Hinir djúpu og himnesku glitþræðir

Hinir djúpu og himnesku glitþræðir

Glitþræðirnir ljóma þegar kærleikurinn er ræktaður og tengslin sem gera lífið fagurt, þegar við hlúum hvert að öðru, gefum öðrum gaum, gefum af okkur, ekki bara eitthvað sem rúmast í kassa, heldur einnig það sem ekki er hægt að pakka inn.
fullname - andlitsmynd Þorvaldur Víðisson
24. desember 2023
Flokkar

Lk. 2:1-14 

Biðjum: 

 

Heilagi Guð á himni og jörð 

hljómi þér lof og þakkargjörð! 

Blessað sé vald og viska þín! 

Vegsemd þér kveði tunga mín. (sl. 277:1) Amen. 

 

Gleðileg jól 

Kæri söfnuður, kæru vinir, Gleðileg jól. 

Stundin er runnin upp, jólin hafa gengið í garð, kirkjuklukkurnar hafa hringt inn jólin. Heilög stund.  

Læknirinn Lúkas, sem guðspjall aðfangadags er kennt við, var geysilega snjall að koma saman svo ríkri lýsingu í ekki lengri texta.  

En það bar til um þessar mundir að boð kom frá Ágústusi keisara að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina 

En þannig hefst jólaguðspjall Lúkasar, sem við heyrðum hér áðan, og við rifjum upp á hverjum jólum, endurtökum textann um fæðingu Jesúbarnsins í Betlehem, Maríu og Jósef, hirðana og englana. Söng englana um frið 

Hversu fögur frásaga og myndræn 

Jarðnesk saga  

Frásagan er veraldleg á svo marga vegu, hún fjallar um ferðalag fólks, hún fjallar um skrásetningu og skattlagningu 

Frásagan er því mjög jarðnesk, umgjörð hennar er boð frá keisaranum, ferðalag verðandi foreldra og margt það sem við getum heimfært upp á okkar eigið líf, boð frá yfirvöldum og valdhöfum, ferðalag á heimaslóðir. Á okkar tímum þurfa margir að hverfa burtu, frá sínum heimaslóðum, sökum ógna náttúrunnar, sökum átaka eða aðstæðna hverskonar. Heimaslóðirnar eru því á dagskrá um jólin, þar sem hjartað slær, við viljum gjarnan vera heima á jólum, fara heim, vera með okkar nánustu um jólin. 

Við skiljum vel þessar aðstæður, þar sem lítil fjölskylda er á ferð. Óvissa og erfiðleikar, og ekki var pláss fyrir þau á áfangastaðnum, í heimahögunum 

Hin mannlegu, jarðnesku stef, sem við getum tengt okkur við, eru því óteljandi í þessari frásögu. En frásagan er meira en jarðnesk, hún hefur boðskap að færa okkur, sem getur kveikt ljós þar sem myrkur er, sem getur veitt von þar sem vonleysið ríkir, sem getur breytt lífi okkar til hins betra. 

… en einnig himnesk  

Frásagan fjallar ekki aðeins um eitthvað sem átti sér stað, eitt sinn í fyrndinni, heldur fjallar hún einnig um eitthvað sem getur gerst hér og nú, á þessari stundu, og er að gerast.  

Að því leiti er frásagan himnesk, þegar hún miðlar veruleika sem er sístæður, veruleika sem við göngum inn í og fáum að taka þátt í, á einhvern yfirnáttúrulegan máta. Frásagan getur breytt lífi þess sem meðtekur boðskapinn, heyrir og skynjar, breytt lífi viðkomandi til batnaðar. Breytt lífi okkar frá hörku til mildi, frá kulda til hlýju, frá einmanaleika til samfélags, frá skeytingarleysi til kærleika 

Frásagan fjallar á þann máta einnig um andlegan veruleika. 

Við manneskjurnar erum andlegar verur, við erum ekki bara hold og blóð, heldur einnig sál og andi. Jólafrásagan talar til hins andlega í okkur, getur snert við okkar andlega lífi, á ljóssins máta. Boðskapurinn getur fært birtu inn í okkar innri veru, okkar innra líf, okkar andlega líf.  

Jólin glæða í okkur þá djúpu og himnesku glitþræði, sem líf okkar allra er einnig ofið úr.  

Glitþræðir 

Hinir djúpu og himnesku glitþræðir ljóma í okkur þegar friður ríkir. Glitþræðirnir ljóma þegar kærleikurinn er ræktaður og tengslin sem gera lífið fagurt, þegar við hlúum hvert að öðru, gefum öðrum gaum, gefum af okkur, ekki bara eitthvað sem rúmast í kassa, heldur einnig það sem ekki er hægt að pakka inn. Gefum af okkur hlýju og mennsku, traust og kærleika og önnur þau gæði sem gera lífið ríkara, sem gera lífið sannarlega dýrmætt og þess virði að lifa því 

Við glæðum glitþræðina þegar við ræktum þau tengsl sem manninum eru mikilvæg. Tengslin við okkur sjálf, tengslin við fólkið í kringum okkur og síðan tengslin við Guð. Jólin sameina gjarnan þetta þrennt, tengslin við Guð, náungann og okkur sjálf. Á jólum er þetta á dagskrá.  

Andlegt ferðalag 

Þetta ferðalag sem jólin fjalla um, er því ekki aðeins söguleg upprifjun af ferðalagi unga parsins til Betlehem, heldur getur það einnig verið, á einhvern djúpan og merkingarþrunginn máta, ferðalag sem snýr að okkur sjálfum, okkar andlega lífi, og getur þar skipt okkur miklu máli, haft áhrif til góðs.  

Friður 

Boðskapur jólanna fjallar um frið.  

Ekki frið sem fenginn er með hervaldi, yfirgangi eða kúgun. Heldur frið, þar sem lífið fær að njóta vafans, þar sem því er lyft upp að líf allra manna er ómetanlegt og gert er ráð fyrir öllum.  

Vonin um frið hefur fylgt mannkyninu, frá upphafi.  

Þegar textar jólanna voru ritaðir var það vonin sem ríkti meðal fólksins, í aðdraganda fæðingar Jesú, að konungur myndi fæðast sem kæmi á friði. Að það myndi fæðast sannkallaður friðarkonungur. Sú von birtist í aldagömlum spádómum um fæðingu friðarkonungsins.  

Vegur Jesú er friðarvegur 

 

Jesús var uppfylling þeirra spádóma. Kannski ekki á þann máta sem margir væntu í hans samtíma, því með Jesú kom nokkuð nýtt til skjalanna. Hann kenndi mannkyni nýja leið mildi og auðmýktar, hina sönnu leið friðar hér í heimi. 

 

Allt frá fæðingu sinni miðlaði Jesú auðmýkt og mildi, hógværð og lítillæti. Ekki var reiknað með litlu fjölskyldunni í aðdraganda fæðingarinnar, ekkert gistihús, hvað þá konungshöll, var til reiðu, heldur fengu þau inni í fjárhúsi. Þegar Jesús loks kom í heiminn var hann lagður í jötu, en ekki rúm, heldur jötu, sem skepnurnar éta úr. Lítillæti og það að samsama sig hinu smæsta, minnsta, það var hans leið, allt frá fæðingu 

 

Vegferð Jesú hér í heimi fjallaði síðan um lækningu, mennsku og samfélag og það að allir menn eru dýrmætir og mikilvægir, elskaðir eins og þeir eru, þar með ég og þú. Vegferð Jesú er vegferð sem gerir ráð fyrir öllum mönnum. Þeir sem samfélagið útskúfaði á tímum Jesú, hjá þeim snæddi Jesú. Ef einhverjir voru taldir utan hópsins, þá gerði Jesús sér far um að telja þá með, og lagði mikið á sig til að gulltryggja að ráðamenn og samfélag samtíma hans, áttaði sig á því, hvað hann var að meina, þessir áttu líka að vera með 

 

Hann var jafnvel til í að leggja líf sitt í sölurnar fyrir þá sem utan standa, fyrir alla menn. Og þannig fór það líka, þ.e.a.s. hann lagði líf sitt í sölurnar, var krossfestur á páskum. En þar endaði sagan hans ekki, því hann reis upp á páskadagsmorgni. Reis upp til lífsins. Á fæðingarhátíðinni horfum við einnig til upprisuhátíðarinnar, því vitandi um það hvernig vegferðin öll var, þá fáum við að líta það undur sem boðskapurinn miðlar.  

 

Með fæðingu sinni og lífi kenndi Jesú mannkyni nýja leið, til að lifa. Lifa lífinu til fullnustu.  

 

Undur  

 

Enda virðist mikill sannleikur fólgin í þessum lærdómi. Heimurinn virðist ofinn úr slíkum vefnaði að í gegnum mildi, fórnfýsi og auðmýkt liggur leiðin til upprisu og eilífs lífs.  

 

Þetta þekkja þau kannski best sem glímt hafa við hvers konar fíkn. Þar eru þessi lögmál hvað sýnilegust, þar sem leiðin að upprisu liggur í gegnum það að játa sig sigraðan.   

 

Á sama tíma og ég er hér að tala um andlegan veruleika, þ.e.a.s. andlega eiginleika, mildi, fórnfýsi í garð annarra, auðmýkt og það að setja sig í annarra spor, þá birtast ávextir þeirra andlegu eiginleika í okkar jarðneska lífi. 

Á einhvern undursamlegan máta eru ávextir slíkra andlegrar iðkunar, þakklæti, gleði og friður.  

Friður 

Friður var einmitt það sem englarnir sungu um. Friður á jörðu.    

Og svo er það hinn djúpi sannleikur sem kynslóðirnar hafa miðlað um eðli lífsins,   

mildi, kærleika, góðvild og gæsku, en einnig um það að það er Guð sem vakir yfir, verndar og blessar, og að það er raunverulega til Guð, sem lætur sig varða, og sérstaklega þegar sorgin kveður dyra eða aðrir erfiðleikar, þá vill Guð einmitt vera þar, með okkur á lífsveginum. 

 

Um þetta fjalla jólin.  

 

Guð vill að hjarta okkur hvers og eins sé jatan hans. Að fæðing Jesúbarnsins sé ekki aðeins eitthvað sem hafi gerst í fyrndinni, heldur sé einnig að gerast nú, í lífi okkar hvers og eins.   

 

Stefán frá Hvítadal orti: 

 

Guð er eilíf ást, 

engu hjarta' er hætt. 

Ríkir eilíf ást, 

sérhvert böl skal bætt. 

Lofið Guð sem gaf, 

þakkið hjálp og hlíf. 

Tæmt er húmsins haf, 

allt er ljós og líf. 

 

Megi glitþræðirnir í þínu lífi verða þér kunnir, svo birti allt í kringum þig, en einnig og þá sérstaklega í þínu hjarta. Megi samfélag og vinátta, friður og kærleikur vera þín reynsla nú á helgum jólum, og ávallt 

 

Gleðileg jól, kæri söfnuður, kæru vinir. Gleðileg jól. 

 

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen. 

 

Takið postullegri kveðju: Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda, sé og veri með yður öllum. Amen. 


Prédikun flutt í Bústaðakirkju við aftansöng á aðfangadagskvöld 2023