Biðjum:
Þú
einn veist hvað mér hagar
og
hjartans þekkir mál.
þá
dimman flýr og dagar
lát
daga´í minni sál
og
ljóma ljós frá þér.
Við
sérhvað sem ég geri,
ó,
sólarherra, veri
þín
ásýnd yfir mér. (sálmur 397:2). Amen.
Náð
sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Yfirskrift
þessara orða minna hér í dag/kvöld, er „Þið fáið þetta bara í hnakkann,
strákar!“
Mér
þykir alltaf svolítið gaman að leita að svona yfirskrift, þegar ég hef tekið
saman svona hugvekju, því með henni reyni ég að fanga kjarnann í því sem ég er
hér að segja.
„Þið
fáið þetta bara í hnakkann, strákar!“
Er
þetta texti frá í fréttum í gær?
Það
eru meitlaðir viskutextar sem kirkjuárið færir okkur að þessu sinni.
Orðið.
Heyrðuð
þið fyrri textann sem lesinn var hér áðan? Textann úr riti Jeremía spámanns? Innihald
þess texta gæti verið hluti af einhverjum fréttaflutningi dagsins í dag sem
tengist atburðunum á Gaza. Í textanum er talað um Ísrael, já þjóðina Ísrael.
Jeremía
var spámaður í Ísrael á síðasti hluta sjöunda aldar fyrir Krist. Já, það er
næstum 3000 ár síðan að Jeremía var spámaður í Ísrael.
Já,
það er sama Ísrael og stendur í stríði fyrir botni Miðjarðarhafs, í dag. Ísrael
þýðir samkvæmt orðanna hljóðan á hebreskunni, sá sem glímir við Guð. Það var Jakob, sonur Ísaks, sonur Abrahams,
sem glímdi við Guð og menn, eins og segir í Mósebókunum. Í þeirri frásögu fékk
hann í kjölfar glímunnar, nýtt nafn, Ísrael,
sem merkir einmitt það, sá sem glímir við Guð.
Frásögurnar
af Abraham, Ísak, Jakobi og Jósef eru grundvallandi fyrir skilning okkar á
hlutverki þessarar þjóðar sem þarna birtist og reyndar hlutverki kristinna
manna í heiminum. Þær eru einnig grundvallandi fyrir skilning okkar og túlkun á
öðrum textum Biblíunnar.
Spámenn
Gamla testamentisins, eins og Jeremía, voru gagnrýnir á sitt eigið samfélag, á
sitt eigið samhengi, þeir sögðu ráðamönnum eigin þjóðar til syndanna, þeir
lyftu upp því sem betur mátti fara í stjórn landsins og framgöngu yfirvalda. Þeir
voru ekki bara að spá fyrir um eitthvað sem myndi hugsanlega gerast í
framtíðinni, heldur voru þeir samfélagslegir gagnrýnendur, sem sögðu kannski
upphátt það sem aðrir ekki þorðu að segja.
Orðið
sem Jeremía spámaður fékk frá Drottni eins og segir í texta dagsins var m.a.
eftirfarandi: „ef þér gerbreytið háttum yðar og verkum, ef þér sýnið
sanngirni í deilum manna á meðal, kúgið ekki aðkomumenn, munaðarleysingja og
ekkjur, úthellið ekki saklausu blóði á þessum stað og eltið ekki aðra guði yður
til tjóns, þá mun ég búa á meðal yðar á þessum stað…“
Já,
svona hefur þetta verið í gegnum árþúsundin. Glíman við Guð. Þarna þurfti
þjóðin s.s. að gerbreyta háttum sínum. Þjóðin var s.s. í þessu samhengi að
úthella saklausu blóði.
Hljómar
kunnuglega.
Það
er s.s. ekki nýtt að saklausu blóði sé úthellt þarna. Rætur ágreiningsins og
átakanna í dag, rætur vandans liggja árþúsundir aftur í sögunni. Gamla
testamentið er síðan uppfullt af frásögum af þjóðinni, Ísraelsþjóðinni, í
samskiptum við aðrar þjóðir, þjóðarbrot og þjóðflokka.
Stundum
gengur þeim þetta vel, þ.e. að „gerbreyta háttum sínum“, þ.e. að lifa í
samræmi við hlutverk sitt, stundum gengur þeim það miður. Stundum gengur þjóðin
á Guðs vegum, stundum er hún víðs fjarri Guðs vegum. Það er vitanlega glíman.
Og
í gegnum söguna og árþúsundin hefur Ísraelsþjóðin jú einnig sætt kúgunum,
ofbeldi, yfirgangi. Slíkar frásögur eru margar í samhengi Biblíunnar. Þjóðin
leið undan kúgun Egypta, Assýringa, Babýlóníumanna og þannig mætti áfram telja
í gegnum hina fornu sögu. Þjóðin leið síðan hryllinginn undan Nasistum í síðari
heimstyrjöldinni, sem er nær okkur í tíma, sem er hluti af okkar nútíma og
samhengi, eins og við þekkjum svo vel.
Þannig
hefur þetta verið í gegnum árhundruðin og árþúsundin, þ.e. þjóðinni lánast að
ganga á Guðs vegum og þjóðinni lánast það ekki.
En
hvað þýðir það, að ganga á Guðs vegum. Í hverju felst það? Hvert er hlutverk
þjóðarinnar?
Hvert er hlutverkið?
Já,
hvert er hlutverkið? Á hvaða grunni gagnrýnir Jeremía þjóðina á þennan máta?
Jú, þegar Guð gerir sáttmála við Abraham í textum Mósebóka, fær Abraham það
hlutverk að leiða nýja þjóð í heiminum til nýs hlutverks.
Og
hlutverk þjóðarinnar er…
Já,
hvert er hlutverkið?
Veistu
það?
Þ.e.
að vera öðrum þjóðum til blessunar. Að reynast öðrum vel. Vera öðrum til
blessunar.
Blessun.
Að
reynast vel, styðja, styrkja, hugga, hlúa að, vernda og jafnvel fórna sér fyrir
aðra. Eins og birtist í þessu ákalli spámannsins, að sýna sanngirni í
deilum manna á meðal, kúga ekki aðkomumenn, munaðarleysingja og ekkjur, úthella
ekki saklausu blóði.
Það
er hlutverkið. Það var algerlega nýtt á sínum tíma, algerlega ný leið til að
lifa í heiminum.
Það
er hlutverkið sem þjóðin fékk og þjóðin hefur enn. Það má einnig segja að það
sé hlutverk allra kristinna manna í heiminum, því á þessum grundvelli stendur
einnig kristnin. Á þessum grundvelli er krossinn á Golgata einnig reistur.
Þið
heyrið hve þessir textar um Abraham eru miðlægir, með hliðsjón af þeim textum skiljum
við hlutina ögn betur.
Einnig
í dag.
Viskan
djúp
Og
á þeim grunni miðlar Páll postuli síðan djúpum sannleika um nærveru Guðs, eins
og hann segir: „… enginn okkar lifir sjálfum sér og enginn deyr sjálfum sér.
… . Hvort sem við þess vegna lifum eða deyjum þá erum við Drottins.“
Já,
við erum Drottins, við erum Guðs börn, hvert og eitt. Og um leið og við erum
Guðs börn, þá leyfum við öllum öðrum einnig að vera Guðs börn.
Við
felum Guði okkur sjálf og öll hin Guðs börnin. Hvert og eitt okkar skal fljúga
hér í lífinu eins og við erum fiðruð. Hvert og eitt mannsins barn er elskað af
Guði, eins og það er.
Þess
vegna hvetur Páll okkur til að dæma ekki hvert annað. Það er einmitt á þeim
sama grunni og Jesús hafði hvatt viðmælendur sína til að dæma ekki hvert annað.
Jesús
nefnir einmitt í því samhengi bjálkann og flísina.
Bjálkinn
og flísin
Já,
þetta eru mjög myndrænar og lífsseigar myndir. Þær miðla miklum sannleika um
okkur manneskjurnar. Okkur virðist auðveldara að koma auga á mistök náunga
okkar en okkar eigin mistök. Okkur er gjarnt að réttlæta okkur sjálf, en eigum
auðveldara með að dæma aðra.
En
svo getum við einnig verið hörð í okkar eigin garð, kröfuhörð og jafnvel
miskunnalaus. Við gleymum því stundum að við erum einnig Guðs elskuð börn.
Ég
held það sé þess vegna sem Jesús minnir okkur einnig á elskuna í okkar eigin
garð, í tvöfalda kærleiksboðinu, en þar segir einmitt Jesús:
Elska
skaltu Drottinn Guð þinn, og síðan elska skaltu náungann,
eins og sjálfan þig.
Tvöfalda
kærleiksboðorðið er eiginlega þrefalda kærleiksboðorðið, því það bendir til
Guðs, náungans og síðan einnig okkar sjálfra.
Sannur
þráður
Þessir
fornu viskutextar miðla okkur einhverju því sem við finnum ekki annarsstaðar. Viskan
er djúp sem þarna leynist og höndin sterk sem viskunni miðlar.
Það
miðar allt að einhverri mildi, þ.e. að við ræktum mildina í eigin fari. Við
setjumst ekki í dómarasæti gagnvart hvert öðru, eins og segir í textanum: „Dæmið
ekki og þér munuð eigi verða dæmd. Sakfellið eigi og þér munuð eigi verða
sakfelld. Fyrirgefið öðrum og Guð mun fyrirgefa yður. Gefið og yður mun gefið
verða.“
Einn
þjálfari minn í fótboltanum í gamla daga orðaði það einhvern veginn svona: „Strákar
ef þið æfið ekki almennilega, hugsið ekki almennilega um ykkur, borðið, hvílist
og gerið þessa hluti sem ég er að tala um, þá fáið þið það bara í hnakkann!“
Það
var mikill sannleikur í því og það orðalag skyldum við. Við fáum þetta bara í
hnakkann, ef við högum okkur ekki almennilega.
Það
er einmitt það sem Jesús segir hér við viðmælendur sína og lærisveina: „Þið
fáið það bara í hnakkann, ef þið eruð dómhörð í annarra garð.“
Fyrirgefið
„Fyrirgefið
öðrum og Guð mun fyrirgefa ykkur.“ Segir einnig í textanum.
Fyrirgefið,
það er hin kristna leið í heiminum, leið til frelsis og þess sem fríar.
Fyrirgefið sagði einnig Jesús á krossinum. Fyrirgefið, því þeir vita ekki
hvað þeir gjöra.
Hin
kristna fyrirgefning er samkvæmt þeim orðum Jesú, óháð því að hinn seki játi
sekt sína, iðrist og leiti sáttargjörðar, eins og við erum mjög upptekin af í
nútímanum. Hin kristna fyrirgefning er miklu ríkari, dýpri, fórnfúsari. Hún
fórnar kannski svo miklu að ekki er lengur rými fyrir hana í samfélaginu, eða
hvað?
Fyrirgefningin
fjallar reyndar sjaldnast um hina, hún fjallar um okkur sjálf. Í gegnum hina
kristnu fyrirgefningu eigum við færi á að losna úr fjötrum fortíðar, losna úr
fjötrum einhvers þess sem hefur komið illa fram við okkur, fjötrum einhvers
utanaðkomandi, sem ekki á að stjórna lífi okkar í dag.
Hin
kristna fyrirgefning er í raun svo augljós, en í dýpt sinni svo mikill
leyndardómur. Það er okkar að taka á móti henni, hér og nú, í lífinu okkar, gagnvart
viðfangsefnum daganna, í samskiptum við náunga okkar og hvert annað. Fyrirgefningin
getur hjálpað okkur að lifa lífinu í fullri gnægð.
Dýrð
sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um
aldir alda. Amen.
Prédikun flutt sunnudaginn 13. júlí 2025 í Grensáskirkju kl. 11 og í Bústaðakirkju kl. 20