Vopnahús

Vopnahús

Vopnahúsin geyma minningar um tíma sem við vildum ekki lifa að nýju.

Einu sinni þjónaði ég sem prestur Íslendinga í Svíþjóð. Landið er stórt og landinn dreifður um borg og bý. Ég fór víða um og fékk afnot af sænskum kirkjum fyrir íslenskt helgihald. Mér er í fersku minni þegar ég, nýkominn til starfa, fór að hringja í kirkjuverði og presta og falast eftir helgidómum fyrir slíkar samkomur. Sænskan mín var ekki upp á marga fiska og ég þurfti í sífellu að hvá og biðja viðmælendur að tala ögn ... glaðlegar. Já, danskan nýttist ekki alltaf sem skyldi.


Griðarstaður

 

Nema hvað að þegar samningar voru í höfn þá mæltum við okkur mót. Og þá kom þessi setning sem ég átti í fyrstunni erfitt með að skilja – „Við hittumst svo bara í vopnahúsinu.“

 

Já, eins og ekkert væri eðlilegra áttu leiðir okkar að liggja saman í einhverju því sem sænskir kölluðu vopnahús. Var þetta raunin í gamla stórveldinu þar sem enn voru framleiddar kanónur og orustutól? Áttu sænskar kirkjur sali fyrir vopn og verjur?

 

Eftirgrennslan leiddi í ljós að vopnahús á máli frændsystkina okkar er það sem við heima myndum kalla forkirkju eða bara anddyri. Þarna við innganginn í guðshúsið var staður þar sem fyrr á öldum var gert ráð fyrir því að vopnaðir karlar legðu frá sér sverð og atgeira áður en gengið var inn í kirkjuna. Enn lifir orðið á vörum fólks þótt nú héngju þar bara hattar og yfirhafnir.

 

Þetta hringdi bjöllum. Íslenskar kirkjur voru að frátöldum dómkirkjunum á Hólum og í Skálholti svo smáar að líklega hafa menn á sturlungaöld skilið vopnin sín eftir fyrir utan kirkjurnar. Orðið festist því aldrei hér ólíkt því sem gerðist á nágrannatungunum. Við eigum hins vegar sagnir frá miðöldum af því þegar fautar drógu féndur út úr kirkjum og vógu þá. Það þótti slíkt níðingsverk að enn getum við hneysklast á því.

 

Að baki vopnahúsum býr merkileg hugsun. Á þessum tímum var líf fólks erfiðara, hættulegra og styttra við eigum að venjast á okkar dögum. En um leið var einhver samfélagssáttmáli í gildi sem átti að tryggja öruggt svæði mitt í háskanum. Kirkjan var þessi griðarstaður.

 

Og enn í dag lifir hugmyndin á vörum fólks. Vopnahús vísar einmitt til hins gagnstæða sem fyrstu hughrif gáfu til kynna. Það minnti á að í óöldinni var staður þar sem önnur lögmál giltu heldur en úti á hrjóstrugum berangrinum. Við getum kallað það siðmenningu.


Siðmenning

 

Textinn sem hér var lesinn lýsir að mínu áliti einmitt því hinu sama – siðmenningu. Boðorðin tíu verða til við hinar háskalegstu aðstæður. Hópur flóttamanna er á ferð um eyðimörki. En þau eru merkileg yfirlýsing sem fólk hefur vissulega túlkað með ýmsu móti. Í fyrstu virðist þetta ekki vera hugljúf lesning. ,,Þú skalt ekki”, ,,þú skalt ekki” hljómar í sífellu, næstum eins og vandarhögg sem dynja á óþekkri mannsálinni. Orðalagið dregur upp þá mynd af manninum að hann hendi sér sínkt og heilagt út fyrir öll velsæmismörk í samskiptum við systkini sín.

 

Stöðugt þurfi að slá á fingur, stíga á tær, setja skorður. Ekki stela, ekki myrða, ekki ljúga einhverju upp á fólk, ekki girnast, ekki girnast – já það er tvítekið og fylgir næsta merkileg upptalning í kjölfarið.

 

Ég ræði þessi mál gjarnan við fermingarbörnin og við veltum fyrir okkur samfélagi þar sem engar reglur gilda. Einhverjum hugnast í fyrstu sú tilverusýn – að hafa ekkert yfirvald, enga stundarskrá og engar hömlur. Víst blundar hún í okkur flestum, einhvers staðar misdjúpt í sálinni, löngunin til að vera frjáls og óbundin öllum höftum.


Reynir á þolrifin

 

Þetta sjáum við og heyrum í umræðu dagsins þegar veiran setur lífi okkar slíkar skorður að minningar um mannfagnaði og faðmlög verða eins og leiftur úr öðrum heimi. Og þá heyrum við einmitt þennan tón sem verður æ hærri eftir því sem reynir á þolrifin. Hvers vegna þessi boð og bönn? Með hvaða valdi eru okkur settar þessar skorður?

 

Já nú reynir á þolrifin.

 

Sjálfur tilheyri ég þeim hópi sem telur hömlurnar nauðsynlegar. Ólafur Jóhann Ólafsson rithöfundur er á sömu skoðun og í lesendabréfi segir hann frá samskiptum sínum við tvo kollega þegar plágan var í uppsiglingu og fáir gerðu sér grein fyrir því hversu háskaleg staðan væri. Þeir smituðust. „Mánuði síðar voru þessir menn látnir“, segir hann. Og varar við því nú á þessum ögurstundum að sökkva okkur niður í „akademískar hugleiðingar um frelsi sem séu best geymdar þar til plágan er gengin yfir.“

 

Það breytir ekki þeirri skoðun að gagnrýni af þessum toga er einkenni á heilbrigðu samfélagi þar sem fólk hefur leyfi til að spyrja um forsendur valdsins og réttmæti boða og banna. Sem í þessu tilviki sýnast ótvíræð.

 

En þetta sjáum einmitt í hinum forna texta þar sem reglurnar tíu eru upptaldar.

 

Inngangur boðorðanna, gefur til kynna að þau séu frá Guði komnar. Hvað þýðir það? Jú, það var reyndar mjög mikilvægt því að með þessu voru yfirvaldinu, leiðtogum þjóðarinnar, settar skorður. Yfirvaldið var ekki æðsta valdið. Kóngar gátu ekki aðhafst að vild, brotið á undirsátum, kúgað þá, sankað að sér fé og auði án þess að þeir gerðu sjálfa sig brotlega við þessi grundvallarsjónarmið.

 

Við hirðina var embætti spámanns. Þetta voru oft hálfgerðir útlagar – klæddust tötrum og greindu sig þannig frá prúðbúinni yfirstéttinni. En þeir ávíttu ranglát yfirvöld og minntu þau á að fylgja þeim reglum sem allir þyrftu að undirgangast.

 

Sú er jafnan niðurstaða fermingarbarna þegar við ræðum þessar mál að boðorð hafi sennilega ekki þann tilgang að vernda auð og völd þeirra sem verma efstu sætin í píramídanum. Þvert á móti eru þau sett til að halda þeim í skefjum. Því auðfólk og valdsins menn hafa verði, þjóna og rammgirta veggi. Þeir geta seilst inn á líf og eigur annarra, hrifsað til sín í krafti hnefaréttar og aflsmuna.


Mannréttindi

 

Ég leyfi mér að halda því fram að strangur tónn boðorðanna sé einmitt þetta: Óður til siða og menningar – og andstæða þeirrar óaldar þar sem hin sterku undiroka þau sem minna mega sín. Ákvæði sem banna fólki að myrða, stela, svíkja og klekkja hvert á öðru hafa miklu meira gildi fyrir þau sem ekki geta varist af eigin rammleik.

 

Boðorðin eru mannréttindayfirlýsing. Það að ég megi ekki stela frá öðrum – þýðir að eignir mínar eru friðhelgar og það á líka við um annað það sem skiptir mig máli. Og ef ég er ekki rammur að afli eða á her bandamanna sem passa upp á mig og mitt, þá varðar mig enn meir um að farið sé eftir slíkum reglum. Það að ég þurfi að lúta ströngum höftum nú á dögum plágunnar verndar ekki bara mig og mína nánustu.

 

Það hlífir sjálfu heilbrigðiskerfinu að álagið fari ekki út yfir öll þolmörk. Þórarinn Guðnason læknir lýsir því ástandinu eins og það var á verstu smitsvæðum á Ítalíu. Þá voru langveikir sjúklingar eða þeir sem komnir voru af léttasta skeiði, sendir aftur heim frá yfirfullum sjúkrahúsum „til að deyja eða vona það besta.“ „Og að lokum“ segir Þórarinn, „þá getum við verið að tala um að það sé afi þinn, amma, faðir eða móðir eða jafnvel langveiki litli bróðir þinn eða frændi sem verður snúið við á bílaplani Landspítala í Fossvogi.“

 

Einræðisherrar vilja engar reglur, þar ráða duttlungar för. Siðmenningu getum við kallað það sem rís upp gegn því valdi. Þar eiga allir að fylgja sömu ákvæðum.

 

Og um leið þarf hvert samfélag að spyrja sig um gildi þeirra reglna sem það fylgir. Sá kann að hafa verið boðskapurinn í fornum sögum Íslendinga, Njálu, Grettlu, Eglu, Sturlungu sem lýsa óöld blóðhefnda og vígaferla. Það getur ekki verið tilviljun að þau rit voru skráð í klaustrum og á kirkjustöðum.


Vopnahús okkar daga

 

Kristindómurinn horfir á tign manneskjunnar og helgi, jafnvel mitt í öllum sínum vanmætti. Í kirkjum hafa þeir setið vígmóðir og uggandi um líf sitt og limi. Yfir altarinu hékk kross sem miðlaði þeirri þverstæðu að mitt í veikleikanum leyndist mikill máttur.

 

Sá sem þar kvaldist og dó sagði að við í hverju af okkar minnstu systkina mættum við Guði. Og í guðspjalli dagsins gefur hann okkur veganesti fyrir lífið –: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ Já, settu þig í spor fólksins sem þú hefur áhrif á. Væri framkoma þín gagnvart þeim þess eðlis að þú vildir að fólk kæmi eins fram við þig. Þetta er einhver dýrasti óður til hluttekningar sem saminn hefur verið, enda köllum við hann, Gullnu regluna.

 

Vopnahúsið tók við verkfærum síns tíma sem voru vissulega mælikvarði á gildi manna og vegsemd. En þegar þeir stóðu frammi fyrir altarinu þá giltu önnur lögmál, önnur viðmið.

 

Menn héldu aftur út úr helgidóminum, hvort heldur hann var með himinhvelfingu gotneskra súlna og steinboga, nú eða lágreistur torfkofi. Og auðvitað tók veruleikinn við, ískaldur og grimmur. Mennn sóttu sín vígtól undir það búnir að þurfa að verja heiður og ætt. En mögulega hafði þó verið sáð í hjartað andstæðri hugsun sem hafði allt aðra sýn á virði manneskjunnar, um friðarins Guð sem mýkir meinin hörðu.

 

Þetta gerir kirkjan enn í dag. Vopnahús okkar tíma eru staðir þar sem við eigum að geta lagt frá okkur skaðlegar hugsanir, háskalega hegðun og eyðandi háttarlag. Gullna regla ekki síst að afkomendum okkar, að lífríkinu í allri sinni dýrð, þeim helgidómum öllum sem maðurinn veður yfir með vopnum sínum.

 

Og núna, hér í Neskirkju hanga engar yfirhafnir í því sem við köllum forkirkju. Bekkir eru tómir. Við fylgjum tilmælum um að efna ekki til opins helgihalds. Það er sárt að opna ekki kirkjudyr upp á gátt og hringja ekki klukkkum eins og við erum vön. Að hitta ekki brosandi fólk á kirkjutorgi að messu lokinni.

 

Það er líka raun að fylgjast með öllu þeim skapandi og dugmiklu einstaklingum sem finna hvernig þrengir að, nú þegar bregðast öll hin bestu ráð. Þetta er liður í því að tilheyra siðmenningu þar sem við hugsum um afleiðingar gjörða okkar og gætum þess að valda ekki skaða. Þessir tímar sem við lifum geta líka verið eins og andrými til umhugsunar – eins og mögulega var þegar vígamenn sátu forðum á kirkjubekkjum.

 

Hvað viljum við taka með okkur þegar og ef tilveran verður aftur söm við sig? Hverju viljum við breyta? Ætlum við að halda áfram að elta hagvöxtinn? Hvað þarf hann að vera mikill til að við séum sátt? Sé hann þrjú prósent þá tvöfaldast hagkerfi okkar á rúmum aldarfjórðungi. Í dag erum við alltof frek til fjárins. Við klárum auðlindir og skilum þeim aftur út í náttúruna, eitraðar og spillandi. Viljum við breyta því?

 

Vopnahúsin geyma minningar um tíma sem við vildum ekki lifa að nýju. Samfélagið sem sagt er frá í texta dagsins var á eyðimerkurgöngu í dauðans óvissu, þrungið efasemdum og eftirsjá. Á þeirri grýttu leið segir sagan að það hafi fengið boð frá Guði. Að þessu sinni var það ekki örvun eða hvatning, ekki guðdómleg birta eða brauð af himnum ofan. Nei, það voru reglur! Boðorð og bannorð.

 

Eða við getum sagt siðmenning – að virða tiltekin gildi og að vita að verðmæti okkar sjálfra eru þá ekki heldur fótum troðin. Því við hljótum að sýna fólki þá framkomu sem við óskum sjálf eftir að það sýni okkur.