Birtustigið í lífi þínu, hvernig getur þú aukið það?

Birtustigið í lífi þínu, hvernig getur þú aukið það?

Andlegri vanheilsu þarf að mæta með andlegum úrræðum

Textar: 

1.Mós. 32.24-30 

Jak. 5.13-16 

Matt. 15.21-28 

 

Biðjum: 

Ljósfaðir, viltu leiða mig, 

ljá mér þinn sterka arm, 

svala þorsta og sefa harm, 

í sannleika skapa undur ný, 

beina mér birtuna í. Amen. 

 

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi, amen. 

 

Jakobsglíman og samhengið 

 

Jakobsglíman er texti dagsins úr Gamla testamentinu. Þar sem Jakob glímir við Guð. 

 

Frásögnin minnir á ævintýri, þar sem aðalpersónunni er ekki hleypt áfram nema fyrst sé leyst einhver þraut eða ákveðin skilyrði uppfyllt, þar sem kannski þarf að kljást við tröll eða skrímsli til að ná markmiðinu eða áfangastaðnum. 

 

Mörg þekkjum við ævintýrið um tröllið undir brúnni og geiturnar þrjár sem vildu komast yfir. Þetta er svona klassískt þema í góðum frásögum, þar aðalpersónan kemst yfir hindranir og finnur lausn. 

 

Fleiri svipuð þemu sem skyld eru Jakobsglímunni, má finna víða. Til dæmis í grískri goðafræði segir Hómer frá því hvernig Menelaos hélt sjávarguðinum Próþeifi föstum þar til hann leysti frá skjóðunni. 

 

Í samhengi Biblíunnar vekur Jakobsglíman hugrenningartengsl við samskipti Abrahams, sem var afi Jakobs, og Guðs þ.e.a.s. samskipti Abrahams og Guðs. Þar sem Guð blessar Abraham og felur honum og öllum niðjum hans að verða öðrum þjóðum til blessunar. Ekki stunda stríð og yfirgang heldur vera öðrum til blessunar. Öðrum í þeim skilningi, þeim sem eru utan við þinn ættbálk, þeim sem eru útlendingar.  

 

Strax þarna í grunninum á okkar kristnu trú eru rætur gestrisni, blessunar og þess að taka ávallt vel á móti þeim sem eru utangarðs, sem eru á flótta. 

 

Þannig virðist það vera á öllum tímum að átök eru hluti af mannlífinu, líkt og nú geysar stríð í Evrópu. Hin kristna afstaða til fólks á flótta er að við eigum að hjálpa, sýna gestrisni. Sú kristna afstaða sést mjög skýrt í dag í afstöðu samfélagsins til systkina okkar frá Úkraínu, sem við tökum á móti þessa dagana, þar sem yfir 90% af þjóðinni er fylgjandi þeim aðgerðum, samkvæmt skoðanakönnunum. 

 

Jakob verður Ísrael 

 

Þegar englinum eða Guði varð ljóst að Jakob væri að sigra átökin, sem segir þarna frá í Gamla testamentinu segir hann: „Ekki skaltu lengur heita Jakob heldur Ísrael því að þú hefur glímt við Guð og menn unnið sigur!“ 

 

Í frásögninni segir frá því er Ísraelsþjóðin verður til, þ.e.a.s. lýðurinn, niðjar Jakobs kenndu sig síðan við þessa glímu og hið nýja nafn sem Jakob fékk, Ísrael, þann sem hefur glímt við Guð og menn og unnið sigur.  

 

Gamla testamentið greinir síðan frá því í mörgum bókum sem á eftir koma hvernig þjóðinni vegnar í lífsglímu sinni. Gjarnan og iðulega villist þjóðin af leið, gleymir hlutverki sínu um að vera öðrum blessun.  

 

Kannist þið við slíkt í ykkar eigin lífi?  

 

Guðspjallið 

 

Í guðspjallinu er Jesús á ferð um byggðir Týrusar og Sídonar, og kanversk kona kemur þá til hans úr þeim héröðum. Að baki þessari sviðsmynd eru gríðarlega miklar upplýsingar sem við verðum aðeins að staldra við. Það varðar þessar byggðir, Týrusar og Sídonar, og svo einnig hvaða konan er, hún er frá Kanaanslandi, eða Kanverji 

 

Segir það ykkur eitthvað? Þekkið þið Sídon? 

 

Guðspjallatexti dagsins, samskipti Jesú við kanversku konuna, er má segja um sama þema og frásagan um Jakobsglímuna. Kansverka konan og Jesús takast á, þ.e.a.s. hún óskar eftir blessun frá Jesú, en hann hunsar hana, til að byrja með. Hún gefst ekki upp heldur biður hann ítrekað og hann reynir að komast hjá því að svara, en loks svarar hann svolítið út úr kú, þ.e.a.s. hunsar bón hennar en hún gefst ekki upp, en heldur áfram að biðja, þar til hann játar sig sigraðan og veitir henni þ sem hún óskar, og blessar hana. 


Blessun og bölvunSídon og Ísrael 


Í hinum forna heimi var blessun og bölvun stórmál. Bölvun var alvarleg, sérstaklega ef faðir þinn bölvaði þér. Bölvun var miklu meira en orðin tóm, hún fjallaði um viðhorf föður þíns, andhverfa blessunar hans í þinn garð, yfirlýsingar föður þíns. Hún var tortíming, bölvunin dvaldi hjá þér, ásótti þig og hvíldi yfir þér eins og dimmt ský. Í frásögunni af Nóa, sem þið kannist við, segir frá því er Nói bölvar syni sínum Kam og fjölskyldu hans og byrjar á syni hans, Kanaan. 

 

Konan var kanversk, sem Jesús talaði þarna við, hún var sem sagt af þessari ætt Nóa. 

 

Svo að Kanaan syni Kams var bölvað, sem þýddi að öllum sonum hans var einnig bölvað, sem hófst með elsta syni hans, Sídon. 

 

Það kemur svo í ljós að Sídon átti marga syni, svo marga að hann varð í rauninni faðir heillar þjóðar. Þjóðar sem er getið í Biblíunni aftur og aftur.  

 

Í Dómarabókinni er sagt frá því er Sídoningar sigruðu og kúguðu Ísraelsþjóðina. (Áhugavert að taka eftir því að bölvunin hefst með því að faðir bölvar syni sínum. Sárin sem þannig verða til dýpka svo mikið að nokkrum kynslóðum síðar herjar þjóð sonarins á þjóð föðurins og kúgar hana. Slík sár eru þrálát og dreifa sér, er það ekki?) 

 

(Það er einnig áhugavert að taka eftir því að þegar slíkt sár frá föður er ekki meðhöndlað og grætt, leiðir það óhjákvæmilega til þess að fleiri en þessi eini einstaklingur verða fyrir skaða. Hvers vegnar eru þessar tvær þjóðir, Sídonítar og Ísraelsmenn í stríði? Vegna þess að faðir bölvaði syni sínum.) 

 

(og fyrst við erum að nefna þetta, þá er þetta einmitt ástæðan fyrir því að Biblían snertir við okkur: Hefur þú einhvern tíman séð bíómynd þar sem aðalpersónan glímir við óuppgerð mál gagnvart föður sínum? Auðvitað. Við erum enn að segja sömu sögurnar, ennþá að græða sömu sárin. Á þúsundum ára hefur ýmislegt breyst, en sumt hefur ekkert breyst.) 

 

Meira um Sídoninga: 

 

Salómon konungur kvæntist fjölda kvenna frá Sídón, sem var til þess að hann fylgdi Astarte, gyðju þeirra.  Nokkrum kynslóðum eftir Salómon, kvæntist Akab konungur Ísraels Jesebel prinsessu frá Sídon, sem leiddi til mikilla vandræða. 

 

Jesaja spámaður spáði fyrir um hrakfarir Sídoninga. Hann sagði þeim að hafa sig hæga og skammast sín og að þeir myndu aldrei njóta hvíldar vegna allra þeirra vonskuverka. Jeremía spámaður talar um daginn sem muni koma þegar enga hjálp verður að fá fyrir Sídon. Og Esekíel talar um að Sídoningum verði slátrað í skömm.  

 

Þið eruð farin að átta ykkur á að Sídoningarnir eru vondu gæjarnir í sögunni, á spjöldum Biblíunnar. Þeir eru samkvæmt textunum hinir slæmu nágrannar, hið illa stórveldi, kúgararnir við dyrnar.  

 

Viðbrögð Jesú 

 

Í margar kynslóðir hafði fjandskapur byggst upp gagnvart Sídoningunum þar til svo var komið á fyrstu öldinni að margir Gyðingar þorðu alls ekki að fara til Sídonar né heldur tala við nokkurn sem þaðan kom. Þessi hlutdrægni átti sér rætur allt aftur til sögunnar af Nóa. En eins og við þekkjum frá okkar eigin reynslu, þegar fordómar og hatur hafa fengið að grassera í kynslóðir, getur það leitt til ófremdarástands.  

 

Svo að þetta var sem sagt hið almenna viðhorf þess hóps sem Jesús tilheyrði: Við erum hin trúföstu, hin útvöldu, þau sem Guð elskar. 

 

Við erum innan hópsins, óvinir eins og Sídoningar eru utan hans. Við erum með Guði í liði, þeir ekki.  

 

En í textanum hérna, í guðspjalli dagsins, fer Jesús um byggðir Sídonar 

 

Í samtíma Jesú var því trúað að Sídoningar væru og hefðu verið bölvaðir, sem rekja mátti allt aftur til Nóa, mörgum kynslóðum fyrr.  

 

Jesú gat ekki verið meira sama. Hann hafnar einfaldlega hinni viðteknu sögu sinnar þjóðar og einnig Sídoninga. Hann er þarna kominn til að lækna sárin, hin raunverulegu sár fólksins frá Sídon 

 

(Skáletraði textinn er unninn upp úr bókinni: Hvað er Biblían? Hvernig ævaforn ljóð, bréf og sögur geta gerbreytt því hvernig þú hugsar og hvernig þér líður, sem Skálholtsútgáfan gaf út í minni þýðingu árið 2019) 

 

Það er það sem Jesús gerir, læknar sárin 

 

Sístæður boðskapur í nýjum og nýjum aðstæðum 

 

Jakobsbréfið, pistill dagsins, er síðan yngsti textinn af þeim þremur sem hér var lesinn áðan. Þar má finna síunga hvatningu til þeirra sem vilja fylgja Jesú á vegi lífsins. Jakob postuli hvetur fólk til bæna, það muni láta fólki líða betur. Hann hvetur fólk til þess að gleðjast saman. Hann hvetur fólk til þess að huga að hinum sjúku og biðja fyrir þeim um lækningu, því trúarbænin mun gera hinn sjúka heilbrigðan og Drottinn mun reisa hann á fætur. Til að lifa heilbrigðu lífi sé nauðsynlegt að játa misgjörðir sínar og biðja fyrir hvert öðru. Guð mun fyrirgefa syndirnar, segir Jakob. 

 

Sögurnar sem við lesum um Jakobsglímuna, um fyrirgefningu og sáttargjörð eru sögur um andlegt heilbrigði.   

 

Samtími okkar 

 

Umræða um andlega vanheilsu er fyrirferðarmikil í samfélagi okkar í dag. Þar er meðal annars fjallað um skólaforðun barna og brottfall nemenda úr framhaldsskólum. 

 

Heimsfaraldurinn hefur á síðustu tveimur árum haft þar gríðarleg áhrif, aukið á einangrun með vaxandi kvíða hjá sumum. Nýhafin stríðsátök í Evrópu snerta síðan alla heimsbyggðina og óvíst er hver áhrifin verða til framtíðar. 

 

Óvissan og ógnirnar eru álagsþættir sem hafa áhrif á alla menn. Færðin síðustu vikurnar hefur síðan ofan á allt annað verið með eindæmum, veturinn snjóþungur með veðurviðvörunum í öllum regnbogans litum. 
  

Hvernig getur maður aukið birtustigið í eigin lífi, aukið birtustigið í sínu andlega lífi? Ég tel að andlegri vanheilsu þurfi að mæta með andlegum úrræðum, sem eru í boði fyrir alla sem vilja þiggja.  
 
Núvitundarstundir eru iðkaðar í kirkjum landsins. Til dæmis í Grensáskirkju er slíkur vettvangur í boði í hverri viku og opin öllum og aðgangur ókeypis. Kyrrðarstundir ýmisskonar eru jafnframt í hádegi á virkum dögum, svo sem í hádeginu á þriðjudögum í Grensáskirkju. Þar er gjarnan iðkuð kyrrðarbæn eða Biblíuleg íhugun. 
 
Kyrrðarbæn er bænaaðferð sem fer fram í þögn. Í henni opnast hugur og hjarta, öll vera okkar, fyrir Guði handan hugsana, orða og tilfinninga. Fyrir tilstilli náðar Guðs opnum við vitund okkar fyrir honum sem við vitum, fyrir trú, að er hið innra með okkur, nær okkur en andardráttur okkar, nær en hugsun okkar, nær en sjálf vitund okkar. 
 
Biblíuleg íhugun er ævagömul aðferð við að biðja yfir textum ritningarinnar. Í Biblíulegri íhugun er hlustað á ritningarversin með hjartanu líkt og við ættum í samtali við Guð þar sem hann legði til umræðuefnið. Með þessari bænaaðferð leyfum við orðinu að móta okkur og verða hluti af okkur sjálfum. 
 
Kyrrðarbænasamtökin á Íslandi eru síðan hreyfing fólks sem iðkar og stundar þessa andlegu iðju, sjálfum sér og samfélaginu til gæfu.  

 
Kristin íhugun er regnhlífarhugtak yfir fornar og nýjar íhugunar- og bænaaðferðir innan kristinnar hefðar. Íhugun var ríkur þáttur í andlegri iðkun og uppbyggingu kristinna manna frá upphafi. Frá því á 17. öld tapaðist hún að nokkru leyti úr vitund fólks en á 20. öldinni var farið að vinna að því að endurheimta þennan dýrmæta arf. 

 

Það er eftir miklu að keppa að leggja sig fram í þessari íþrótt, því að sumu leyti er það eins og íþrótt. Maðurinn eflist að andlegum gæðum með andlegri iðkun og bæn. Líkt og með líkamsrækt dagsins, þá virkjast andlegir vöðvar og kraftar við andlega iðju. Slík iðkun og bæn veitir ávexti út í lífið, sem ekki fást í ávaxtadeild matvörubúðanna. 
 
Vettvangur fyrir slíka andlega iðkun er í boði kirkjum landsins, og svo einnig á sunnudögum, líkt og hér í dag. Höldum áfram hinni andlegu rækt okkur sjálfum og samfélaginu til heilla.  

 

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.  

 

Takið postullegri kveðju: Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé og veri með yður öllum. Amen.


Grensáskirkja 2. sd. í föstu 

13. mars 2022 kl. 11 (Bústaðakirkja kl. 13)