutverki. Jú, vissulega átti hlutur kvenna eftir að vera lengst af óásættanlegur í kristnum þjóðfélögum sem og flestum öðrum hér forðum og víða er svo enn. Engu að síður er sú staðreynd að í þessum þáttaskilum skuli sjónum vera beint að konunum allrar athygli verð. Við getum jafnvel sagt í anda þessarar árstíðar að þar hafi fræi verið sáð sem átti síðar eftir að spíra, vaxa upp úr sverðinum til hærri hæða.

Jafnréttistal á 16. öld?

Því það er hlutverk kristinna kennimanna og presta að flytja þau boð sem við sögðum hér í upphafi: „Kristur er upprisinn“. Og þá eru þessar konur þau fyrstu sem fengu það verkefni. Við eigum texta frá kristnum höfundum á ýmsum skeiðum sögunnar sem staldra einmitt við þessa straðreynd. Ein slík bók kom út í íslenskri þýðingu Odds Gottskálkssonar í aðdraganda siðaskiptanna hér á Íslandi 1546 nánar tiltekið. Höfundurinn Antonio Corvinus var einn af samstarfsmönnum Lúthers og hann vekur einmitt athygli á þessari mögnuðu staðreynd. Bókin var safn predikana sem prestar gátu stuðst við þegar þeir unnu sínar stólræður í anda hins nýja siðar.

Íslendingar sem sátu á kirkjubekk á 16. öld á þessari helgu hátíð hafa því mögulega fengið að hlýða á boðskapinn um hinar skelkuðu konur sem fyrstar tóku að sér hlutverk kristins predikara. Hvernig hefur það hljómað í eyrum fólks á þeim tíma – var ekki betra að orna sér við orð Páls postula um að konur ættu að þegja á samkundum? eða hafði sá hinn sami sagt að hvorki kynþáttur, stétt né heldur kyn skipti máli þegar við stæðum frammi fyrir því undri sem upprisa Jesú Krists frá dauðum er?

Nei, upprisan átti eftir að snúa við hefðbundnum gildum og þótt klakabönd hefðar og ríkjandi hagfræði hafi löngum falið sprotana þá áttu þeir um síðir eftir að vaxa upp og skapa aðstæður fyrir frekari grósku. 

Þrælauppreisn

Kirkjan átti til að mynda eftir að beina boðskap sínum að valdhöfum sem fóru fram með yfirgangi og ofbeldi í héruðum sínum. Erindið var að koma böndum á eitraða karlmennskuna – hugsjónin um hinn göfuga riddara varð til. Aflsmunur var ekki lengur hin æðsta dygð heldur miskunnsemi og alúð. Já, þarna var brýnt fyrir rustamennum að sýna tillitsemi. 

Þýski heimspekingurinn Friðrik Nietzsche kallaði þetta uppreisn þrælanna sem hefðu brotið öll lögmál náttúru og eðlis með því að kalla það slæmt sem væri með réttu gott og öflugt. Og það gott sem var vanmáttugt. Já, gerðu þeir ekki allt vitlaust með þessum hætti? 

Sannarlega, því fyrirmyndina höfðu þeir hjá Jesú sem einmitt sýndi þeim líkn sem voru vanmáttugir. Að baki bjó sú afstaða að hvert og eitt værum við dýrmæt og ættum skilin ákveðin grundvallarréttindi. Sama hugsun átti síðar eftir að birtast í stjórnarskrám hinna fyrstu lýðræðisríkja og í baráttu kristinna safnaða gegn þrælahaldi og öðru misrétti.

Ég fæ ekki betur séð en að sú bylgja sem nú gengur yfir þar sem konur kalla á breytingar í samskiptum kynjanna og láta ekki bjóða sér ofbeldi og yfirgang – eigi margt skylt við þessa boðun kirkjunnar í gegnum aldirnar. 

Að gera allt vitlaust

Upprisan breytir myrkri í birtu, sorg í fögnuð, fyllir dapra hugi von og undirokaðir eru minntir á verðmæti sitt og gildi. Við sem sem ganga fram með þennan boðskap á vörum erum öll fagnaðarboðar.

Og upprisuhátíð kristinna manna átti sannarlega eftir að gera allt vitlaust. Krossinn er ekki hinn algeri ósigur. Dauðinn er ekki lengur inn endanlegi dómur. Dauðinn dó en lífið lifði. Kristur eru upprisinn.