Vald vonarinnar

Vald vonarinnar

Við, sem nú lifum, eigum hlutdeild í þessu trausti sem veitir von. Við þiggjum það sem okkur hefur verið miðlað fyrir uppbyggjandi áhrifavald kristinnar kirkju, hér í Reykholti sem annars staðar, við þiggjum vonina og göngum inn í það líf sem við erum kölluð til: Að miðla von inn í vonleysið, vongleði inn í örvæntinguna, að auka og efla traustið til Guðs í okkar nærumhverfi, því við erum elskuð og dýrmæt Guðs börn, öll sem eitt.

Við heilsum ykkur héðan frá Reykholtshátíð sem nú er haldin í 28. sinn, fyrst árið 1997. Ári fyrr var nýja, glæsilega kirkjan vígð, og því fögnum við þrjátíu ára vígsluafmæli á næsta ári – og erum þegar byrjuð að bjóða gestum – takið daginn frá!


Friðarbænin, sem kennd er við Franz frá Assisi, hefur verið leiðarþráður í sumarmessunum okkar prestanna hér í Borgarfirði. Við höfum fjallað um frið, kærleika, fyrirgefningu, einingu, samhug og trú. Og nú er komið að voninni:

 

Gefðu mér að færa trú þangað sem efi er,
von inn í örvæntingu,
birtu þangað sem myrkur grúfir,
og gleði þangað sem sorgin býr.

 

Að færa von inn í örvæntingu. Er það ekki eitt höfuðmarkmið okkar sem kristinnar kirkju, að bera von og birtu og gleði inn í erfiðar aðstæður?  Kirkjan á öðru fremur að að flytja orð Guðs um vonarríka framtíð, eins og segir hjá Jeremía spámanni: „Því að ég þekki sjálfur þær fyrirætlanir sem ég hef í hyggju með yður, segir Drottinn, fyrirætlanir til heilla en ekki til óhamingju, að veita yður vonarríka framtíð“ (Jer 29.11). Stundum er talað þó talað um kirkjuna á öðrum nótum, til dæmis sem stofnun, jafnvel valdastofnun. Stundum hefur hún verið það. Svo var þó ekki fyrstu þrjár aldirnar þegar unga kirkjan var ofsótt.

 

Er kirkjan valdastofnun?

Og enn í dag er fólk ofsótt vegna trúar sinnar víða í heiminum. Við erum lánsöm að hérlendis skuli ríkja trúfrelsi, að við sem hér búum erum frjáls að miðla og iðka trú okkar, hver sem hún kann að vera. Það er ekki eðli kristinnar kirkju að vera valdastofnun með þeirri takmörkun á frelsi fólks sem það kann að hafa í för með sér. Eðli kristinnar kirkju er að færa góðu fréttirnar um ást Guðs, boða fagnaðarerindið, miðla trú og von og kærleika.

 

Samt talar Jesús um vald í guðspjalli dagsins, skírnarskipuninni: „Allt vald er mér gefið á himni og jörðu.“ Og svo biður hann lærisveina sína að fara og skíra „í nafni föður, sonar og heilags anda“ og kenna „allt það sem ég hef boðið yður.“ Vald Jesú er ekki vald í pólitískum skilningi, yfirráð eða forræðishyggja. Vald Jesú merkir að allt er í hendi hans, að allt er í umsjá Guðs, að ekkert fær slitið okkur úr hendi Guðs, eins og Jesaja spámaður segir (Jes 43.13) og endurómar í orðum Jesú í Jóhannesarguðspjalli (Jóh 10.27-30):

 
Mínir sauðir heyra raust mína, og ég þekki þá, og þeir fylgja mér. Ég gef þeim eilíft líf, og þeir skulu aldrei að eilífu glatast, og enginn skal slíta þá úr hendi minni. Faðir minn, sem hefur gefið mér þá, er meiri en allir, og enginn getur slitið þá úr hendi föðurins. Ég og faðirinn erum eitt.

 

Vald sem byggir upp

Páll postuli talar líka á einum stað um vald sitt, vald „sem Drottinn hefur gefið til að byggja ykkur upp en ekki til að rífa ykkur niður“ (2Kor 10.8). Vald getur líka verið áhrifavald, áhrifamáttur. Þar eru orð okkar mikilvæg. Orð hafa áhrif. Orðum fylgir ábyrgð. Orðum fylgir vald. Orð okkar ættum við að nota til að byggja hvert annað upp, ekki til að rífa hvert annað niður. Temjum okkur orð sem uppörva, orð sem eru athvarf, orð sem færa von, von sem er mikil uppörvun þeim sem leita athvarfs í þeirri sælu von sem er „eins og akkeri fyrir sálina, traust og öruggt“ (Heb 1.18-19). Við gætum þess vegna talað um vald vonarinnar. 


Guð þekkir okkur með nafni

Vonin er miðlæg í þeim ritningarlestrum sem tilheyra þessum sunnudegi. Hjá Jesaja spámanni er lagður grundvöllur að traustinu til Guðs, að Guð muni vel fyrir sjá, því Guði er annt um okkur, Guð þekkir okkur með nafni:

 

Óttast þú ekki því að ég frelsa þig,
ég kalla á þig með nafni,
þú ert minn.
Þú ert dýrmætur í augum mínum,
mikils metinn og ég elska þig.
Óttast þú ekki
því að ég er með þér.

 

Þú ert mín/minn, þú ert dýrmæt/ur. Já, Guð er með okkur, Guð, skapari himins og jarðar, alls hins sýnilega og ósýnilega. Þannig segir í sameiginlegri trúarjátningu kristinnar kirkju um allan heim, Níkeujátningunni, sem er að stofni til frá árinu 325 – 1700 ára sem sagt! Guð er með og umhyggja Guðs og vernd nær til alls, líka þess sem er ofvaxið okkar skilningi, okkur ósýnilegt, þess sem við vitum ekkert um.

 

Nærvera Guðs umlykur okkur

Það staðfestir frelsarinn okkar, Jesús Kristur, í lokaorðum Matteusarguðspjalls:


Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar. 

Jesús Kristur, af sömu veru og Guð faðir, er með okkur alla daga allt til enda veraldar. Nærvera Guðs umlykur okkur, og allt sem er, í lífi og dauða. Á ríki hans mun enginn endir verða, segir í játningunni fornu, og við getum skilið þau orð á sama hátt og orðin í sunnudagaskólalaginu og byggir á þriðja kafla Efesusbréfsins: Elska Jesú er svo dásamleg, svo há að þú kemst ekki yfir hana, svo djúp að þú kemst ekki undir hana, svo víð að þú kemst ekki út úr henni.

Mættuð þið því geta skilið það með öllum heilögum hvílík er víddin og lengdin, hæðin og dýptin í kærleika Krists og fá að sannreyna hann, sem gnæfir yfir alla þekkingu, og ná að fyllast allri Guðs fyllingu (Ef 3.18-19).

 

Já, nærvera Guð umlykur okkur á bak og brjóst (Sálm 139.5). Í þeirri nærveru eigum við von, í þeirri nærveru eigum við líf. Sú nærvera er okkur vald vonarinnar. 

 

Að lifa nýju lífi

Í Rómverjabréfinu (Róm 6) er allt undir, líf og dauði. Táknmál skírnarinnar er sterkt: Eins og Jesús Kristur gekk inn í dauðann og út úr honum aftur, þannig erum við merkt LÍFINU með stórum staf í skírninni, kölluð til „að lifa nýju lífi,“ eins og Páll postuli orðar það. Að lifa nýju lífi. Það er kjarni kristinnar trúar. Það er köllun kirkjunnar. Líf kirkjunnar er líf í von, líf í kærleika, líf í friði og fyrirgefningu. Það er lífið sem við erum kölluð til að lifa og iðka, líf í von.

 

Og til þess að styrkja okkur í því höfum við kirkjuna okkar á hverjum stað. Líf í trú er líf í samfélagi, félagsskapnum söfnuði. Hér í Reykholti hefur verið kirkja frá því um miðja 11. öld og kirkjumiðstöð, svonefndur „staður“, líklega þegar árið 1118. Á 13. öld velur höfðinginn og auðmaðurinn Snorri Sturluson sér þennan stað sem miðstöð fyrir veraldlegt vald sitt og gerir Reykholt að miðstöð bókmenningar. Menningarleg verðmæti skrifa Snorra Sturlusonar verða seint ofmetin. Norðmenn ættu til dæmis fáar eða engar sögur af þessum öldum ef ekki væri fyrir Snorra.

 

Tungumál kirkjunnar

Sagan og hefðin eru okkur mikilvæg. Tungumálið sömuleiðis og það sem tungumálið getur miðlað. Tungumál kristinnar kirkju eru eins mörg og þjóðirnar og þjóðarbrotin sem játa trúna. Gríska og latína voru eitt sinn höfuðtungumál vestrænnar kirkju og sérstaklega latínan hluti af valdakerfinu. Með siðbót Lúthers á 16. öld breyttist þetta. Nú skyldi messað á móðurmáli og Biblían þýdd og sálmar þýddir og ortir.

 

Arfleifð Snorra Sturlusonar vóg þungt í þeirri staðreynd að íslenskan varð dönskunni yfirsterkari þegar kom að nýju kirkjumáli á Íslandi. Okkar ástkæra, ylhýra, lifði vegna þess að við áttum ritmál til að íslenska ritningarnar – og færa þannig vald orðsins sem byggir upp og veitir von áfram til næstu kynslóða.

 

Þiggjum vonina

Já, Orðið árþúsunda gamla miðlar von, gefur fyrirheit um vonarríka framtíð. Í Harmljóðunum (3.21-26) endurómar traustið til Guðs sem hefur í gegn um aldir og árþúsund gefið mannkyni von og styrk til að halda áfram för sinni, þrátt fyrir ágjöf og áföll og alls konar ástand sem okkur hrjáir.

 

En þetta vil ég hugfesta
og þess vegna vona ég:
Náð Drottins er ekki þrotin,
miskunn hans ekki á enda,
hún er ný á hverjum morgni,
mikil er trúfesti þín.
Drottinn er hlutdeild mín, segir sál mín,
þess vegna vona ég á hann.
Góður er Drottinn þeim er á hann vona
og þeim manni er til hans leitar.
Gott er að bíða hljóður
eftir hjálp Drottins.

 

Við, sem nú lifum, eigum hlutdeild í þessu trausti sem veitir von. Við þiggjum það sem okkur hefur verið miðlað fyrir uppbyggjandi áhrifavald kristinnar kirkju, hér í Reykholti sem annars staðar, við þiggjum vonina og göngum inn í það líf sem við erum kölluð til: Að miðla von inn í vonleysið, vongleði inn í örvæntinguna, að auka og efla traustið til Guðs í okkar nærumhverfi, því við erum elskuð og dýrmæt Guðs börn, öll sem eitt.

 

Guð vonarinnar fylli yður öllum fögnuði og friði í trúnni svo að þér séuð auðug að voninni í krafti heilags anda (Róm 15.13). Amen.