Hvar varst þú þegar bróðir minn þurfti á þér að halda? Heimsókn í Auschwitz og Birkenau

Hvar varst þú þegar bróðir minn þurfti á þér að halda? Heimsókn í Auschwitz og Birkenau

Turski var fangi í útrýmingarbúðunum í Auschwitz og Birkenau og sagði hann okkur: „Í Auschwitz átti ég ekki neitt, ég hafði ekkert nafn heldur aðeins húðflúr, töluna B-940.“ Hann hélt áfram og sagði: „Fólk spyr mig oft hvað var það versta sem ég upplifði í Auschwitz?“

Predikun 28/09/2023

„Úr djúpinu ákalla ég þig, Drottinn, Drottinn heyr þú raust mína, lát eyru þín hlusta á grátbeiðni mína.“ Svona hefst Davíðsálmur 130 en hann er hluti af safni Davíðsálma sem nefndir eru helgigönguljóð. Voru þau, og eru jafnvel enn í dag, sungin við pílagrímsgöngur til Jerúsalem. Hér ákallar höfundur Drottin úr djúpinu, frá myrkum stað þar sem ljósið nær ekki til. Í hjarta höfundar er syndin mikil og sektarkenndin enn meiri. Hér er þörf á að líta inn á við og skoða hverju er hægt að breyta og hvað er hægt að laga. Höfundur snýr sér til Drottins og biðlar til þjóðar sinnar, Ísraels, að gera hið sama þar sem hjá Guði er endurlausn og fyrirgefning.

Um miðjan september mánuð fékk ég þann heiður að vera hluti af teymi Íslands sem fór á lúterska alheimsþingið í Kraká, Póllandi. Slagorð þingsins var One Body, One Spirit, One Hope eða einn líkami, einn andi, ein von. Á þingið sóttu 150 lúterskar kirkjur frá 99 löndum um allan heim til að ákveða í sameiningu hver yfirlýsing þingsins ætti að vera til alheimssamfélagsins. Þarna mættust ólíkir menningarheimar til að læra af hverjum öðrum og til að efla góð tengsl milli kirknanna. Á þinginu voru fundir, umræðuhópar, helgihald og ferðalag til útrýmingarbúðanna í Auschwitz og Birkenau svo fátt sé nefnt. Tilgangurinn er að líta inn á við og skoða hvað er hægt að laga og hverju er hægt breyta, m.a. í ljósi þess hryllings sem átti sér stað í útrýmingarbúðunum.

Eftir að hafa gengið inn í Auschwitz og Birkenau í annað sinn, hugsaði ég með sjálfum mér: „Hvar var Guð?“ 1.3 milljónir fólks var flutt frá heimilum sínum til útrýmingarbúðanna og létust um 1.1 milljón þeirra þar. Ég sá myndir af konum með haldandi á börnum sínum fara úr lestarvagninum sem hafði komið til Birkenau. Fólkið hafði enga hugmynd um hvert það var komið og hvert leiðin stefndi. Nasistarnir völdu úr hópnum hverjir væru hæfir til að vera þrælar og var restin send í gasklefana. Um 80-90% af fólkinu var myrt í gasklefunum og voru þar um 250 þúsund börn. Þvílík illska sem átti sér stað og var henni leyft að lifa í um fimm ár. Hvar var Guð þegar fólkið þurfti á hjálp Drottins að halda?

Það er hægara sagt en gert að finna svar við þessari spurningu sem kemur upp í huga okkar allra þegar við göngum í gegnum erfiða og vonlausa tíma. Þetta sjáum við í guðspjalli dagsins þegar Marta segir við Jesú: „Drottinn, ef þú hefðir verið hér væri bróðir minn ekki dáinn.“ Með öðrum orðum: „Hvar varst þú þegar bróðir minn þurfti á þér að halda?“ Jesús fullvissir Mörtu að bróðir hennar muni upp rísa, hann segir: „Ég er upprisan og lífið, sá sem trúir á mig mun lifa þótt hann deyi.“ Í versunum á eftir kemur fram að hve mikið Jesús finnur til með þeim systrum Jesús og biður hann Maríu í kjölfarið um að leiða sig að líkinu. Þegar Jesús sér Lasarus grætur hann, hann grætur með fólkinu og fylgir því í sorginni. Það er hér sem enn ein efasemdin um getu Guðs er borin upp þegar nokkrir menn segja: „Gat ekki sá maður sem opnaði augu hins blinda einnig varnað því að þessi maður dæi?“ Fyrst Jesús gat læknað blindan mann, af hverju ætti hann ekki sömuleiðis að geta læknað þann sem er látinn? Til þess að fólk trúi því að Guð hafi sent Jesú á jörðina reisir hann Lasarus upp frá dauðum.

Þessi saga er falleg en hún skapar annað vandamál. Fyrst Jesús gat reist Lasarus upp frá dauðum, af hverju reisti hann ekki öll þau upp sem látin voru? Af hverju hjálpar Guð sumum en ekki öðrum? Af hverju hjálpar Drottinn ekki fólki sem syrgir látna ástvini sína? Hvar er Guð þegar fólk þjáist? Þessar erfiðu spurningar sem við beinum að Guði skapa hugrenningatengsl við píslagöngu Krists þegar hann segir á krossinum: „Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig?“ Hefur Guð yfirgefið okkur?

Við megum ekki gleyma því að Jesús skildi eftir Guð heilagan anda í okkur svo að við gætum í nafni Drottins framkvæmt kraftaverk. Við getum ekki reist neinn upp frá dauðum en við getum haldið utan um þau sem sitja eftir og sýnt þeim umhyggju og kærleika. Við getum gefið þeim eyra sem hlustar á þau og öxl fyrir þau til að gráta á. Við getum ekki breytt fortíðinni þar sem 1.1 milljón fólks lét lífið í útrýmingarbúðunum í Auschwitz og Birkenau. Við getum hins vegar litið inn á við og lært af reynslunni til að koma í veg fyrir að illskan nái að þrífast á meðal okkar. Við þurfum að fylgja orðum Páls í bréfi hans til Filippímanna og finna kjark til að standa fyrir því sem er gott og rétt og sýna með lífi okkar og dauða fram á hve mikill Kristur er á meðal okkar.

Hvar er Guð? Hérna inni. Guð heilagur andi er innra með okkur og Guð sonurinn er ávallt með okkur. Við getum verið kraftaverkið ef við kjósum það. Ef við þorum að líta inn á við og sjá að við erum öll jöfn frammi fyrir Guði sama af hverrar þjóðar við erum, hvaða kyni við tilheyrum, hvaða kynhneigð við höfum, sama hvort við getum gengið eða hvort við notum hjólastól. Við erum Guðs og Drottinn elskar okkur öll.

Á Lúterska alheimsþingið sóttu margir gestir frá hinum ýmsu heimshornum og kirkjudeildum. Einn af þessum gestum var 97 ára gamall maður frá Póllandi og hét hann Marian Turski. Turski var fangi í útrýmingarbúðunum í Auschwitz og Birkenau og sagði hann okkur: „Í Auschwitz átti ég ekki neitt, ég hafði ekkert nafn heldur aðeins húðflúr, töluna B-940.“ Hann hélt áfram og sagði: „Fólk spyr mig oft hvað var það versta sem ég upplifði í Auschwitz?“ Turski sagði að vissulega var mikil hungursneyð í útrýmingarbúðunum og kuldinn gríðarlega mikill, sérstaklega veturinn 1944-1945. Hann gat samt ekki sagt að hungrið og kuldinn hafi verið það versta sem hann upplifði í Auschwitz. Hvað var þá hið versta? Turski hélt áfram: „Okkur var komið fyrir í hermannaskála og vorum við um 800, 900, 1000, 1100, 1200 manns. Þér var troðið í koju og sváfu 5, 6, 7 manns á hverri dýnu. Við fórum að spá í hvar væri best að sofa? Á efstu dýnu eða neðstu? Auðvitað var best að sofa á þeirri efstu vegna þess að ef fangarnir náðu ekki að halda í sér að þá gat þvagið og hægðirnar lekið yfir þau sem lágu í neðri, svo það var betra að vera á efri dýnunni. Hins vegar var betra að vera á neðri dýnunni ef við vorum kölluð til að standa upp, sem gerðist mjög oft. Ef þú varst of veikburða og gast ekki komið þér úr efri koju áttir þú hættu á að vera barinn harkalega, nánast til dauða. Þetta var ekki einu sinni það versta. Hið versta var niðurlægingin! Ef þú tilheyrðir hópi Gyðinga, var ekki komið fram við þig eins og manneskju heldur sem litla pöddu eða kakkalakka. Þeir stöppuðu á okkur, börðu okkur, kæfðu okkur og drápu okkur.“

Út frá þessari ótrúlegu frásögn Marian Turski sjáum við hvernig nasistarnir gátu framkvæmt þessi illverk. Þeir tóku mennskuna frá þessu fólki og komu fram við það eins og pöddur. Þetta voru ekki manneskjur, heldur Gyðingar, Sígaunar, hópur samkynhneigðra, hreyfi- og þroska hamlaðir. Um leið og við förum að tala um fólk á þennan hátt erum við að bjóða hættunni heim. Þetta gerðu nasistarnir og lugu þeir að sjálfum sér til að réttlæta þau illverk og hrylling sem áttu sér stað í Auschwitz og Birkenau.

Ef við erum einlæg og glöð í trúnni og komum fram við hvert annað, ekki sem útlending, hinn svarta eða gula,  hinn fatlaða, konuna, karlinn, hinn samkynhneigða, transmanninn eða transkonuna, heldur sem manneskju skapaða í Guðs mynd þá geta kraftaverkin átt sér stað. Á þennan getum við þjónað fólki af kærleika og af ást og þá finnum við enn betur hvílík upphefð þar er að fylgja Kristi Jesú. Amen.