Í baráttunni

Í baráttunni

„Ég held að ég tali fyrir munn flestra, að í daglegu lífi hugsum við lítið um óvininn, Satan, og setjum hann ekki í samband við daglegt líf okkar…. Í guðspjalli dagsins segir frá viðbrögðum lærisveinanna. Svo koma þeir blaðskellandi og í skýjunum yfir því sem þeir fengu að upplifa…. Kristin trú gerir ráð fyrir því að Guð sé skapari alls. Þess vegna gerir trúin ekki ráð fyrir, að hið illa hafi jafnt vald og Guð. Illskan er hluti af hinni föllnu veröld og Guð hefur sett illskunni mörk. Þegar Jesús segist hafa séð Satan hrapa af himni sem eldingu, er hann að vísa til þeirra hugmynda, að vald Satans sé ekki meira en eins af föllnu englunum…. Hreykjum okkur ekki upp og treystum ekki eigin kröftum í baráttunni við lesti og hugarangur. Verum frekar auðmjúk og játum þörf okkar. Við vitum að þrátt fyrir ófullkomleika eru í okkur öll þau góðu gildi og dyggðir, sem við eigum að byggja á, þroska og æfa. Gerum það með hjálp Heilags anda í bæn og af auðmýkt. En umfram allt gerum við það með Jesú okkur við hönd.“

Í lífinu tökumst við á við ýmsar áskoranir og vandamál. Þau eru bæði tengd fjölskyldunni og lífinu utan heimilis, hvar svo sem við erum stödd, ung eða gömul. Við köllum það stundum verkefni sem okkur eru fengin til að takast á við. Við sem erum kristin, biðjum Guð um leiðsögn og liðsinni, lækningu og hjálp í hverri raun og glímu. Við áköllum Guð og treystum honum fyrir lífinu öllu.

Ég held að ég tali fyrir munn flestra, að í daglegu lífi hugsum við lítið um óvininn, Satan, og setjum hann ekki í samband við daglegt líf okkar. Illskan og verk hins illa er ekki nærri. Okkur er með öðrum orðum ekki tamt að blanda óvininum í okkar mál. Að því leyti erum við víðs fjarri hugsunarhætti og heimsmynd miðaldamanna, sem sáu verk og klær hins illa í hverju horni.

Aftur á móti er okkur tamara að ræða um glímu okkar við galla og jafnvel ýmsa lesti. Sjálfshjálparbækur svo tugum skiptir vitna um það. Í dag er sjónum okkar beint að nokkrum hlutum sem mig langar til að ræða.

Öfund er okkur mönnunum sammerkt. Fáir sleppa við að finna fyrir henni, en ávalt eru þau til sem vinna bug á henni. Við horfum hvert á annað og berum okkur saman.

Í Orðskviðum Salómons (14.30) segir:

Hugarró er líkamanum líf 
en 
öfund er eitur í beinum hans.

Það er því afar mikilvægt að vinna gegn öfund í eigin lífi. Ef við gefum öfundinni rótfestu fer af stað vöxtur, sem erfitt getur verið að ráða við. Öfund er nefnilega eins og þungun. Hún má ekki fá að vaxa innra með nokkrum manni.

Kain leyfði öfundinni að hreiðra um sig og hún óx innra með honum eins og segir í Jakobsbréfi (1.13-15): "13 Enginn má segja er hann verður fyrir freistingu: „Guð freistar mín.“ Hið illa getur eigi freistað Guðs og sjálfur freistar hann einskis manns. 14 Það er eigin girnd sem freistar sérhvers manns og dregur hann og tælir. 15 Þegar girndin síðan er orðin þunguð elur hún synd og þegar syndin er orðin fullþroskuð leiðir hún til dauða."

Hann drap Abel bróður sinn. Samt sagði Drottinn við hann: : „Hví reiðist þú og ert þungur á brún? 7 Er ekki svo að þú getur verið upplitsdjarfur ef þú gerir rétt, en gerir þú rangt þá liggur syndin við dyrnar? Hún girnist þig en þú getur sigrast á henni.“

----

Í guðspjalli dagsins segir frá viðbrögðum lærisveinanna. Þeir voru 72 og sendir til allra þeirra borga og staða sem Jesús ætlaði að heimsækja síðar. Svo koma þeir blaðskellandi og í skýjunum yfir því sem þeir fengu að upplifa. Þeir áttu að prédika að Guðs ríki væri í nánd og lækna sjúka. Það gerðu þeir. En það sem þeim þótti merkilegast og hafði greinilega dýpstu áhrif á þá var, að illu andarnir hlýddu þeim þegar þeir töluðu í Jesú nafni.

Svar Jesú er merkilegt: „Ég sá Satan hrapa af himni sem eldingu. Ég hef gefið yður vald að stíga á höggorma og sporðdreka og yfir öllu óvinarins veldi. Alls ekkert mun gera yður mein." 

Þetta svar gefur okkur tilefni til að íhuga veldi hins illa og vanda illskunnar.

Kristin trú gerir ráð fyrir því að Guð sé skapari alls. Þess vegna gerir trúin ekki ráð fyrir, að hið illa hafi jafnt vald og Guð. Illskan er hluti af hinni föllnu veröld og Guð hefur sett illskunni mörk. Þegar Jesús segist hafa séð Satan hrapa af himni sem eldingu, er hann að vísa til þeirra hugmynda, að vald Satans sé ekki meira en eins af föllnu englunum. Einnig að á ákveðinni stundu mun vald hins illa vera á enda. Hér má vitna til orða Jesú: "Höfðingja þessa heims mun út kastað." Og á hann þá við að óvininum (Satan) verður úthýst úr þessum heimi. Þess vegna segir Jesús við lærisveinana að hann hafi gefið þeim vald til að stíga á höggorma og sporðdreka. Höggormar og sporðdrekar voru myndir af óvinum Guðs. Í frásögninni af falli Adams og Evu í aldingarðinum Eden kemur freistarinn, djöfullinn, í líki höggorms. Hann tældi Adam og Evu til að óhlýðnast Guði.

Jesús segir að Satan sé faðir lyginnar. Þess vegna er svo mikilvægt að átta sig á því að hann á alls ekki neitt af því, sem hann ætlaði að gefa Jesú er hann tók hann með sér upp á hátt fjall og sýndi honum öll ríki veraldar. Við munum hvað hann sagði: "Allt þetta mun ég gefa þér, ef þú fellur fram og tilbiður mig." Hann átti alls ekki neitt ríki, en lét sem hann ætti þau. Ekki frekar en ef ég kæmi heim tíl þín og horfði í kringum mig og segði svo: "Ég ætla að gefa þér tölvuna, sjónvarpið og bílinn." Ég á þetta ekki og því væri það marklaust. Það sem óvinurinn gerir er að hann freistar og lýgur. Þess vegna biðjum við í Faðir vorinu: "Eigi leið þú oss í freistni, heldur frelsa oss frá illu." Það sem óvinurinn gerir er að hann blekkir og ýtir undir græðgi, öfund og alls konar lesti.

Ég gæti haldið áfram, en vil einnig nefna að óvinurinn sáir í huga okkar efasemdum um okkur sjálf. Það má því segja að allar hugsanir sem draga úr góðri og heilbrigðri sjálfsmynd, séu frá óvininum. Það sama gildir um þau sem taka þátt í að brjóta niður aðra einstaklinga með einelti eða ofbeldi í hvaða mynd sem er. Þau brjóta niður og rífa niður í stað þess að byggja upp. Þau taka þátt í að stela, slátra og eyða eins og óvinurinn.

--- 

Ein af stóru stundunum í lífi Símonar Péturs var þegar hann afneitaði Jesú, er hann fylgdi honum inn í garð æðsta prestsins eftir handtökuna. Jesús var búinn að segja það fyrir, að Pétur myndi afneita honum þrisvar áður en haninn galaði tvisvar. Þar minnir hanagal okkur á að Pétur var veikleikans barn. En vindhanar á kirkjuturnum vitna um að kirkjan starfar eftir upprisuna og að fagnaðarerindið skuli boðað þó að á móti blási. (Augljóst en hulið, bls. 152) Við sungum milli pistils og guðspjalls: (11. Pssíusálmur)

3

Krossferli að fylgja þínum

fýsir mig, Jesú kær.

Væg þú veikleika mínum,

þó verði eg álengdar fjær.

Þá trú og þol vill þrotna,

þrengir að neyðin vönd,

reis þú við reyrinn brotna

og rétt mér þína hönd.

 

Hér yrkir sr. Hallgrímur svo fjarska vel um þörf okkar. Við skulum nota föstuna og íhuga stöðu okkar sem börn Guðs, því það erum við. Hreykjum okkur ekki upp og treystum ekki eigin kröftum í baráttunni við lesti og hugarangur. Verum frekar auðmjúk og játum þörf okkar.

17

Í veraldar vonskusolli

velkist ég, Jesú, hér.

Falli það oft mér olli,

óstöðugt holdið er.

Megnar ei móti að standa

mín hreysti náttúrlig.

Láttu þitt ljós og anda

leiða og styrkja mig.

Hallgrímur Pétursson orðar bæn um náð og fyrirgefningu í okkar stað er við höfum fallið: (12. Pssíusálmur)

27

Ó, Jesú, að mér snú

ásjónu þinni.

Sjá þú mig særðan nú

á sálu minni.

28

Þegar ég hrasa hér,

hvað mjög oft sannast,

bentu í miskunn mér,

svo megi eg við kannast.

29

Oft lít ég upp til þín

augum grátandi.

Líttu því ljúft til mín,

svo leysist vandi.

 

Góð systkin. Samviskan kvelur okkur, lögmálið lemur okkur, óvinurinn, Satan, lýgur að okkur, en orð Guðs segir eitt sannleikann.

Við vitum að þrátt fyrir ófullkomleika eru í okkur öll þau góðu gildi og dyggðir, sem við eigum að byggja á, þroska og æfa. Gerum það með hjálp Heilags anda í bæn og af auðmýkt.

En umfram allt gerum við það með Jesú okkur við hönd. Hann er okkar æðsti prestur sem farið hefur í gegnum himnana.

Göngum því með djörfung að hásæti Guðs náðar. Þar finnum við miskunn og náð þegar við erum hjálparþurfi. Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen. 

Textarnir eru samkvæmt þriðju textaröð Handbókar kirkjunnar.
Lexían stendur skrifuð í Fyrstu Mósebók 4. kafla:              (1 M 4.3-7)
3 Einhverju sinni færði Kain Drottni fórn af ávexti jarðarinnar. 4 Abel færði einnig fórn af frumburðum hjarðar sinnar og feiti þeirra. Drottinn gaf gaum að Abel og fórn hans 5 en leit ekki við Kain og fórn hans. Þá reiddist Kain mjög og varð þungur á brún. 6 Drottinn sagði við Kain: „Hví reiðist þú og ert þungur á brún? 7 Er ekki svo að þú getur verið upplitsdjarfur ef þú gerir rétt, en gerir þú rangt þá liggur syndin við dyrnar? Hún girnist þig en þú getur sigrast á henni.“

Pistilinn stendur skrifaður í Hebreabréfinu 4. kafla: (Heb 4.14-16)
14 Er við þá höfum mikinn æðsta prest, sem farið hefur í gegnum himnana, Jesú Guðs son, skulum við halda fast við játninguna. 15 Ekki höfum við þann æðsta prest er eigi geti séð aumur á veikleika okkar heldur þann sem freistað var á allan hátt eins og okkar en án syndar. 16 Göngum því með djörfung að hásæti Guðs náðar. Þar finnum við miskunn og náð þegar við erum hjálparþurfi.

Guðspjall: Lúk 10.17-20
Nú komu þeir sjötíu og tveir aftur með fögnuði og sögðu: „Drottinn, jafnvel illir andar hlýða okkur þegar við tölum í þínu nafni.“
En Jesús mælti við þá: „Ég sá Satan hrapa af himni sem eldingu. Ég hef gefið yður vald að stíga á höggorma og sporðdreka og yfir öllu óvinarins veldi. Alls ekkert mun gera yður mein. Gleðjist samt ekki af því að illu andarnir hlýða yður, gleðjist öllu heldur af hinu að nöfn yðar eru skráð í himnunum.“