Góði hirðirinn

Góði hirðirinn

Jesús er með öllum orðum sínum, til lærisveinanna og mannfjöldans og til okkar, að reyna að hafa áhrif ‒til góðs. Og um leið að vara við áhrifum hins illa. Því að það skiptir vitanlega máli hverju er miðlað – það er jú grundvallaratriði alls uppeldis því það lærir barnið sem fyrir því er haft. En fullorðið fólk lærir líka það sem fyrir því er haft, verður fyrir áhrifum af því og tileinkar sér það.
Mynd

Prédikun flutt í útvarpsmessu í Háteigskirkju 1. maí 2022

Lexía: Esk 34.11-16, 31; Pistill: 1Pét 2.21-25; Guðspjall: Jóh 10.11-16

Kórinn söng hér 23. Davíðssálm við nýlegt lag Björns Önundar Arnarssonar.

23. Davíðssálmur er líklega einn þekktasti og ástsælasti sálmur Saltarans. Þar er Guði líkt við góðan hirði sem heldur hjörð sinni til haga. Líklega getur engin starfsstétt samsamað sig þessari mynd líkt og bændur og nú, á gleðidögunum í kjölfar páskahátíðarinnar, ríkir gleði og tilhlökkun í sveitum landsins þar sem sauðburður er annað hvort hafinn eða við það að hefjast. Sú gleðifrétt barst t.a.m. s.l. miðvikudagskvöld austan úr Hruna alla leið á prestastefnu á Laugarbakka að þar hefði ær borið tveimur lömbum, gimbur og hrúti, og fengu þau nöfnin Prestur og Kirkja enda af prestakyni. Megi sú nafngift að spámannlegum hætti reynast spádómur um gróanda og líf í trúar- og kirkjulífi landsins að loknum faraldri.

Það er ekki tilviljun að Jesús Jóhannesarguðspjalls líkir sér við hirði sem leggur líf sitt í sölurnar fyrir sauðina. Með því setur hann fram afar róttæka yfirlýsingu um persónu sína og hlutverk.

Í miðausturlöndum til forna var hirðishlutverkið vel þekkt og útbreidd myndhverfing fyrir hlutverk guða og gyðja sem og hlutverk konunganna sem ríktu í þeirra umboði. Oft má líta á „hirði“ sem samheiti við „konung“ og í raun má segja að í orðinu „hirðir“ kristallist hugmyndir manna um hlutverk og skyldur konunga. Í G.t. má finna allnokkra texta þar sem hlutverki konungsins er lýst með því að nota hirðistitilinn. Þannig segja ættbálkahöfðingjarnir í 2. Samúelsbók við Davíð:

Við erum hold þitt og bein. 2 Áður fyrr, á meðan Sál var konungur okkar, varst það þú sem leiddir Ísrael í hernað og heim aftur. Auk þess hefur Drottinn sagt við þig: Þú skalt vera hirðir þjóðar minnar, Ísraels. Þú skalt vera leiðtogi Ísraels.“

Hlutverk Davíðs sem fyrirmyndarkonungs er undirstrikað í frásögn Samúelsbóka með því, að þegar Samúel kemur til Ísaí, föður hans, að leita að konungsefni meðal sona hans, er Davíð ekki heima við heldur er hann að gæta sauða föður síns. Þannig verður hirðishlutverk hans í heimahögum að táknmynd fyrir komandi hirðishlutverk hans sem konungs. Þannig er konungshlutverk Davíðs einnig túlkað í lok hins mikla sögukvæðis, Sálms 78:

Síðan útvaldi hann þjón sinn, Davíð, / sótti hann í fjárbyrgin.
Hann tók hann frá lambánum / til þess að vera hirðir fyrir Jakob, lýð sinn, og arfleifð sína, Ísrael. / Davíð var hirðir þeirra af heilum hug, / leiddi þá með hygginni hendi.

Með því að líkja sér við hirði gæti Jesús því í aðra röndina verið að lýsa því yfir að hann sé sá messías af ætt Davíðs sem beðið hafði verið eftir líkt og fæðingarfrásögur Matteusar og Lúkasar gera. En líklegast eru skilaboð hans flóknari en svo.

Þegar Jesús líkir sér við góðan hirði, sem leggur líf sitt í sölurnar fyrir sauðina er hann að lýsa mesta mögulega kærleika sem hægt er að hugsa sér en myndin byggir þó á hversdagslegum veruleika og frumskyldu hirða almennt, að verja hjörðina fyrir utanaðkomandi ógn. Það setur Jesús fram með því að bregða upp mynd af úlfi sem vill hremma sauði hjarðarinnar:

Sá sem er leigður og hvorki er hirðir né á sauðina, hann flýr og yfirgefur sauðina þegar hann sér úlfinn koma og úlfurinn hremmir þá og tvístrar þeim. 13 Enda gætir hann sauðanna aðeins fyrir borgun og er ekkert annt um þá.

Líkt og í tilfelli konungsins sem hirðis vísar líking Jesú til þess hlutverks hirðisins að verja hjörðina frá utanaðkomandi ógn og tryggja velferð hennar. Á sama tíma er þó ljóst að notkun Jesú á þessu myndmáli vísar ekki til hirðisins sem konungstitils eða þeirra hugmynda um lagalegt, pólitískt og efnislegt öryggi sem hirðis-konunginum bar að tryggja.

Nær væri að líta til hugmyndarinnar um Guð sem hirði eins og hún birtist t.d. í 23. Davíðssálmi. Sálmurinn birtir mjög persónulega mynd af sambandi hirðisins og þess sem hann gætir, sbr. upphafsversið: „Drottinn er minn hirðir. Mig mun ekkert bresta.“ Mögulega er bókmenntalega fyrirmynd þessa persónulega sjónarhorns að finna í orðum ættföðurins Jakobs í 1Mós 48.15 þegar hann segir um Guð: „sá Guð, sem verið hefur hirðir minn frá barnæsku og allt til þessa dags.“ Hér liggur áherslan, líkt og í Sálmi 23, á hinu eiginlega hlutverki hvers hirðis, að leiða og hugsa um féð og uppfylla grundvallarþarfir þess. Áherslan liggur jafnframt á hinni persónulegu umhyggju Guðs fyrir einstaklingnum sem um ræðir; Guð er sá sem hugar að og uppfyllir persónulegar þarfir hans.

Við sjáum á því sem hér hefur verið sagt að hirðislíkingin er í Gamla testamentinu og hugmyndaheimi þess notuð til að lýsa umhyggju Guðs fyrir sköpun sinni annars vegar og hins vegar umhyggju veraldlegs valdhafa fyrir þegnum sínum, valdhafa sem vissulega fær vald sitt frá guðdómnum. Myndin er sérstaklega skýr og lýsandi í tilfelli konungsins eða drottningarinnar því eins og féð er varnarlaust gegn villidýrunum eru þegnarnir varnarlausir gegn utanaðkomandi ógn, ræningjum og óvinaherjum, ef valdhafinn verndar þá ekki með hermætti sínum. Þessi þáttur hins guðlega hirðishlutverks, að vernda gegn hættum, var því í raun að stórum hluta framseldur í hendur konungsvaldinu, en engu að síður stendur Guð þar að baki sem hirðir allrar sköpunar sinnar, að konunginum meðtöldum. Guð sá sem heldur öllum dýrum til haga og viðheldur öllu lífi með frjómagni sínu. Þessi hugsun er varla nokkurs staðar tjáð með fegurri hætti en í Davíðssálmi 104 [10-23] en þar segir:

Þú lést lindir spretta upp í dölunum,
þær streyma milli fjallanna,
 þær svala öllum dýrum merkurinnar,
villiasnarnir slökkva þar þorsta sinn.
Við þær búa fuglar himinsins,
kvaka milli laufgaðra greina.
Þú vökvar fjöllin frá hásal þínum
og af ávexti verka þinna mettast jörðin.
Þú lætur gras spretta handa fénaðinum
og jurtir sem maðurinn ræktar
svo að jörðin gefi af sér brauð
og vín sem gleður mannsins hjarta,
olíu sem lætur andlit hans ljóma
og brauð sem veitir honum þrótt.
Tré Drottins drekka nægju sína,
sedrustré Líbanons sem hann gróðursetti.
Þar gera fuglar sér hreiður
og storkar eiga sér bústað í krónum þeirra.
Í gnæfandi fjöllum búa steingeitur
og klettarnir eru skjól stökkhéra.
Þú gerðir tunglið, sem ákvarðar tíðirnar,
og sólina sem veit hvenær hún á að ganga til viðar.
Þú sendir myrkrið, þá verður nótt
og öll skógardýrin fara á stjá.
Ljónin öskra eftir bráð
og krefjast ætis af Guði.
Þegar sólin rís draga þau sig í hlé
og leggjast í bæli sín.
Þá fer maðurinn út til starfa sinna
og vinnur þar til kvöldar.

Hér er gangverki náttúrunnar lýst með lotningu og í undrun yfir dásemdarverkum Guðs sem vitna um gæsku hans og umhyggju fyrir sköpun sinni. Þegar Jesús líkir sjálfum sér við hirði samsamar hann sig Guði en það er samt ekki fyrst og fremst umhyggja skaparans fyrir viðkomu sköpunar sinnar sem Jesús er að lýsa í Jóhannesarguðspjalli. Hlutverk hans sem hirðis er annað en föðurins. Góði hirðirinn Jesús lætur sér annt um sálarheill þeirra sem hann ber ábyrgð á og þá hljótum við að spyrja okkur fyrir hvern eða hvað úlfurinn stendur í líkingunni, úlfurinn sem hremmir sauðina og tvístrar þeim ef hirðirinn flýr af hólmi. Það er vitanlega djöfullinn, sem í hugmyndaheimi Biblíunnar er persónugervingur illskunnar, sem afvegaleiðir fólk til illra verka.

Illskan þekkir engin takmörk og hún minnir óþyrmilega á sig þessa dagana í Úkraínu. En illskan – eða djöfullinn eins og Jóhannes myndi segja kemur engu til leiðar nema með því að gera fólk að verkfæri sínu.  Í kvöldmáltíðarsenunni lýsir Jóhannes áhrifum djöfulsins á Júdas þannig: „Djöfullinn hafði þegar blásið því í brjóst Júdasi, syni Símonar Ískaríots, að svíkja Jesú.

Illskan hefur allar klær úti til að vinna fólk á sitt band, hremma það og spilla því. Biblíuleg trú vill með boðskap sínum sporna gegn áhrifum hins illa í veröldinni. „Guð er kærleikur“ segir í fyrsta Jóhannesabréfi og fagnaðarerindið er Guðs orð meðal annars af því að það boðar og kennir grundvallarmikilvægi kærleikans sem meginvopns í baráttunni gegn hinu illa. Góði hirðirinn leggur líf sitt í sölurnar fyrir sauðina sem hann elskar. Jesús er hér að vísa til dauða síns á krossi sem friðþægir fyrir syndir mannanna og setur þannig hið ítrasta fordæmi um mögulegar afleiðingar kærleikans: að fórna eigin lífi fyrir þá sem maður elskar. En hann gefur lærisveinunum annað og hversdagslegra eftirdæmi þess hvernig kærleikurinn skuli birtast í lífi þeirra. Fyrir síðustu kvöldmáltíðina þvær hann fætur lærisveinanna og segir:

„Skiljið þér hvað ég hef gert við yður? Þér kallið mig meistara og Drottin og þér mælið rétt því það er ég. Fyrst ég, sem er herra og meistari, hef nú þvegið yður um fæturna, þá ber yður einnig að þvo hver annars fætur. Ég hef gefið yður eftirdæmi að þér breytið eins og ég breytti við yður. Sannlega, sannlega segi ég yður: Þjónn er ekki meiri en herra hans né sendiboði meiri þeim er sendi hann. Þér vitið þetta og þér eruð sælir ef þér breytið eftir því.

Jesús er með öllum orðum sínum, til lærisveinanna og mannfjöldans og til okkar, að reyna að hafa áhrif til góðs. Og um leið að vara við áhrifum hins illa. Því að það skiptir vitanlega máli hverju er miðlað – það er jú grundvallaratriði alls uppeldis því það lærir barnið sem fyrir því er haft. En fullorðið fólk lærir líka það sem fyrir því er haft, verður fyrir áhrifum af því og tileinkar sér það. Það liggur líkast til í eðli samfélaga að á hverjum tíma má greina hjarðhegðun í samfélagi sem í sinni verstu mynd verður að múgæsingi. Það var mikið talað um hjarðhegðun Íslendinga þegar árin fyrir hrun voru gerð upp. En uppgjörstíminn var heldur ekki laus við hjarðhegðun og í raun múgæsing.

En sem betur fer getur hjarðhegðun einnig tekið á sig jákvæða mynd, þegar fólk leyfir góðum fyrirmyndum að hafa áhrif á sig.

Í titilgrein þýska vikuritsins Spiegel 16. apríl síðastliðinn er fjallað um útbreiddan vilja Þjóðverja til þess að verða að liði í sjálfboðnu starfi. Það hefur reyndar alltaf verið ríkt einkenni á þýsku þjóðlífi að fólk sé virkt í hvers kyns sjálfboðastörfum en fjöldi sjálfboðaliða jókst margfaldlega með komu sýrlenskra flóttamanna 2015 og hefur nú enn aukist eftir að flóttafólk tók að streyma frá Úkraínu til Þýskalands og eru nú 16,2 milljónir Þjóðverja skráðar sem sjálfboðaliðar í ýmiss konar hjálparstarfi og samfélagsþjónustu.

Höfundar greinarinnar líta á hina frægu sögupersónu Jesú, miskunnsama Samverjann, sem hugmyndasögulega fyrirmynd hinnar siðrænu kröfu um samhjálp í hinum vestræna heimi þegar þeir rita:

„Hin eina sanna táknmynd samhygðarinnar og náungakærleikans er „miskunnsami Samverjinn“ úr Biblíunni, holdtekning kröfunnar um að koma til hjálpar. Saga hans er sögð í Lúkasarguðspjalli … Dæmisagan er ein af þekktustu sögum kristindómsins og vill flytja þann boðskap að náungi manns geti verið hver sú manneskja í neyð sem maður mætir. Og sá sem elskar náunga sinn, sýnir samhygð sína í verki.“

En vestrænn heimur er ekki lengur svo einsleitur í menningarlegu tilliti að hægt sé að gera ráð fyrir því að einstaklingarnir sem byggja hann samsami sig því að vera kristnir. Engu að síður sjá blaðamenn Spiegel gildi dæmisögunnar um miskunnsama Samverjann og reyndar gildi boðskapar nýja testamentisins fyrir samfélög sem vilja lifa saman í friði, og skrifa áfram:

„Nýja testamentið er stefnuyfirlýsing fyrir friðsamt samfélag. Fyrir samfélag þar sem er pláss fyrir alla eins og þeir eða þær eru. Og þar sem hver og einn lætur sig annan varða. 2000 ára gamalt, en hentar eftir sem áður sem grunnur fyrir það hvernig við búum saman, líkt og geðlæknarnir Georg Juckel og Paraskevi Mavrogjorgú við Háskólasjúkrahúsið í Bochum segja í viðtali við Spiegel. Einnig fyrir trúlausa og þá sem eru annarrar trúar.“ (Spiegel 16.4.2022, bls. 10).

Dæmisagan um miskunnsama samverjann lýsir því hvernig sú umhyggja sem lýst er með myndinni af Guði sem hirði skuli endurspeglast í mannlegu samfélagi.  Guð gefi að okkur auðnist öllum að vera hvert öðru góðir hirðar eða miskunnsamir samverjar, eftir því sem við á og staða okkar krefst.

Dýrð sé Guði: Föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er enn og verða mun um aldir alda. Amen.