Að vera öðrum blessun

Að vera öðrum blessun

Sá ættbálkur fékk það hlutverk að vera öðrum blessun. Vera öðrum, þ.e.a.s. þeim sem fyrir utan ættbálkinn stóðu, til gæfu. Þetta var gríðarlega róttæk hugmynd, svo róttæk að hún breytti heiminum.

Biðjum:


Vort hjarta sé musteri heilagt það

er Herrann í bústað eigi

og hvenær sem leitum honum að

þar hann ætíð finna megi

svo viskan og náð þar verði sáð

er vaxi með hverjum degi. Amen. (Sl. 81:3)

 

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

 

Gleðilegt nýtt ár, kæri söfnuður, kæru vinir. Gleðilegt nýtt ár.

 

Páskarnir og jólin

 

Við sjáum að jólatextarnir margir eru frásagnir um Jesú á páskum líkt og guðspjallatexti dagsins. Páskar og jól halda saman því þessar stórhátíðir tvær miðla báðar hógværð, mildi og auðmýkt.

 

Jesús fæddist inn í þennan heim í umhverfi fátæktar og skorts, en ekki allsnægtar og ríkidæmis. Hann gekk veg fórnfýsis og gæsku. Hann opinberaði okkur mikil sannindi um eðli heimsins þar sem þeir síðustu verða fyrsti og hinir fyrstu síðastir. Um að leiðin að upprisu liggur í gegnum það að játa sig sigraðan, líkt og hann gerði á Golgata á páskum er hann var saklaus, drepinn, en reis síðan til lífs á páskadagsmorgni. Jólin og páskarnir halda því saman og miðla lífi, miðla lífsins sannindum.

 

Þessar frásagnir miðla ekki aðeins sögulegum sannindum um ævisögu Jesú. Þær miðla mikilvægum sannindum um eðli heimsins og hvernig lífið virkar í raun.

 

Hvernig lífið virkar í raun opinberast svo í framgöngu okkar í lífinu. Eitt mikilvægasta verkefni okkar hvers og eins er að leggja okkur fram um að setja okkur í annarra spor. Hlusta hvert á annað, taka tillit, bera virðingu hvert fyrir öðru, biðja fyrir hvert öðru.

 

Setja sig í annarra spor

 

Því í raun og veru eru verkefni okkar hér í heimi einföld, en þau eru fólgin í því er við mætum hvert öðru í gleði og alvöru og tökum þátt í lífinu hvert með öðru. Þar miðlum við öll bæði visku og blessun, huggun og styrk, því einnig við eigum að vera hvert öðru og samferðarfólki okkar til gæfu. En einmitt þar er það Guðs kærleikur sem mætir okkur, þegar við vöknum á hverjum morgni og við blasa nýir möguleikar og ný tækifæri til að verða öðrum til gagns, þótt það sé jafnvel ýmislegt í okkar eigin lífi sem er erfitt og sárt.   

 

Að vera öðrum blessun er verkefni hvers manns. Hvaðan er þetta hugtak komið, blessun?

 

Blessunarorðin

 

Blessunarorðin eru Mósebókum. Þar segir frá því er Drottinn talaði til Móse og sagði honum að miðla eftirfarandi orðum til Arons og sona hans. Aron var fyrsti presturinn í Gamla testamentinu. Aron og synir hans voru fyrstu prestarnir. Aronsættin var því prestaættin.

 

En blessunarorðin hljóma svo:

 

Drottinn blessi þig og varðveiti þig,
Drottinn láti sína ásjónu lýsa yfir þig og sé þér náðugur,
Drottinn upplyfti sínu augliti yfir þig og gefi þér frið.
Þannig skuluð þið leggja nafn mitt yfir Ísraelsmenn og ég mun blessa þá.

 

„...láti sína ásjónu lýsa yfir þig og sé þér náðugur...“

 

Hvað þýðir þetta eiginlega?

 

Ég heyrði eftirfarandi svar við þeirri spurningu.

 

Ásjónan sem lýsir yfir

 

Í samhengi frásögunnar um synina tvo og föðurinn. Synirnir tveir, þar sem annar sonurinn krafði föður sinn um arfinn, þrátt fyrir að faðirinn væri enn á lífi. Fékk hann, fór út í heim og sólundaði fénu og fann sjálfan sig snauðann og hrakinn að éta svínafóður í fjarlægu landi. Þá ákvað hann að fara heim að nýju.

 

Þið þekkið þessa sögu, er það ekki?

 

Helgisagan segir að þegar sonurinn nálgaðist húsið og æskuheimili sitt og faðirinn sá hann koma, varð faðirinn svo glaður að hann hljóp á móti skömmustulegum syni sínum. Þegar hann sá soninn og kom að honum, lýsti ásjóna föðurins af svo mikilli gleði og væntumþykju yfir því að sonurinn væri á lífi, að sonurinn væri kominn heim, að það birti yfir öllu.

 

Blessunarorðin eru bæn þess efnis að Guð horfi á þann máta við okkur hverju og einu. Staðhæfing þess að einmitt þannig horfi Guð til okkar hvers og eins, með gleði og elsku.

 

Ættbálkurinn - Að vera öðrum blessun

 

Biblían er uppfull af svona frásögum, helgisögum, dæmisögum. Biblían er einnig uppfull af frásögum af ólíkum þjóðum sem herja hver á aðra. Þjóðirnar voru kannski ekki þjóðir í skilningi nútímans, þetta voru frekar ættbálkar sem stóðu vörð um ætt sína, framgang og gengi.

 

Allir tilheyrðu ákveðinni ætt og samhengi. Einstaklingur og einstaklingshyggja var ekki til í sama mæli og nútíminn þekkir.

 

Ef þú tilheyrðir ekki einhverjum ættbálk, á þessum tíma, þá gastu varla verið til. Ættbálkurinn var öryggi þitt og við ættbálkinn lofaðir þú tryggð. Fyrir ættbálkinn barðist þú og þar lá allur þinn trúnaður. Því allir áttu lífsafkomu sína undir því að ættbálkurinn héldist saman og héldi velli. Þú lagðir líf þitt að veði fyrir ættbálkinn.  

 

Aðrir fyrir utan þinn ættbálk voru því andstæðingar þínir. Aðrir voru ógn.

 

Svona var staðan í mörg þúsund ár.

 

En svo varð róttæk breyting.

 

Ættbálkur einn fékk nýtt hlutverk. Hvaða hlutverk fékk ættbálkurinn sem Drottinn kallaði og blessaði?

 

Vitið þið það?

 

Sá ættbálkur fékk það hlutverk að vera öðrum blessun. Vera öðrum, þ.e.a.s. þeim sem fyrir utan ættbálkinn stóðu, til gæfu.

 

Það voru allir þeir sem fyrir utan stóðu, sem áður og kannski enn, voru ógn og þú hafðir kannski staðið í deilum við, kannski stríði. Nú áttir þú að hafa frumkvæði að því að vera öðrum, þeim öllum, til blessunar, reynast þeim vel.

 

Róttæk hugmynd

 

Þetta var gríðarlega róttæk hugmynd. Þetta var svo róttæk hugmynd að hún breytti heiminum. Við sjáum það síðan á síðum Biblíunnar hvernig ættbálknum, þjóðinni, gengur í þessu nýja hlutverki sínu. Þeim gengur þetta vitanlega misvel.

 

Þetta sama hlutverk hafa öll stærstu trúarbrögð heimsins í dag. Þ.e.a.s. að vera öðrum blessun. Múslimar, gyðingar og kristnir eiga Abraham, Ísak og Jakob að forfeðrum. Þessir sameiginlegu forfeður trúarbragðanna stóru, fengu einmitt þetta sama hlutverk. Að vera öðrum blessun.

 

Hvernig gengur okkur þetta verkefni í dag? Vitanlega misvel. En þetta er enn þá köllun hins kristna manns, þetta er einnig verkefni gyðingsins og múslimans.


Utan okkar hóps

 

Við upphaf nýs árs er það okkar verkefni að stilla þessa strengi upp á nýtt. Setja okkur í annarra spor og sjá hvernig við getum bætt heiminn enn frekar.

 

Slíkt hefjum við í eigin ranni. Slíkt hefjum við á okkur sjálfum. Heimurinn breytist ekki til góðs ef við ætlumst aðeins til þess að aðrir breyti sér, aðrir taki tillit, aðrir setji sig í annarra spor. Það er okkar verkefni, það er mitt verkefni, það er verkefni okkar hvers og eins, að vera öðrum blessun.

 

Ekki ein

 

Svo er það hin undarlega staðreynt að í þessu verkefni erum við ekki ein. Guð er til. Og Guð er ekki bara til, heldur lætur sig varða um sérhvern mann. Og lætur sig ekki aðeins varða, heldur gengur með okkur lífsveginn, líkt og herra Sigurbjörn heitinn Einarsson biskup orðaði svo vel í einum af nýju sálmum nýrrar sálmabókar, er hann segir á svo myndrænan máta:  

 

Mig dreymdi mikinn draum: Ég stóð  

með Drottni háum tindi á  

og horfði yfir lífs míns leið,  

hann lét mig hvert mitt fótspor sjá.  

  

Þau blöstu við. Þá brosti hann.  

Mitt barn, hann mælti, sérðu þar,  

ég gekk með þér og gætti þín,  

í gleði og sorg ég hjá þér var.  

  

Þá sá ég fótspor frelsarans  

svo fast við mín á langri braut.  

Nú gat ég séð hvað var mín vörn  

í voða, freistni, raun og þraut.  

  

En annað sá ég síðan brátt:  

Á sumum stöðum blasti við  

að sporin voru aðeins ein.  

Gekk enginn þá við mína hlið?  

  

Hann las minn hug. Hann leit til mín  

og lét mig horfa í augu sér:  

Þá varstu sjúkur, blessað barn,  

þá bar ég þig á herðum mér.  

  

Stundum er það einmitt þannig að þegar við horfum til baka og sjáum tímabilin, árin að baki, og stundirnar þar sem skóinn hefur kreppt í lífinu, út af sorg eða öðrum áföllum, þá skiljum við kannski ekki endilega hvernig við komumst áfram lífsveginn. Þá er það kannski einhver stærri kraftur, sem var þar með okkur í verki.  

 

Megi sá kærleikans kraftur fylgja þér á nýju ári. Megi sá kærleikans kraftur efla þig og styrkja, auka þér þor og hugrekki, veita þér allt sem þú þarfnast til að lifa lífinu í fullri gnægð nú frá nýársdegi og árið á enda.

 

Nýtt ár 2023

 

Matthías Jochumsson segir í sálmi 74 í sálmbókinni:

 

Í hendi Guðs er hver ein tíð,

í hendi Guðs er allt vort stríð,

hið minnsta happ, hið mesta fár,

hið mikla djúp, hið litla tár.

 

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.


Ég vil nota tækifærið hér til að þakka félögum í Kammerkór Bústaðakirkju, kantór, messuþjónum, sóknarnefnd og samstarfsfólki ánægjulegt samstarf á árinu sem liðið er. 


Einnig vil ég benda á nýtt og efnismikið blað Hins íslenska biblíufélags sem nálgast má hér frammi að athöfn lokinni, ásamt lestrarskrá.

Takið postullegri kveðju: Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé og veri með yður öllum. Amen.


Prédikun flutt í hátíðarguðsþjónustu á nýársdag 2023 í Bústaðakirkju.