Sálmabók

754. Ég fel mig þinni föðurnáð

1 Ég fel mig þinni föðurnáð,
minn faðir elskulegi,
mitt líf og eign og allt mitt ráð
og alla mína vegi.
Þú ræður öllu' og ræður vel
af ríkdóm gæsku þinnar.
Þín stjórn nær jafnt um himins hvel
og hjólið auðnu minnar.

2 Ég fel mig þinni föðurhönd
í freistinganna þrautum.
Mitt styð þú hold og styrk þú önd
og stýr af háskabrautum.
Þótt búi' eg yst við íshafs skaut
ég er í skjóli þínu.
Þú stýrir himinhnatta braut
og hverju feti mínu.

3 Ég fel mig þínum föðurarm
er fast mig sorgir mæða.
Þú einn kannt sefa hulinn harm
og hjartans undir græða.
Hið minnsta duft í mold þú sérð
og mælir brautir stjarna,
þú telur himintungla mergð
og tárin þinna barna.

4 Ég fel mig þinni föðurhlíf
er fer ég burt úr heimi
en meðan enn mér endist líf
mig ávallt náð þín geymi.
Þú ystu takmörk eygir geims
og innstu lífsins parta,
þú telur ár og aldir heims
og æðaslög míns hjarta.

T Valdimar Briem – Sb. 1886
L Andreas P. Berggreen 1844 – Sb. 1871
Naturen holder pinsefest
Sálmar með sama lagi 177 234
Tilvísun í annað lag 244
Eldra númer 33
Eldra númer útskýring T

Deila sálmi

Ábendingar til sálmabókarnefndar má senda á salmabok@kirkjan.is