Elska, öryggi og gæfa, athvarf

Elska, öryggi og gæfa, athvarf

Eitt er að umbera, annað að umvefja. Það er hlutverk okkar að umvefja hvert annað. Þegar samfélagið sýnir slíka eiginlega verða ávextir andans raunverulegir.

Jer. 23:16-22

Róm. 8: 12-17

Matt. 7:15-23


Biðjum:


Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.


Nýju fötin keisarans


Textar Jeremía spámanns eru með uppáhaldstextunum mínum í Biblíunni. Hann er eitthvað svo mannlegur, eðlilegur, með fæturna á jörðinni. Hann getur einnig verið mjög krefjandi, orðar hlutina beint út, segir hlutina upphátt, þó svo sumt og margt sé óþægilegt að heyra. 


Átt þú þér einhvern uppáhalds texta í Biblíunni?

Átt þú þér eitthvert uppáhalds rit?


Davíðssálmar, sæluboðin, fjallræðan, sköpunarsagan, kærleiksóðurinn. Það er af nógu að taka af fallegum og uppbyggilegum textum frá ýmsum tímum. Erfitt getur reynst að velja eitthvað uppáhald. 


Jeremía er einn af spámönnum Gamla testamentisins. Samt segir hann fyrir munn Drottins:

Hlustið ekki á orð spámannanna. 


Í niðurlagi þessa langa og harða texta segir hann hins vegar fyrir munn Drottins:

Hefðu þeir verið í ráði mínu, þá hefðu þeir boðað þjóð minni orð mín og snúið henni frá villu síns vegar og vondri breytni. 


Spámaðurinn varar áheyrendur sína og lesendur við því að fara einungis eftir hyggindum og ráðum manna. Ef Guð er Guð, þá hefur Guð allt í hendi sér. 


Spámaðurinn er líkur barninu sem sagði um keisarann að verið væri að blekkja alla með því að halda fram að keisarinn væri í nýjum fötum, því keisarinn var ekki í neinum fötum. 


Spámaðurinn bendir á að allir menn ganga í gegnum erfiðleika og áskoranir. Hann varar við þeim „spámönnum“ sem taka sér það vald að segja að einhver sleppi við alla ógæfu, eða að annar verði farsæll og muni njóta velgengni. 


Hvers er að dæma um það?


Öryggi og gæfa


Að boða þjóðinni orð mín, segir spámaðurinn fyrir munn Drottins. Hvaða orð eru það?


Þekkir þú hvaða orð spámaðurinn er að vísa til?


Hver eru orð Drottins? Á þessum tíma voru það rit Gamla testamentisins, lögmálið og Mósebækurnar, fyrst og fremst. 


Spámaðurinn er að vísa til lögmálsins:

Elska skaltu Drottinn Guð þinn af öllu hjarta þínu… 


og kannski spekiritanna:

En sá sem hlýðir á mig mun búa óhultur og öruggur

og engri ógæfu kvíða


og líklega sálmanna. 

Drottinn þú hefur verið oss athvarf frá kyni til kyns…


Elska, öryggi og gæfa, athvarf. 


Stundum hefur verið sagt að Guðsmynd Gamla testamentisins sé slík að þar birtist dæmandi Guð og grimmur. En dæmin sem ég tók hér eru einmitt af Guði Gamla testamentisins, þar sem rauði þráðurinn er elska, öryggi og gæfa, athvarf. 


Þrátt fyrir erfiðleika og áskoranir lífsins, og einmitt kannski vegna þess hvernig lífið er, þá er það boðskapur Biblíunnar: Elska, öryggi og gæfa, athvarf. 


Slíkt er ætlað þér, og mér, öllum sem vilja tileinka sér þann veg sem þar er varðaður.


Mannsandinn


Gagnvart hinum huldu kröftum tilverunnar þá virðist stutt í þá hugsun og spurningu hjá okkur mönnunum, hvort þeir kraftar séu okkur hliðhollir eður ei. Þegar eitthvað slæmt gerist hjá manni, eru þá þessir huldu kraftar að refsa mér fyrir eitthvað sem ég gerði? 


Sú spurning er mjög mannleg og heyri ég hana ítrekað frá fólki sem hefur misst eða glímir við alvarlega sjúkdóma. Svo þekki ég þessar vangaveltur af eigin raun.


Þekkið þið slíkar vangaveltur?


Auðvitað er ákveðið samhengi, orsakir og afleiðingar, varðandi alla hluti. En þessi grundvallar hugsun og kannski óvissa um Guð, hvort alheimsmátturinn sé með okkur eða á móti, virðist eins og skráð inn í okkar DNA.

Einmitt þess vegna virðist það mikilvægt að reynslu kynslóðanna sé miðlað um hinn alltumlykjandi kærleika Guðs. 


Andsvar


Hvert er þitt andsvar við slíkum boðskap? Hver eru viðbrögð okkar við því að kynslóðirnar bera okkur boðskap um elsku Guðs til allra manna, öryggi og gæfu, athvarf?


Í heimi þar sem jarðskjálftar og eldgos eru okkar sameiginlega reynsla, náttúruhamfarir og slíkar ógnir. Í heimi þar sem gelt er á fólk út á götu af því að kynhneigð þess er á einhvern veginn. Í heimi þar sem áhrifafólk talar um ákveðna þjóðfélagshópa eins og ekki megi verða fleiri í þeim hópi í okkar samfélagi, það þurfi að setja kvóta.


Þá þarf andsvar okkar að vera skýrt og ákveðið. Við þurfum að taka afstöðu, megum ekki sitja hjá. Guð kallar okkur til að vera manneskjur með skoðanir og vilja, til að taka ábyrgð. Við þurfum að taka okkar ábyrgð í samfélaginu, vera sem hendur Guðs, orð og verk í okkar nánasta umhverfi og samfélagi. 


Það er ekki í boði að útskúfa. Það er ekki í boði að smætta mennsku einhvers. Við þurfum að standa saman gagnvart náttúruöflunum, stíga þá öldu í sameiningu og undirbúa okkur, verja byggðir, innviði og líf. Ekki má gefa neinn afslátt af því á Suðurnesjunum þar sem jörð hefur skolfið undanfarnar vikur, mánuði og jafnvel ár og eldgos er nú hafið á ný. 


Vilji föður míns


Í guðspjalli Mattheusar sem lesið var úr hér áðan er talað um vilja „föður míns sem er á himnum.“ Það er Jesús sem talar og er þetta hluti fjallræðunnar, sem líklega er frægasta ræða heims, fyrr og síðar. 


En hver er vilji föðurins sem er á himnum?

Hver telur þú að vilji Guðs sé?


Ekki ætla ég að tala hér það kokhraustur að ég haldi að ég viti lokasvarið við þeirri spurningu. En ég tel að mildin, kærleikurinn, elskan, góðmennskan, réttlætið og sannleikurinn, séu einkenni á vilja Guðs. 


Ég tel að Guð elski alla menn eins og þeir eru og vilji styðja og leiða, þá sem vilja njóta nærveru hans og leiðsagnar. 


Hvað heldur þú?


Ávextir


Jesús bendir einfaldlega á og segir: „Af ávöxtunum skulu þér þekkja þá!“

Hvernig er það eiginlega, eftir 2000 ár af kristinni íhugun, þar sem kirkja Krists í heiminum hefur verið að hlýða á, íhuga og biðja í Jesú nafni, að okkur, kirkjunni, hefur í raun tekist að forðast að mestu allt það sem Jesús kenndi?

Ávextir af slíku eru ekki góðir.

Þegar ég segi þetta þá er ég ekki bara að benda út loftið, ég er fyrst og fremst að líta í eigin barm. 


Kristnin hefur verið svo mikið á yfirborðinu. Flestum hefur tekist að horfa fram hjá kjarna atriðum fjallræðunnar, sæluboðunum, varnarorðum Jesú að dýrka ekki mammon, skýru dæmisögunum um að lifa lífinu í friði og vinna gegn ofbeldi, boðinu um að elska náungann og einnig óvininn, sem kannski er augljósasta dæmið um það að kirkjan hefur sniðgengið kjarnann í boðskapnum. Jesús hefur líklega alltaf verið aðeins of ögrandi fyrir okkur, mannfólkið. Hann var líka krossfestur.


Í raun má segja, ef Jesús talaði aldrei um það, þá hefur kirkjan, þá meina ég kirkjan í hinu stóra samhengi, heiminum öllum, mótmælendur, kaþólikkar, orthodoxar, hvítasunnumenn og hvað allar þessar deildir heita, gjarnan varið mestum tíma sínum í að velta sér upp úr því, til dæmis um fóstureyðingar, getnaðarvarnarpillur og samkynhneigð, svo eitthvað sé nefnt. Jesús talaði aldrei um þessi atriði, en kirkjan í heiminum hefur haft stórar meiningar um þetta í gegnum áratugina. 


En ef Jesús sagði eitthvað mjög skýrt um eitthvað ákveðið (til dæmis hina ríku, kameldýrið og nálaraugað), þá er tilhneigingin sú að við setjum þá sögu upp í hillu á fallegan stað og svo gleymum við hvað hún raunverulega merkir. 

Þetta er svo augljóst, maður þarf ekki annað en að líta í eigin barm. 


Nú hafa Hinsegin dagar staðið yfir. Ljóst er að við þurfum öll að skerpa okkur í stuðningnum við mannréttindabaráttu hinsegin samfélagsins. Því barátta þeirra er barátta okkar allra. Barátta þeirra er barátta fyrir fallegri heimi, réttlátara samfélagi, kærleika. Þar sem ávextirnir eru frelsi, ábyrgð, vinátta, virðing, jafnrétti, eining, nýsköpun, og þannig mætti áfram telja. 


Eitt er að umbera, annað að umvefja. Það er hlutverk okkar að umvefja hvert annað. Þegar samfélagið sýnir slíka eiginlega verða ávextir andans raunverulegir. 


Og nú


Í kirkjunni erum við stöðugt að rifja upp frásögur. Hér eru ávallt lesnir þrír textar. Einn úr Gamla testamentinu sem skrifað var löngu fyrir fæðingu Jesú. Einn úr bréfum Páls, eða Péturs eða annarra postula. Svo er það lestur úr einu af fjórum guðspjöllunum. 


Kynslóðirnar völdu þessi rit. Við köllum þau heilög, heilög í þeim skilningi að þau hafa sérstöðu, hafa verið valin til þess að vera notuð í ákveðnu samhengi. Þau eru lesin í samhengi helgihaldsins og litúrgíunnar, þar sem við göngum inn í ákveðið samhengi og andrúmsloft, þar sem nærvera Guðs er gjarnan og iðulega áþreifanleg. Bænir, hugur okkar er hjá Guð, en einnig náunga okkar. 


Þetta samhengi er helgidómur og reynsla okkar allra mikilvæg og dýrmæt. Í þessu samhengi miðlum við okkar bestu frásögum, reynslu kynslóðanna. 


Lífið snýst svo oft um það að miðla áfram góðum frásögum sem við höfum lært og einnig góðum reynslusögum úr okkar eigin lífi. 


Frásögurnar sem Biblían geymir vekja trú, glæða von og miðla kærleika. Þegar við lærum af reynslunni þá getum við einnig miðlað góðum lærdómi áfram öðrum til gagns. 


Þetta er eitt af sameiginlegum verkefnum okkar hér í heimi, það er að miðla áfram góðu frásögunum af mildi og kærleika Guðs og einnig því sem lífið hefur kennt okkur, miðla áfram góðri og uppbyggilegri reynslu. 


Það skulum við gera og þegar við þurfum að leiðrétta okkur, þegar við þurfum að laga eitthvað í eigin fari eða samfélagsins, þá skulum við gera slíkt í sameiningu, því það er auðvitað okkar lífsins verkefni að halda áfram að læra og þroskast til góðs fyrir okkur hvert og eitt og samfélagið allt.


Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen. 


Takið postullegri kveðju: Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé og veri með yður öllum. Amen.


Prédikun flutti í guðsþjónusta 

í Grensáskirkju 8. sd. eftir þrenningarhátíð, 

7. ágúst 2022 kl. 11:00