Vegferðin með Jesú getur fyllt lífið tilgangi og merkingu

Vegferðin með Jesú getur fyllt lífið tilgangi og merkingu

Stundum finnst mér eins og ein helsta áskorun nútímans sé fólgin í því að börn, unglingar og fólk almennt fái ekki að bera almennilega ábyrgð, eða hafa hlutverki að gegna, hlutverki sem skiptir máli. Á þessum akri, sem Jesús vísar til, er ávallt þörf fyrir fleiri verkamenn. Ef þú ert tilbúinn að fá hlutverk og axla ábyrgð, þá vill Jesús nýta krafta þína til góðs.

Sl. 91:1-4

1Kór. 3:6-9

Jh. 4:34-38

 

Biðjum:

Drottinn, ó, Drottinn vor,

dýrð þína' að efla,

göfga þig einan æ gef oss náð,

vinna þitt verk á jörð,

vera þér til dýrðar,

vegsama nafn þitt um lög og láð. (Sálmur 469). Amen.

 

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

 

Stundum finnst mér eins og ein helsta áskorun nútímans sé fólgin í því að börn, unglingar og fólk almennt fái ekki að bera almennilega ábyrgð, eða hafa hlutverki að gegna, hlutverki sem skiptir máli.

 

Ungmenni fá seint að bera ábyrgð. Það getur fylgt því tilgangsleysi að hafa ekki hlutverki að gegna, að fá ekki að bera ábyrgð. Ég held að ein af rótum þeirra andlegu áskorana sem mætir unga fólkinu í dag, liggi í þessum jarðvegi, þ.e.a.s. okkur lánast ekki að fela þeim viðeigandi hlutverk og ábyrgð. Hér á árum áður voru ungmenni hins vegar farin að vinna langt fyrir aldur fram, ef svo má segja, sem var kannski full mikið af því góða.

 

Hlutverk

 

Textar Biblíunnar fjalla meðal annars um þetta, hlutverk og ábyrgð. Stundum tölum við um að fólk hafi köllun til ákveðinna verka og í gegnum þau verk hafi maður því hlutverki að gegna og þar með tilgang. Það er mjög Biblíulegt og kirkjulegt tungutak að tala á þeim nótum. Prestar og djáknar eru kallaðir til þjónustu, kallaðir af söfnuðum, valdir af fulltrúum safnaðanna, það er svona meginreglan, svo vígðir af biskupi.

 

Við getum einnig haft köllun til annarra verka, til kennslu, til lækninga, til þjónustustarfa, til trjáræktar og landbúnaðar, sjómennsku, ferðaþjónustu, til nánast hvaða starfs sem er.

 

Hvað þýðir slíkt orðalag í þínum huga, að hafa köllun?

Átt þú slíka reynslu að þú hafir fundið til köllunar, til einhverra verka?

 

Í hinu Biblíulega og kirkjulega samhengi er síðan talað um innri köllun og ytri köllun. Innri köllunin er þegar við finnum eitthvert tog innra með okkur, tog í ákveðna átt, tog og löngun til ákveðinna verka. Ytri köllunin er síðan þegar innri köllunin finnur sér farveg í einhverju starfi eða námi á einhverjum vettvangi, það losnar starf kennara og maður sækir um, maður er ráðinn til starfa á sjúkrahúsið, og þannig mætti áfram telja.

 

Einmitt þetta gengum við í gegnum hér um daginn, í Grensáskirkju, þar sem sóknarnefnd Grensáskirkju óskaði eftir því við biskup Íslands að hann myndi vígja Daníel Ágúst til þjónustu prests. Danna okkar langaði einmitt að verða prestur. Þar fór því saman hin innri og ytri köllun. Biskup svaraði kalli og nú er Danni orðinn séra Daníel Ágúst.

 

Samhengi textans

 

Jesús notar gjarnan líkingar úr landbúnaði, um sáningu og uppskeru. Slíka líkingu notar hann í guðspjalli dagsins. Hann er í orðum sínum að hvetja lærisveina sína til að halda þegar af stað til að útbreiða ríki Guðs, ekki bíða með hendur í skauti, heldur halda þegar af stað.

 

Samhengi textans er stórkostlegt. Lærisveinarnir eru þarna á undan í textanum að velta fyrir sér hvort einhver hafi gefið Jesú að borða og hann svarar: Minn matur er að gera vilja þess sem sendi mig og fullna verk hans. En þar rétt á undan í atburðarrás textans á Jesús samtal við samverska konu við brunn.

 

Þetta er fræg sena.

 

Jesús og samverska konan

 

Jesús og samverska konan. Samverska konan gefur honum einmitt að drekka úr brunninum.

 

Það er mjög margt við þessa senu að athuga. Samkvæmt öllum viðteknum reglum þess tíma þá mátti hann ekki tala við Samverja, og alls ekki samverska konu. Hvað þá biðja hana um að gefa sér að drekka, sem hann gerði.

 

Og ekki nóg með að hann skyldi þiggja vatn úr skjólu þessarar útlendu konu, heldur sagði hann: „Hvern sem drekkur af þessu vatni mun aftur þyrsta en hvern sem drekkur af vatninu er ég gef honum mun aldrei þyrsta að eilífu. Því vatnið, sem ég gef honum, verður í honum að lind sem streymir fram til eilífs lífs.“

 

Jesús er þarna að bjóða þessari útlendu konu það allra heilagasta sem hann var kominn til jarðar að veita. Hann finnur að konan trúir, hann finnur að konan tekur við boðskapnum um nærveru Guðs og elsku, í hjarta hennar er greinilega jarðvegur trúar, tilbúinn til uppskeru.

 

Hún biður hann að gefa sér þetta eilífa vatn.

 

Í þeim skilningi eru akrarnir hvítir til uppskeru. Lærisveinarnir þurfa bara að fara af stað og boða fagnaðarerindið, jafnvel þangað sem ekki var von á þesskonar uppskeru.

 

Eins og við eigum einnig að gera í dag.

 

Ekki bara til þeirra sem næstir okkur eru, heldur þvert á alla flokkadrætti, þvert á allar hugsanlegar stéttir, þjóðir, kyn og stöðu. Jesús er brúin þar á milli, Jesús vill brúa allar þær gjár og brúin er smíðuð úr kærleika Guðs til manna.

 

Þessi magnaða frásaga af samtali Jesú og samversku konunnar leiðir síðan til þess að hún skilur eftir skjólu sína og fer af stað að boða komu Messíasar í heiminn, í sínu samfélagi, í sinni heimabyggð.

 

Það er verkefnið, að vera sem hendur Guðs hér í heimi, hér og nú.

 

Það er það hlutverk sem allir eru kallaðir til að vera og gera, þeirra sem vilja vera samferða Jesú á lífsveginum. Vera sem ljósberar Guðs í heiminum. Vera sem hendur Guðs hér í heiminum.

 

Í því hlutverki finnum við gjarnan uppskeru, þar sem einhver annar hefur sáð, á sama tíma og við kannski sáum fræjum, sem annar mun uppskera síðar.

 

Þannig virkar heimurinn. Þannig virkar heimurinn, ekki bara á hinum kirkjulega vettvangi, heldur einnig á öðrum sviðum, í skólunum, heilbrigðisþjónustunni, félagsþjónustunni og hvar þar annarsstaðar, þar sem maðurinn leitast við að læra, kenna, þjóna, sinna, lækna og líkna.

 

Þar finnum við fyrir samhengi kynslóðanna, byggjum á því sem einhver annar vann áður, því sem áður hefur verið gert, finnum styrkinn í því að einhver sáði fræi trúar, byggði upp ákveðna þekkingu, skipulagði ákveðna starfsemi, og þannig mætti áfram telja.

 

Þú hefur hlutverki að gegna og mátt gjarnan taka ábyrgð

 

Á þessum akri, sem Jesús vísar til, er ávallt þörf fyrir fleiri verkamenn. Ef þú ert tilbúinn að fá hlutverk og axla ábyrgð, þá vill Jesús nýta krafta þína.

 

Þú hefur hlutverki að gegna, það er þörf fyrir þig.

 

Það er síðan svo merkilegt með mannlífið að enginn er eins. Við erum öll einstök, aldrei hefur neinn verið til í heiminum sem er alveg eins og við. Ætli það sé tilviljun?

Við erum öll ólík, því það er þörf fyrir ólíkar tegundir af fólki, allar tegundir af fólki, okkur öll.

 

Og verkefnið er að huga að náunga okkar, huga að þörfum annarra, leggja sig fram um að auka birtustigið í lífinu, okkur og öðrum til blessunar. Sýna mildi, í eigin garð og annarra. Rækta jörðina, vernda lífríkið, hlúa að öllu sem lifir. Rækta tengslin við okkur sjálf, náunga okkar og einnig Guð, útbreiða fagnaðarerindið.

 

Vera aktív, láta um okkur muna í heiminum. Passa einnig upp á að hlúa að okkur, hvílast, nærast, styrkjast, eflast. Vera trú í litlu, því þá mun okkur vera falin stærri verkefni, meiri ábyrgð, ef við viljum þiggja það. Leggja okkur fram, til góðra verka. Hlutirnir gerast ekkert af sjálfu sér. Það er okkar að finna leið til að axla ábyrgð, finna leið til að vera til blessunar.

 

Verkefnin eru ærin, ófriður í heiminum, hungur og skortur af ýmsu tagi, þjónusta við þurfandi, sjúkdómar, slys og náttúruhamfarir, misskipting gæðanna er sístætt verkefni og þannig mætti áfram telja.

 

Gagnvart því öllu, skulum við ekki örvænta, heldur meðtaka boðskap guðspjallsins um að það er Guð sem gefur vöxtinn, það er Guð sem er allt í öllu, það er Guð sem ætlar sér góða hluti með heiminn allan, og þar með mig og þig.  

 

Verkefni okkar er að leggja okkar fram í anda þess sem ritað er á einum stað í Rómverjabréfinu 12. kafla, þar sem segir: Lát ekki hið illa sigra þig en sigra þú illt með góðu. 

 

Það er sannarlega skýrt verkefni. Það er því okkar að gera eitthvað. Mér fannst gaman að heyra svarið frá einu fermingarbarninu um árið, sem valdi þetta sem minnisvers á fermingardaginn, ég spurði, af hverju valdir þú þetta? Lát ekki hið illa sigra þig en sigra þú illt með góðu. 

 

Hann svaraði: Jú, þetta fjallar um að við höfum verk að vinna, þetta fjallar um að ég get látið um mig muna, þetta fjallar um að gera eitthvað, ég vil sigra hið illa, með góðu. Ég man hann æfði íþróttir, flottur drengur, hann leit svona svolítið á þetta eins og keppni, þar sem maður getur lagt sig fram og náð árangri.

 

Mér fannst það góð hvatning frá fermingarbarninu. Því stundum er það jú þannig að þegar við erum að kenna, hvort sem það er í fermingarfræðslu, eða á öðrum vettvangi, þá er kennarinn alltaf að læra eitthvað nýtt.

 

Kannist þið ekki við það?

 

Svo lengi lærir sem lifir – það finnst mér gott viðhorf. Það er einmitt annað verkefni sem við höfum, það er að læra ávallt eitthvað nýtt. Megi Guð gefa okkur náð til þess, að læra eitthvað nýtt, að finna köllun okkar í lífinu, að finna hlutverk sem við getum sinnt, að hjálpa okkur að axla þá ábyrgð sem okkur ber, að finna tilgang með lífinu, tilganginn sem okkur er ætlað.  

 

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Takið postullegri kveðju: Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé og veri með yður öllum. Amen. 


Prédikun flutt í Grensáskirkju, 21. sd. e. þrenningarhátíð, 29. október 2023