Beinin í dalnum

Beinin í dalnum

Að tæma sig á þennan hátt er ekki vegferðin að einhverju öðru marki, heldur markið sjálft. Þar opinberast kærleikurinn að fullu.
fullname - andlitsmynd Þorvaldur Víðisson
17. apríl 2022
Flokkar

Mk. 16:1-7 

 

Biðjum: 

Lofum þann sem lífið gefur, 

látum hljóma sigurbrag! 

Gleðjumst öll því Guð oss hefur 

gefið bjartan páskadag. Amen. 

 

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen. 

 

Kæri söfnuður – Gleðilega páska! 

 

Það er góður siður að safnast til kirkju á páskadagsmorgni, nánast við sólarupprás og minnast upprisu Jesú Krists. 

 

Sigurfrásögur 

 

Frásögur þessa morguns eru sigurfrásögur.   

 

Guðspjall Markúsar, sem lesið er í kirkjum landsins á þessum morgni, er talið elst guðspjallanna, og segir frá komu kvennanna að gröfinni. Þær eru fyrstu vottar upprisunnar og fá það hlutverk að segja frá. Þær urðu hræddar, skiljanlega. 

 

Frásögn Lúkasar er sambærileg Markúsarfrásögninni, en þar er tekið fram að konurnar vissu frá föstudeginum langa hvar Jesú var lagður í gröf, en þær hafi þrátt fyrir það ekki séð líkama Jesú í gröfinni. Í guðspjalli Mattheusar segir einnig sömu sögu af konunum. Þar er greint frá því að þær urðu bæði hræddar og glaðar, og á leið frá gröfinni mæta þær Jesú og föðmuðu fætur hans. Í Jóhannesarguðspjalli eru konurnar einnig í framvarðarsveitinni við gröfina, en þar ásamt Símoni Pétri og lærisveininum sem Jesús elskaði, eins og þar er greint frá. 

 

Í framhaldi af frásögum þessa helga morguns er sagt frá því að Jesús hafi birst lærisveinum sínum upprisinn. Hann birtist þeim mörgum sinnum og stundum mörgum saman, hann birtist Tómasi, hann birtist tveimur á veginum til Emmaus, hann birtist þeim við Tíberíasvatn, þar sem hann neytti máltíðar með þeim, og á fleiri stöðum birtist hann þeim.   

 

Jesús frá Nazaret var tekinn af lífi sem bandingi á dögum Pontíusar Pílatusar.  Hann var tekinn af lífi frammi fyrir augum fylgjenda sinna, og annarra, á föstudeginum langa. 

 

Hjartað í þjónustunni 

 

Hjartað í þjónustu Jesú Krists má finna í því hvernig hann á róttækan máta gefur sjálfan sig til þjónustu við kærleikann. Frásagnir guðspjallanna vitna um að ávallt hafði hann lífið í forgrunni. Í lifanda lífi hristi hann upp í „góða fólkinu“ og „hinum réttlátu“ með því að snæða með tollheimtumönnum og skækjum. Með því að segja dæmisögur um ótæmandi gjafmildi. Með því að samþykkja að því er virtist tilgangslausa fórn, til dæmis þegar konan ráðstafaði dýrum nardussmyrslum til að smyrja hann með þeirri dýru olíu. Með því að kenna í öllum aðstæðum og alltaf: „Safnið ykkur ekki auðæfum á jörðu!“ Lærisveinar Jóhannesar skírara voru síðan ekki sáttir við þá hegðun hans að standa fyrir samkvæmum og veislum. Farísearnir voru ósáttir við hann fyrir að lækna á hvíldardegi. Hann átti ávallt samfélag með fólki á jaðrinum, hann sýndi ómælda gjafmildi og fórnfýsi, vísaði til æðri tilgangs og markmiðs hér í heimi, hafði gleðina, hamingjuna og skemmtun á oddinum, lækningu og frelsun. 

 

Slíkt eigum við einnig að gera.  

 

Hvaðan kemur boðskapurinn?  

 

Til þess að skyggnast eilítið að baki þeirri dulúð sem umlykur upprisufrásögur Nýja testamentisins verðum við að huga að þeirri von sem boðuð er í Gamla testamentinu. 

 

Spámaðurinn Ezekíel segir frá beinunum í dalnum. Þar er að finna þá von að mennsk strípuð bein öðlist á ný, lífsanda frá Guði. Þar er að finna þá von að grafirnar opnist og hinir látnu muni rísa upp. Spámaðurinn horfir fram á veginn, fram í tímann, og segir frá upprisu Ísraelsþjóðarinnar.   

 

Jesaja spámaður boðar þjóðinni aðventu nýrrar sköpunar. Hann spáir fæðingu hins góða hirðis, og þess að réttvísi Guðs og réttlæti muni sigra þrátt fyrir allt. Jesaja talar um friðarhöfðingjann og gleðiboðskap Messíasar. Hann gefur þá von að viðmælendur hans muni upplifa nýjan himin og nýja jörð. 

 

Páskahátíðin er mun eldri en jólahátíðin, því hún á rætur í flótta og frelsun Hebrea úr þrældóminum í Egyptalandi. Í Exodus, annarri Mósebók, býður Móse þjóð sinni, sem voru þrælar Egypta, að rjóða blóði lambs á dyr híbýla sinna svo tíunda plágan sækti þjóðina ekki heim.   

 

Exodus frásagan er endursögð á páskum gyðinga, enn í dag, sú frelsunarfrásaga miðlar von frelsunar og handleiðslu Guðs. 

 

Jesú fagnað í þessu ljósi 

 

Með þennan bakgrunn í huga var Jesú fagnað sem frelsishetju og friðarhöfðingja, Messíasi, er hann kom til páskahátíðarinnar ríðandi á asna.   

 

Jesús var að koma þar á helgasta stað þjóðarinnar, á musterishæðina, og á hann var hlustað, eftir honum var tekið. Von þjóðarinnar var að rætast í honum. Jesús gekkst við þeirri stöðu, en um leið umbreytti hann og endurtúlkaði hefðina. 

 

Síðasta máltíð Jesú og lærisveinanna var í þessum anda. 

 

Jesús umbreytti hins vegar viðteknum skilningi á þeirri máltíð er hann samsamaði sjálfan sig páskalambinu. Hann steig einnig niður af þeim stalli sem hefðin setti hann á, sem meistara og læriföður. Hann steig niður til lærisveinanna og þreif fætur þeirra, sem var hlutverk lægst settu þjónanna á þeim tíma. Valdið sem hann beitir er vald kærleikans. Hann notaði ekki það hreyfiafl sem múgurinn átti þarna til að knésetja veraldlega leiðtoga, heldur gekk hann í niðurlæginguna til að verða upphafinn. 

 

Öll tákn þjóðarinnar holdgerfðust í honum. Öll von helgiritanna rættust í honum. 

 

Hinn ógurlegi ósigur föstudagsins langa snérist í sigur páskadagsmorguns. 

 

Hvers konar sigur? 

 

En hvers konar sigur boða hinir kristnu páskar?   

 

Jesús var ávallt lífsins megin, jafnvel frammi fyrir aftöku sinni. Í aðdraganda krossfestingarinnar, þar sem hann var umkringdur ótta, þverstæðum og svikum. Þegar allar aðstæður hvetja hann til þess að snúast til varnar og baráttu er leiðin sem Jesús velur og vill varða fyrir okkur, að sleppa tökunum á hverju því sem þú heldur fast um hér í heimi, þótt það sé jafnvel lífið sjálft. Aðferðin er sú að bjóða sig sjálfviljugur fram, snúast ekki til varnar, heldur gefa allt, sem gerir það að verkum að hann er með því tengdur uppsprettu alls sem er, uppsprettu allra góðra gjafa, uppsprettu lífsins, sem tengir hann við Guð.  

 

Að tæma sig á þennan hátt er ekki vegferðin að einhverju öðru marki, heldur markið sjálft. Þar opinberast kærleikurinn að fullu. Að gefa sjálfan sig Guði á vald, opnar á þverstæðukenndan máta upp líf okkar gagnvart enn þá stærra frelsi en við gætum öðlast með öðrum hætti. Leiðin er að gefa sig Guði á vald, án skilyrða eða undantekninga. Án þess að ætla að semja um það við Guð. Að gefa sig Guði í vald er leiðin að upprunaorkunni, elskunni að baki öllu, kærleikanum að baki tilverunni.  

 

Lykilatriðið við að opna sig fyrir samfélaginu við Guð, er þessi leið sem Jesús kennir, sem Jesús sjálfur fetar, að sleppa tökunum. Sleppa tökunum á hverju því sem við höldum fast um hér í heimi, og leyfa Guði að umbreyta lífi okkar til góðs.  

 

Um það snúast páskarnir og helgihaldið getur orðið manni slíkur vettvangur, þar sem við tengjumst Guði á einhvern óskiljanlegan en samt áþreifanlegan máta.  

Páskarnir ögra hinum augljósu staðreyndum um endalok lífsins og dauða. Maðurinn er líkt og blóm vallarins sem blómstrar og lifir í dag en fölnar og deyr á morgun.  Maðurinn, við öll, erum hluti þessarar náttúru sem á sér upphaf og endi. Kynslóðir koma og kynslóðir fara.    

 

Frásaga Markúsarguðspjalls segir frá því er konurnar komu til að smyrja líkama Jesús, og áttu von á nálykt og dauða. Þær áttu von á því að rotnun heljar mætti þeim á þessum morgni, en í staðinn var líkaminn ekki þar. Líkaminn var risinn upp, eins og beinin í dalnum. Friðarhöfðinginn hafði sigrað með valdi kærleikans, og vonin sem Jesaja hafði boðað orðin að veruleika. Í stað nályktar, mætti þeim ilmur nýrrar sköpunar, nýrrar vonar og trúar. 

 

Jesús Kristur er uppfylling fyrirheitanna en einnig hin sanna leið frelsis og sannleika hér í heimi. Það sem páskarnir og upprisa Jesús Krists boða okkur kannski umfram allt annað er réttlæti Guðs.  

 

Það er sú trú að réttlæti Guðs muni ná fram að ganga. Eins og sálmaskáld Davíðssálma segir: ,,Ljúkið upp fyrir mér hliðum réttlætisins, að ég megi fara inn um þau og lofa Drottinn!” Jesús Kristur er þetta hlið, Jesús Kristur er hlið réttlætisins. 

 

Þrátt fyrir allt heimsins böl, stríð og hamfarir. Þrátt fyrir erfiðleika og heilsuleysi, sjúkdóma, slys og áföll. Þrátt fyrir það að fólk sé á flótta í heiminum. Þrátt fyrir að fólk deyi, þrátt fyrir ýmsan missi, ástvina og heilsu. Þrátt fyrir misskiptingu gæðanna, og á stundum að því er virðist ómögulega baráttu, þá mun réttlæti Guðs sigra að lokum. 

 

Réttlæti hins algóða og kærleiksríka Guðs mun sigra, þrátt fyrir allt.   

 

Það er boðskapur páskanna.  

 

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.  

 

Takið postullegri kveðju:  Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda, sé og veri með yður öllum.  Amen. 

                                                                                                                                                                        Páskadagsmorgun í Bústaðakirkju 

                                                                                                                                                                        17. apríl 2022 kl. 8 árdegis