Friður, kærleikur, trú og von

Friður, kærleikur, trú og von

Það er gaman að skreyta með ljósum og fíneríi, kaupa gjafir og senda kveðjur. En það er enn dýrmætara að huga að því sem býr okkur innst í hjarta.
Mynd
Undursamlegi Guð sem kemur til okkar í syni þínum Jesú Kristi, ekki í valdi og krafti, heldur auðmjúkur og allslaus, ert þó máttugri en allt vald á jörðu. Gef öllum náð til að þekkja þig og taka á móti syni þínum þegar hann kemur svo að nótt okkar verði björt eins og dagur í ljósi hans. Amen. 
Bæn dagsins af kirkjan.is

Á fyrsta sunnudegi í aðventu syngjum við fyrsta versið í aðventusálminum okkar góða sem Lilja S. Kristjánsdóttir þýddi og kveikjum á fyrsta kertinu á aðventukransinum. Þau eiga sín heiti eins og við þekkjum, það fyrsta spádómakertið, annað Betlehemskertið, það þriðja hirðakertið og loks englakertið. Á vísindavefnum má finna þýska sögu um aðventukertin og þar eru nöfnin þeirra önnur. Höfundur hennar er ókunnur en þýðinguna gerði Pétur Björgvin Þorsteinsson. Sagan er á þessa leið:

Það var búið að kveikja á öllum fjórum kertunum á aðventukransinum. Í kringum þau ríkti þögn. Ef einhver hefði verið nálægur þá hefði hann heyrt kertin tala saman.

Fyrsta kertið andvarpaði og sagði: „Ég er friðarkerti. Ljós mitt lýsir en fólkið býr ekki í friði hvert við annað. Fólkinu er alveg sama um mig!“ Ljósið á fyrsta kertinu varð minna og minna þangað til það slokknaði alveg. 

Annað kertið flökti og sagði: „Ég heiti trú. En ég er alveg óþarfi. Fólkinu er alveg sama um Guð, það vill ekkert af honum vita. Það hefur engan tilgang að það sé ljós á mér.“ Krafturinn í kertinu sem nefndi sig trú var þrotinn. Lítill trekkur dugði til. Ljósið slokknaði.

Með lágri, dapurri röddu tók þriðja kertið til máls: „Ég heiti kærleikur. En ég hef enga orku til þess að láta ljós mitt skína. Fólkið er búið að ýta mér til hliðar. Það sér bara sig sjálft og ekki náungann sem þarf á kærleikanum að halda.“ Að þessum orðum mæltum slokknaði á þriðja kertinu.

Lítið barn kom inn í herbergið þar sem aðventukransinn stóð á borðinu. Með tárin í augunum sagði það: „Mér finnst ekki gaman þegar það er slökkt á ykkur.“ Þá svaraði fjórða kertið: „Ekki vera hrætt, kæra barn. Meðan ljós er á mér getum við kveikt á hinum kertunum. Ég heiti von.“ Það var gleðisvipur á andliti barnsins þegar það notaði ljósið af vonarkertinu til þess að kveikja á kærleikskertinu, trúarkertinu og friðarkertinu. Að því loknu sagði barnið eins og við sjálft sig: „Nú geta jólin komið í alvöru.“

Á aðventunni búum við okkur undir komu jólanna. Við gerum það með ýmsum hætti og eigum okkar eigin hefðir. Það er gaman að skreyta með ljósum og fíneríi, kaupa gjafir og senda kveðjur. En það er enn dýrmætara að huga að því sem býr okkur innst í hjarta.

Aðventan er tími eftirvæntingar, Jesús kom og Jesús kemur, Jesús sem er friðarhöfðinginn (Jes 9.5), Jesús sem er höfundur trúar okkar (Heb 12.2), Jesús sem er kærleikur Guðs holdi klæddur (1Jóh 4.8-9), Jesús sem er von okkar (1Tím 1.1.), ljós í heiminn komið (Jóh 1.9). Og á  þessari aðventu sem endranær höfum við sannarlega þörf fyrir öll kertin eða það sem þau standa fyrir.

Eitt af því sem fyrsti sunnudagur minnir okkur á hvert einasta ár er jólasöfnun Hjálparstarfs kirkjunnar. Yfirskrift hennar er Hjálpum þeim og koma valgreiðsluseðlar í heimabankana okkar. Einnig má fara inn á heimasíðuna help.is og finna þar reikningsnúmer og líka gjafakort sem gleðja. Með því að styðja söfnunina eða annað starf til hjálpar náunganum eflum við friðinn innra með okkur og aukum trúna, kærleikann og vonina í eigin brjósti.

Við stuðlum líka að friðsamari heimi með því að leggja okkar af mörkum til þess að draga úr eymd annarra. Aðventan er góður tími til að íhuga á hvern hátt við getum gert það. Látum ljósin okkar loga, ljós friðar, trúar, kærleika og vonar.

Helgistund í Grensáskirkju á fyrsta sunnudegi í aðventu