Sálmabók

196. Vel þér ei hin æðstu sæti

1 Vel þér ei hin æðstu sæti
einhver þegar býður þér.
Stunda hjartans lítillæti,
lausnarinn svo gjörði hér.
Hann sem öllum æðri var
eigi hirti' um virðingar.
Hann af börnum heims var smáður,
himins Drottinn þó sem áður.

2 Vel þér ei hin æðstu sæti,
oft er margur fremri þér
og þótt hér þín oft ei gæti
átt þú víst að Guð þig sér.
Hann þig lítur ætíð á,
ekkert dyljast honum má.
Hér þótt nafn þitt heimi gleymist
himnum á það sífellt geymist.

3 Vel þér ei hin æðstu sæti,
ei er betra' að komast hátt.
Virðing heims er völt á fæti,
visnar skjótt og hverfur brátt.
Leita Drottins dýrðar hér,
Drottinn Guð þá segir þér:
„Vinur, þoka þér upp betur.“
Þig við dýrðarhástól setur.

T Valdimar Briem – Sb. 1886
L Johann B. König, 1738 – Ssb. 1936
Der am Kreuz ist meine Liebe / Sei mir tausendmal gegrüßet
Sálmar með sama lagi 426 544
Biblíutilvísun Lúk. 14.7–11

Deila sálmi

Ábendingar til sálmabókarnefndar má senda á salmabok@kirkjan.is